3.8.07

viljiði vorkenna mér, bara smá?

Ég er að brjóta heilann um það hvort ég eigi að halda áfram að búa í þessari 70m2 íbúð með engum svölum, á 5. hæð án lyftu.
Mig langar svo að hafa skrifstofu sem getur verið gestaherbergi þegar slíka ber að garði og svo langar mig ógurlega mikið að hafa svalir fullar af plöntum og stólum og borði sem hægt er að borða við. Ekki myndi skemma að börnin hefðu sitt hvort herbergið (er þetta rétt? sitthvort eða sitt hvort?).
Annað er ég þokkalega sátt við þessa íbúð, eldhúsið er lítið og innréttingin hrákasmíð en úr því væri hægt að bæta. Reyndar hefur komið upp sú hugmynd að færa eldhúsið fram í stofu og breyta eldhúsinu í 3. herbergið sem myndi þá leysa annað hvort skrifstofu/gestaherbergis vandamálið eða skortinn á barnaherbergi nr. 2.
OG það er víst möguleiki að búa til svalir hérna þar sem við erum á efstu hæð, hefur víst verið gert hér aðeins neðar í götunni. En þá þurfum við að skera burt hluta af fermetrunum okkar sem eru alls ekki of margir, við erum jú fjögurra manna fjölskylda.

Önnur hugmynd væri að í staðinn fyrir svalir hér gætum við keypt okkur garð annars staðar. Sumarbústaðalóð, helst með eldgömlum hlöðnu húsi sem mætti alveg vera óuppgert og ég gæti dúllað mér við að gera upp og á meðan byggjum við í tjaldi á lóðinni. Ég sé mig alveg í anda í litla sveitahúsinu mínu. Með stóra skemmu fyrir vinnuaðstöðu. Ég get alveg séð það fyrir mér já.

En fyrst vantar okkkur peninginn. Átt þú svoleiðis?

Lifið í friði.