5.8.07

opið

Þrammaði um Mýrina í rúmum 30 stigum og brennandi sól, það var stoppað og drukkin ein svöl rósavín og borðaðir ostar og ávextir með.
Svo skildi ég við túristana mína og horfði um stund á hina túristana sem troðfylla borgina, ég held það hljóti að stefna í metár í bransanum, af hverju hringir þá enginn aldrei í mig? Ég er með síma!
Túristarnir þurfa að drekka mikið þegar hitinn rýkur svona upp og allar tunnur voru troðfullar af tómum plastflöskum. Sums staðar er búið að setja upp tvennar tunnur, aðra fyrir ruslahaugana og hina fyrir endurvinnsluna. Mikið vantar þó ennþá upp á þetta og gekk ég með minn tóma vatnsbrúsa langa leið áður en hann rataði í endurvinnslutunnu.
Ég ákvað að taka strætó áleiðis heim, svona í góða veðrinu en varð fyrir kynferðislegu áreiti frá áttræðum manni í skýlinu og forðaði mér ofan í metró. Mun öruggara fyrir fagra konu að ferðast í margmenninu þar.
Þegar heim var komið tók ég eftir því að ég var með opna buxnaklauf. Spurningin er þá bara, hvenær í andsk. gerðist það? Er ég virkilega búin að vera svona í allan dag? Var það út af þessu sem gamli fauskurinn taldi mig álitlega til samræðis?
Það skal tekið fram að í svona hita eru klósettferðir síður en svo tíðar og aldrei var farið á slíkt apparat í þessari bæjarferð.

Annars verð ég að fara að koma hingað inn upplýsingum um Rock en Seine, tónlistarútihátíð í úthverfi Parísar í lok ágúst sem ég hef persónulega aldrei nennt á. Þetta árið er Björk aðalnúmerið, skilst mér.

Lifið í friði.