8.8.07

ferðadagur

Dagurinn í gær var fínn. Nú VERÐ ég að koma almennilega til Brussel, sá ekki einu sinni litla pissandi drenginn, það var réttsvo tími til að koma hópnum niður á Miklatorg í hádegismat.
Franskar kartöflur eru upprunnar í Belgíu, við vorum á svo mikilli túristabúllu að þær voru ekki einu sinni neitt spes. En þær voru bornar fram með majónesi. Í Frakklandi eru þær bornar fram einar og sér en sumir vilja sinnep, örfáir fá sér majónes. Íslendingarnir heimtuðu tómatsósu og engar refjar og var það auðsótt mál. Hamborgararnir komu brauðlausir, ég þarf að rannsaka það mál nánar.
Grande Place er sannarlega fallegt torg, kannski það fegursta í heiminum?

Eindoven er ekta hollensk borg, en ég sá enn minna af henni en Brussel. Sniðugir undirgangar, bæði fyrir hjólandi og gangandi, breiðir og notendavænir. Mollið sem ég villtist óvart inn í á leiðinni á lestarstöðina er eins og moll eru út um allt.
Lestarstöðin eins og lestarstöðvar, fólk að fara, fólk að koma, fólk að týna veskinu sínu, fólk að kaupa sér nesti, fólk að kyssast dramatískum blautum kossum, Kristín grúfir sig yfir Sudoku og þykist ekkert sjá eða heyra en er með öll loftnet úti af forvitni. Engin tala bættist í þrautina alla ferðina.

Lestin var frábær, búið að taka THALYS hraðlestirnar milli Parísar, Brussel, Rotterdam og Amsterdam í gegn og annað farrými jafnast alveg á við það fyrsta.
Ég hleraði tvo unga og sérlega fríða drengi í næsta bás. Þeir gáfu ekki mikið fyrir nám á borð við listasögu eða bókmenntafræði. Fínt til að kúltívera sig upp fyrir kaffihúsaferðir en til að lifa af, no way!
Ég hleraði ýmislegt fleira en man ekkert sérstakt í augnablikinu. Saurugar hugsanir skutu upp í kolli mínum, hvernig ætli það sé, fyrir konu eins og mig, komin þó á þennan aldur (nota bene, mér finnst alls ekki farið að slá í mig, er bara ekki lengur tvítug), að vera í ástarsambandi við einn tvítugan? Væri það ekki bara kynferðislegt, gæti ég virkilega náð einhverju öðru úr sambandinu? Ég hló með mér og huggaði mig við að ég á minn karl sem er nú alveg bara hreint ágætur og uppfyllir þarfir mínar á ýmsum sviðum.

Það er mjög kósí að sitja í hraðlest að kvöldi, einhver dumbungsleg stemning, ljósin þjóta hjá eins og strik. Gott ég var með aukapeysu, hefði alveg þegið lopapeysuna. Dottaði stundum og las þess á milli úr Lesbókinni. Er ekki greinin um þýska (ungur og fríður, hné hné hné) innflytjendarithöfundinn eitthvað hroðvirknislega skrifuð?

Lifið í friði.