14.8.07

Félagsmenn athugið

Hvar ég stóð með rúllu og pensil og gerði fyrrverandi hvítan vegg aftur hvítan hlustaði ég á Rás 1, en það var orðið ansi langt síðan síðast.

Ég veit um fullt af fólki sem á hænur en er samt ekki í félaginu.

Það getur verið afskaplega þægilegt að detta inn í spjall við mann sem lifir í allt allt öðrum veruleika en maður gerir sjálfur. Og róandi, fróandi er að heyra í fólki sem gerir hlutina af alvöru áhuga, ég er að leita að íslenskunni fyrir passíon, ástríðu já. Fólk sem nær að vera drifið áfram af ástríðu hlýtur að vera heilbrigðara en hinir.

Í gær hlustaði ég á Rás 1 allan morguninn. Það voru a.m.k. þrír fréttatímar, þar af stóri hádegisfréttatíminn. Ekki minnst orði á stúlku á leið í fangelsi. Gerðist það? Var henni stungið í steininn fyrir að berjast af ástríðu gegn stóriðjustefnunni? Og telst það ekki fréttnæmt? Ég veit hún er ekki sú fyrsta. Ég veit ekki hversu margir hafa setið inni hingað til né hvort það hefur talist frétt að slíkt gerist. Viljum við að heilbrigt ungt fólk sitji í fangelsi fyrir skoðanir sínar?

Ég veit um fullt af fólki sem er náttúruverndarsinnað og er á móti stóriðjustefnu stjórnvalda en er samt ekki í Saving Iceland. Né Framtíðarlandinu.

Veggir í barnaherbergjum geta orðið ótrúlega skítugir. Fótaför og hor voru mest áberandi, þetta var veggurinn sem kojan stendur við.

Lifið í friði.