raunsæ
Í gær las ég fullt af slagorðum og skemmtilegheitum um mótmæli á frönsku:Verum raunsæ, krefjumst hins ómögulega! hef ég t.d. minnst á fyrr en þetta kemur úr '68-uppreisninni og hef ég heyrt það notað af þeim sem berjast fyrir rétti allra til að hafa þak yfir höfuðið og sá í gær enn fleiri hafa nýtt sér þetta, enda þrælfín setning.
En í dag, í staðinn fyrir að sitja og stúdera mótmælagöngur, lög um slíkt á Íslandi og í Frakklandi og rétt þeirra sem vilja mótmæla eins og mig langaði, er ég búin að vera að taka til í barnaherberginu í allan dag.
Raða öllu upp á nýtt, hengja upp myndir, henda dóti, taka til í fataskápum og skúffum og nú er allt glansandi og fínt og uppraðað. Íbúar herbergisins koma svo heim á miðnætti í nótt og spái ég því að lítil ummerki um erfiði dagsins sjáist eftir klukkan tíu í fyrramálið.
En það er samt þess virði. Ég fann t.d. púslin sem vantaði í púsluspilin og það eitt og sér er nú hressandi fyrir mitt viðkvæma sálartetur. Pabbi minn ól mig upp í því að fara vel með hluti og mamma mín er mikil tiltektarkona, ég er meira eins og pabbi en stundum næ ég smá mömmutöktum og fæ af mér að henda og gefa frá mér dót.
Ég á bæði eftir að fara í gegnum stafla af kortum og myndum sem eiga að fara í albúm og annað slíkt og, það sem verra er, í gegnum risastafla af fötum sem þarf að flokka í það sem má gefa, það sem á að skila og þá hvert og það sem ég ætla að halda. Þetta átti að gerast meðan börnin væru í burtu. Það er nú of seint. Mig verkjar af tilhlökkun að knúsa þau og kjassa. Ég er öll flækt í naflastrengnum. Best að skella sér í ilmandi bað áður en ég fer út að kaupa jógúrt og annað svona matarkyns eitthvað. Ekki meira af veitingahúsum og lebenlífi í bili.
Lifið í friði.
<< Home