pæling um það sem er varla er pælandi í
Ég skrifaði í gær um eigin ritskoðun og langar að svara nöfnu minni sem sagðist vara sig á oftúlkunum lesenda:Það sem ég strokaði út í gær var bara hundleiðinlegt þvaður, eins og svo margt sem ég set hérna inn. Stundum finnst mér þetta hundleiðinlega þvaður virka vel og leyfi því að standa en stundum sé ég að það er einfaldlega algerlega flatt og því læt ég það hverfa.
Ég veit bara til þess að hafa einu sinni sært manneskju sem fannst ég skrifa opinskátt um hennar einkalíf og er það í eina skiptið sem ég hef strokað eitthvað út sem ég var búin að birta. Síðan þá minnist ég svo til aldrei á vini mína. Enginn af mínum góðu vinum bloggar, ein vinkona hefur reynt það en var afskaplega blogglöt. Hún er sú eina sem ég veit til að les ýmis blogg, önnur en mitt. Ég er stundum að vísa í þennan heim, bloggheiminn, í samræðum við vini en þau skilja þetta engan veginn þó nokkrir vinir komi og lesi mig, svona til að fylgjast með mínu lífi.
Líklega hafa einhverjir mistúlkað skrif mín, ég skrifa oft í hæðnistón, geri t.d. ansi oft grín að sjálfri mér með ýkjum og gæti það misskilist sem háalvarleg sjálfsskoðun en mér er í raun alveg sama. Það er mjög erfitt að láta hæðnistóninn skína í gegn í skrifum, það sem stendur ritað er einhverra hluta vegna oft tekið mjög alvarlega. Sjálf tek ég VONANDI fáum hlutum of alvarlega, ég er allt of upptekin við að njóta lífsins til þess. Ég er ekki að meina að ég sætti mig við fordóma, átroðning eða annað slíkt enda hef ég nú einmitt rætt það ég hef t.d. verið ásökuð um að vera bitur vegna þess að ég læt mig "málin varða".
Einu sinni fékk ég mjög sterk viðbrögð, þegar ég játaði að vera ekki hrædd við ofsatrúað fólk heldur finnast það frekar fyndið. Það var í sambandi við fólk sem afneitar þyngdarlögmálinu og trúir því að Guð ýti okkur niður á jörðina. Það var nú bara gaman að fá alls konar reiðiöskur frá lesendum. Var m.a.s. ásökuð um að vera þá sátt við að konur væru umskornar, hm, einmitt það já.
Ég skrifaði svo síðar aftur um trúmál og viðraði þá skoðun mína að trú væri einkamál hvers og eins, líkt og kynlíf og býst við að flestir sem komu inn á athugasemdakerfið hafi ætlað að skamma mig eða hissast á mér en þá vildi svo óheppilega eða skemmtilega til að þetta var á afmælisdaginn minn og fyrsta athugasemdin voru hamingjuóskir svo allir einhvern veginn skrifuðu bara hamingjuóskir. Þennan dag fékk ég næstflestu heimsóknir á bloggferlinum (eitthvað um 130 minnir mig) og hef aldrei vitað hvers vegna. Flestu heimsóknirnar komu daginn sem Anna Vélstýra tengdi á mig, ég man alls ekki lengur á hvað hún var að tengja. Ég veit sem sagt ekki hvort trúmálapistillinn hafi vakið athygli og fengið tengingu frá einhverjum hitamanni, trúar eða vantrúar, eða hvort einfaldlega allir vinir og fjölskylda kíktu inn í tilefni dagsins.
Ég blogga aðallega til að fá útrás fyrir sjálfa mig. Mér finnst ógurlega gaman að fá viðbrögð, ég man alveg hverjir fóru fyrst að skilja eftir athugasemdir og man hvað ég var glöð og hissa að einhver skildi nenna að lesa mig. Ég er í raun ennþá mjög hissa þegar mér er sagt af ókunnugu fólki að það lesi mig, eins og t.d. flugfreyjan sem ég hitti á leiðinni heim eftir sumarfríið.
Ég viðurkenni að ég fer eiginlega hjá mér, fæ sviðsskrekkog allt. Ég er sammála Tobba Tenór sem útskýrði hvers vegna hann yfirgaf moggabloggið og kom aftur yfir á blogspot. Þetta er lítið partý og er skemmtilegt sem slíkt. Ég er samt ósammála honum um að allir eigi að vera mér sammála, ég hef alltaf átt gott með að virða annarra skoðanir, finnst það alltaf ósegjanlega spennandi tilhugsun að vera á öndverðum meiði með ýmsa hluti en finna samt væntumþykjuna, samhygðina eða hvað það er sem tengir fólk hvert við annað. Ég finn bara svona stór og væmin orð, bið forláts. Til dæmis finnst mér Anna Vélstýra (svona fyrst ég var búin að minnast á hana) frábær kona og nauðsynleg lesning, fullt af hlutum sem við erum algerlega sammála um þó að hún sé fylgjandi stíflugerðum og álversbyggingum á Íslandi sem ég er ekki. Ég fæ ekki með nokkru móti séð hvernig ég gæti dæmt fylgjendur stóriðjunnar sem ómarktækt fólk og óviðræðuhæft. Au contraire.
En þó mér finnist þetta allspennandi efni að pæla betur í, verð ég nú að kveðja í bili, kannski röfla ég meira um þetta síðar, kannski aldrei. Kannski hætti ég að blogga í kvöld, kannski verð ég áttræð bloggandi blindfull kerling í Suður-Frakklandi eftir rúm fjörtíu ár. En nú þarf lítill gutti með hita og hálsbólgu á mömmu sinni að halda. Og svona til að gleðja ykkur heima á Fróni: Það rignir eldi og brennisteini hér líka!
Lifið í friði.
<< Home