10.8.07

hringt sig inn veika

Það hlaut að koma að því: Mígrenikast á vinnudegi.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég svík fólk um göngutúr. Ferlega sárt. Næstum verra en höfuðverkurinn og uppköstin.
Muna héðan í frá: Ekki fara í matarboð eftir dag í Versölum, ég er einfaldlega örþreytt eftir slíka daga og ligg yfirleitt heima eins og slytti og fer snemma að sofa. Mig langaði ekki vitund en þetta var frænka karlsins míns sem ég hef svikið nokkrum sinnum á þessu ári, bara þorði það ekki í gær.

Sem betur fer náði ég í alla, tvær alnöfnur á fengu undarlegt símtal: Góðan daginn, Kristín heiti ég, ekki ert þú stödd í París? Ha nei, ég er í Vesturbænum. Ha nei, ekki núna í augnablikinu alla veganna (ég held hún hafi vonast eftir að hafa unnið ferð).
Lenti á þeirri réttu í þriðju tilraun.

Ég er eiginlega alveg hætt að fá mígreniköst. Þau koma út frá vöðvabólgu og mér tekst að halda þessu niðri með reglulegum tímum hjá osteópata-sjúkraþjálfara-hnykkjaranum mínum. Hann var farinn í frí þegar ég kom frá Íslandi og ég hef verið ómöguleg og skökk eftir tjaldferðir og töskuburð. Heit böð, teygjur og æfingar hafa ekki nóg að segja.