20.8.07

meira um Falco en einnig um fangelsi

Maðurinn minn vill að það komi fram að hann man vel eftir Rock me Amadeus. En þar sem hann man ekki eftir Jeannie, er honum vart fyrirgefið af yfirvaldinu hér á bæ. Jeminn eini hvað ég man hvað ég lifði mig inn í það ljóta mál allt saman. Myrt stúlka, móðir sem gerist morðingi morðingja barnsins síns, man ekki nákvæmlega hvað ég var gömul en var akkúrat á þeim aldri að geta velt mér upp úr svona hlutum.

Það er greinilegt að nú er orðið svolítið mikið að gera hjá mér, margt sem þarf að huga að, skólar að hefjast bráðum, börnin heima alla daga (gæsla er í boði en ég afþakkaði hana), ýmislegt í gangi í túristabransanum og í skemmtanalífinu. Þá er einmitt dæmigert fyrir mig að flýja inn í eitthvað allt annað, eins og t.d. Falco karlinn, blessuð sé minning hans.

En nú ætla ég í langferð með börnin upp í 15. hverfi til lögreglunnar að sækja veski sem fannst. Börnunum finnst mjög spennandi tilhugsun að vera að fara til lögreglunnar, þau hafa einmitt mikið verið að spá í löggæslu og fangelsismálum undanfarið, ekki veit ég hvers vegna, í alvöru talað, ég sagði þeim ekki frá Hauki hennar Evu né Steinunni né öllum hinum sem sitja í fangelsi fyrir skoðanir sínar (og ekki snúa út úr, þau sitja, eða hafa þurft að sitja, í fangelsi vegna þess að þau neita að greiða sekt, en sektin er vegna skoðana þeirra og því sitja þau inni vegna skoðana sinna). Úff, þetta er löng setning og eflaust léleg en ég er ekki enn byrjuð í íslenskunáminu. Komin með veflykilinn en varð engu nær inni á Uglu síðast þegar ég leit þangað inn.

Lifið í friði.