1.8.07

eldi

Mér dettur ekki í hug að ala börnin mín upp í samviskubiti yfir svöngu börnunum í Afríku enda sannfærð um að samviskubit er letjandi á aðgerðir frekar en hitt. Ég fyrirgef foreldrum mínum þó fyrir að hafa ógnað mér með þessu þegar ég vildi ekki klára af disknum mínum, þau gerðu það í góðri trú.

Hins vegar er ég með átak í gangi sem ég hef kosið að nefna Ávöxturinn kláraður áður en beðið er um nýjan.
Já, ég veit það, hvorki stutt né laggott og alls ekki vænlegt til sölu og gróða enda ætla ég að gefa ykkur þetta hérna alveg ókeypis:
Ef barnið hefur þann leiða ósið að vilja ekki naga allt kjötið af eplakjarnanum, heldur bara djúsí miðjuna og heimtar svo nýtt epli til að seðja hungur sitt með hálfétið eplið fyrir framan sig, er komið fínt tækifæri til að leiða það í sannleikann um sóun og áhrif hennar á náttúruna.
Þó að barnið skilji kannski ekki orðin alveg strax, getur það lært setningar á borð við: Sóun er vanvirðing við náttúruna. Svo má bæta við eftir nokkra daga eða vikur: og náttúran er undirstaða lífsins á jörðinni.
Það getur ekki verið nema gott fyrir börnin að læra svona slagorð, smátt og smátt skilja þau hvað þetta þýðir í raun og veru og þá er líklegra að þau trúi setningunni en að þau mótmæli henni, þannig var það a.m.k. með mig og Ísland úr Nató, herinn burt möntruna sem amma mín kenndi mér.

NB: þetta má yfirfæra á brauðið og skorpuna, kremið og kexið, kjötið og grænmetið og hvað annað sem ykkur dettur í hug.

Að lokum langar mig að þakka öllum aktívistunum sem tóku þátt í beinum aðgerðum á Íslandi í júlí meðan ég sjálf var í mínu sjálfhverfa fjölskyldustússi langt frá fréttatímum og bloggsíðum. Ég lýsi yfir undrun minni á góðu fólki sem telur nauðsynlegt að láta það koma fram að það sé ekki sammála þessum aðferðum, ástandið er svo slæmt, yfirgangurinn svo mikill, að það er í raun furða að ekki hafi verið barist af meiri hörku.

Lifið í friði.