18.8.07

bananar eru hollir

Um daginn dreymdi mig að ég var með tvo valinkunna bloggara í gönguferð um París á ljóðrænar slóðir. Þessir tveir bloggarar eiga það til að yrkja. Og ég man að ég var að reyna að útskýra fyrir þeim fegurð alexandrínunnar, sem er tólf atkvæða klassíska franska ljóðlínan. Hvaðan koma svona draumar eiginlega?

Þegar ég fór að gera stórinnkaup um daginn var ég vafrandi um blessaða búðina, týnd að vanda. Ég fann hvorki vöruna sem ég leitaði að, né manninn minn með kerruna. Geng ég þá ekki fram á konu liggjandi í gólfinu, full helvítis búð af fólki og er ég reiðubúin að veðja milljón um að einhver var búinn að sjá hana en ekki nennt/þorað að kanna málið, áreiðanlega ímyndað sér að um dópista væri að ræða. Ég tala af reynslu, hef staðið með manninn minn grænan og bláan í framan, meðvitundarlausan, og fólk tók krók framhjá okkur þar sem ég reyndi að fá það til að hjálpa mér að bera hann upp úr metró. Spyrjið líka Baun, ekki langt síðan hún varð fyrir svona hegðun á Íslandinu góða.
Ég sem sagt rauk að konunni og sá að hún var byrjuð að blána. Ég get svarið það, í smá stund hélt ég að hún væri dáin. Ég strauk á henni handlegginn og fann að hún var heit og sá þá einhvern veginn að hún var ekki dáin, ekki stíf, ekki eitthvað. Þetta er í annað skipti á minni stuttu og afskaplega venjulegu ævi sem ég hef þurft að koma við manneskju án þess að vera viss hvort hún væri á lífi. Það er ekki gaman. Ég hef aðeins einu sinni séð lík, það var í kistulagningu. En nokkrum sinnum séð deyjandi fólk í sjúkrarúmi, ein af þeim manneskjum ofsótti mig í draumum lengi eftir dauða sinn.

Þegar ég var að borga á kassanum sá ég ungu konuna ganga og ræða við sjúkraliðið, mikill léttir. Það er ótrúlegt hvað svona lítil atvik geta slegið mann út af laginu. Lífið hangir á bláþræði og þess vegna erum við skyldug til að vera alltaf glöð og góð. Með góð á ég alls ekki við þæg. Það er tvennt ólíkt.

Lifið í friði.