4.8.07

feita konan

Þar sem ég kom örþreytt heim eftir sólríkan og heitan dag í bænum, lagðist ég í sófann og kveikti á sjónvarpinu eins og versti plebbi.
Ég lenti inn á einhverjum deco-þætti, sem er stjórnað af konu sem er ekki mjög mjó! Það eitt dugði til að fanga athygli mína, ung, hásrödduð, feitlagin og ofurhress kelling óð þarna um íbúð einstæðu móðurinnar sem hafði unnið þann lottóvinning að fá sjónvarpið til að endurdecorera íbúðina sína fyrir sig og drengina sína tvo. Hún óð þarna um og tók í pensla, skrúfvélar og gerði ýmislegt, a.m.k. þegar myndavélin var í gangi. Mér duttu allar dauðar lýs úr höfði, svo ólík er þessa kona þeim stereótýpum af undirgefnu barbítýpunni sem vaninn er að skreyta allt sjónvarpsefni með.
Í þáttalok kemur móðirin gangandi með lokuð augun inn í íbúðina ásamt drengjunum sínum og hnellna sjónvarpskonan telur upp að þremur. Í bakgrunninn ómar einhver svartur blússöngur sem allir þekkja en ég kann ekki að nefna. Konan og drengirnir opna augun og taka andköf og gráta og faðma sjónvarpsfólkið að sér.
Skyndilega skiptir útlit þáttastjórnanda nákvæmlega engu máli lengur. Hún er, þrátt fyrir "ögrandi" vaxtarlag og framkomu, bara ósköp venjulegur hlekkur í keðju væmninnar og pathetíkurinnar sem ráða ríkjum á öllum sjónvarpsstöðvum og er einmitt ástæðan fyrir því að afar sjaldan hendi ég mér í sófann með fjarstýringuna.

Réttu mér gubbufötuna, er ekki kominn tími á drykk elskan? Laugardagskvöld og börnin á KOS.

Lifið í friði.