26.1.07

franskan mann á öll heimili

Ég var að frétta af frönskum 19 ára dreng sem kemur til að vinna á Íslandi í mánuð í tengslum við viðskiptanámið í París og vantar herbergi að láni.
Hann er besti vinur hálfíslensks drengs en fjölskylda vinarins á Íslandi hefur ekki aðstöðu fyrir hann (þau eru flest í sveitinni sko). Málið er að hann kemur núna á laugardaginn!
TIlvalið tækifæri til að læra smá frönsku en ekki er ætlast til neins sérstaks utan venjulegra heimilissamskipta. Hann verður í vinnu kl. 9-17 og verður eitthvað með fjölskyldu vinarins á kvöldin um helgar.

Ég þekki til hálfíslenska drengsins og get borið honum afskaplega vel söguna.

Áhugasamir geta sent mér póst.

Lifið í friði.

Efnisorð:

knowing me

Ég vissi og fann að ég gæti ekki gert neitt af viti fyrr en ég væri búin að laga þetta og VOILA! Gerði það alveg sjálf.
Hér kemur sem sagt viðvörun til allra sem ætla að færa sig:
Farðu fyrst inn í template-ið og taktu afrit af því. Gerðu "Select All" og "Copy" og límdu afrit inn í textaskjal sem þú vistar svo.

Þegar þú ert búin að flytja þig getur það sem sagt gerst að íslensku stafirnir brenglast eins og gerðist í listunum mínum. Ég skoðaði þá í template-inu og þar voru þeir brenglaðir. Þá fór ég yfir í textaskjalið mitt og valdi þessa lista alveg frá fyrstu fyrirsögn og niður í síðasta tengil, tók afrit, fór yfir í template og valdi þar allt þetta sama (sem var ruglað) og límdi úr textaskjalinu yfir.
Ef þú skilur þetta ekki, er það ekki vegna heimsku, ég kem ekki alveg orðum að þessu og ætla núna að drífa mig í annað.
Ef þú þarft nánari útskýringar er nóg að biðja um þær.

Lifið öll í friði og spekt.

Efnisorð:

hjálp hjálp

Ég sé alla tenglana mína brenglaða. Hvað á ég að gera?
Hvernig sérð þú þá?

Hjálpið mér þið sem kunnið svo margt og ég ekki neitt.

Lifið í friði en ekki fyrr en mér hefur verið bjargað.

Efnisorð:

Handbolti

Þrátt fyrir algert áhugaleysi á handbolta er ég nú farin að kíkja eftir niðurstöðum og bera saman gengi Íslands og Frakklands og ræða þetta við manninn minn.
Mér finnst gaman að fylgjast með bloggurum eins og Kolbrúnu og Elmu sem eru gagnteknar af þessu, þó ég skilji ekki beint þessa ástríðu. Í raun hef ég bara alltaf gaman af fólki sem er ástríðufullt og helst eiga þau að vera nördar (nirðir? nerðir? hvað var aftur íslenska orðið?) Þó ég nái ekki að smitast, smitar gleðin eða tilfinningaþrunginn samt einhvern veginn undarlega út frá sér.

Ég var að færa mig yfir á nýja Blogger (þó ég hefði ekki verið pínd til þess eins og Hildigunnur, bara ákvað að gera það einmitt núna vegna þess að ég hafði í raun ekki tíma til að vera neitt í tölvunni, var að stelast og það eru einmitt kjöraðstæður fyrir mig til að bretta upp ermar og skella mér í hluti sem ég hef látið sitja á hakanum).

Í dag ætla ég að ljúka við tiltekt í barnaherberginu, klára einn meil með verðum, gera tvær ítrekanir, pakka niður fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem verður í burtu í fjóra daga, svara vonandi frönskum blaðamönnum sem munu hringja unnvörpum út af bréfstúf sem þau fengu í gærkvöld út af væntanlegum mótmælum við Þjórsá 3. febrúar, hlaða inn myndum og prenta út fyrir restir af áramótakorti, borða eitthvað...

Með þessu öllu saman hlusta ég kannski á Tom Waits, fékk hann í jólagjöf og hef ekki tekið úr plastinu. Og diskurinn sem ég keypti á Íslandi og ætlaði að hlusta vel á og dæma hefur legið hér og safnað ryki, kannski nafni minn Níelsson fari líka undir geislann?

Eða kannski ég leggist upp í rúm með Henning Mankell og pakki svo bara í svitabaði í fyrramálið og láti annað sitja á hakanum áfram?

Veit ekki til hvers ég er að skrifa þetta, langaði bara að prófa að skrifa í nýja bloggernum.

Lifið í friði.

Efnisorð:

25.1.07

moggafletting

Eftir hraðflettingu á Mogga síðasta laugardags hef ég þetta að segja:

Það er kona í svörtum brúðarkjól á einum stað og maður í hvítum brúgðumafötum á öðrum.

Enn kemur ekkert svar frá leikhúsrýnum eftir frábæra grein í Lesbókinni 6. janúar. Sú grein er eftir konuna sem skapaði og leikstýrði sýningunni Þjóðarsálin í reiðhöll nokkurri fyrr í vetur. Því miður er ég ekki lengur með blaðið þar sem ég vildi dreifa boðskapnum og man hvorki nafn konunnar góðu né reiðhallarinnar.
Þegar ég hóf lesturinn í flugvél á leið til Danmerkur fór fyrst um mig einhvers konar kjánahrollur. Ó, nei. Sár listamaður að svara lélegri gagnrýni. En þessi grein var svo miklu miklu meira en það og gersamlega yfir einhver sárindi hafin. Vel skrifuð og útpæld. Mig langar í þessa grein aftur. Og mig langar að biðja ykkur öll sem hafið snefil af áhuga á einum af eftirtöldum málaflokkum: leiklist, list og tilgangi hennar eða fordómum í garð fatlaðra, að lesa þessa grein. Ég ætlaði að vera búin að benda á þetta fyrir löngu síðan en tíminn rennur mér úr greipum hraðar en hönd á festir (hey, má maður leika sér á fimmtudagsmorgni?).

Lifið í friði.

23.1.07

þoli ekki

dót dót dót
mig langar svo að taka herbergi barna minna og tæma það af dóti og drasli en samt get ég það ekki því stundum leika þau með eitt og annað tími einhvern veginn eða kann ekki við að taka frá þeim
best fannst mér um daginn þegar dóttir mín tilkynnti mér að hún ætlaði að búa til súkkulaðiköku og tók legóplastdunkinn sinn einn hest nokkra kubba eitthvað af öðru dóti og hristi dunkinn vel og vandlega og færði mér svo disk ég sagði namminamm og allir voru ánægðir til hvers er verið að búa til leikföng sem líta út alveg eins og alvörudót þegar maður er barn þarf maður ekkert annað en ímyndunaraflið
til hvers að tala um þetta þið vitið þetta öll
bara varð að fá það á tilfinninguna að ég væri að tala við fullorðna
ég á eftir að setja upp dagsrká með verðum fyrir tvo hópa sem bíða eftir bréfum frá mér en það er ekki smuga að gera slíkt með þrjú börn yfir sér verkfall í skólanum svo bæði mín heima plús vinkonan á móti

Lifið í friði.

Ísland-Frakkland

Nei, ég horfði ekki á handboltann. Það hefur áður komið fram hérna að áhugi minn á íþróttum er, á skalanum núll til tíu, sirkabát í núlli. En ég óska nú samt Íslendingum til hamingju með sigurinn í gær og bravó fyrir að halda ykkur innan við tólf marka sigurinn til að tryggja ykkur forskot í næsta riðli (er það ekki rétta orðið annars?). Já, ég get alveg endurtekið þetta hérna eftir nokkur símtöl frá sigurvímaðri fjölskyldunni sem horfði vitanlega á leikinn í gær þó ég skilji alls ekki þessar flóknu reglur né langi til þess að skilja þær.
Það hefur líka komið fram hér áður að stundum, í gamla daga, þegar ég horfði á móður mína, föður og systur stökkva samtaka upp úr sófanum og klappa og öskra, þar sem ég stóð í dyragættinni með tja, til dæmis stærðfræðibókina í hendi, íhugaði ég alvarlega möguleikana á því að kannski væri ég ættleidd.

En ekki nóg með að Íslendingar rústi Frökkum í handbolta einhvers staðar í Þýskalandi, einhverra hluta vegna hafa þeir fundið sig knúna til þess að senda okkur ískalt loft í nótt, hitastigið hrundi úr þægilegu rúmlega tíu gráðunum niður í núllpúnktinn og rokið sem skók húsið að utan í nótt vakti mig nokkrum sinnum. Takk fyrir það.
Ég get ekki annað en spurt mig að því hvort þetta hafi eitthvað með Nicolas Hulot að gera. Hann tilkynnti í gær að hann ætlar ekki að bjóða sig fram í forsetaembættið (og varpa nokkrir öndinni léttar yfir því, allt of vinsæll fyrir þetta pólitíkusapakk sem ætti varla séns í hann) en er hins vegar alsæll með hve margir frambjóðendur skrifuðu undir umhverfissáttmála hans og lofar hann að fylgjast vel með kosningabaráttunni í vor og vekja samstundis þá kandídata sem honum finnst sofna á verðinum, sem gleyma umhvefisþættinum eða koma með loforð sem standast ekki sáttmálann. Ó, ef Ísland ætti svona Nicolas Hulot, ha? já, alveg rétt, við eigum jú Ómar Ragnarsson og vonandi verður hann jafnharður áfram og hann hefur verið hingað til. Það er alveg hægt að líkja þeim saman, vinsælir sjónvarpsmenn sem þekkja fullt af pólitíkusum, brennandi áhugi á umhverfismálum.
Ef þú hefur ekki græna glóru um hvað ég er að tala þýðir það að þú ert ekki skráð(ur) á póstlista Framtíðarlandsins. Það er hreinasta firra, nýja fyrirkomulagið þeirra er flott og gaman að fá 2. tölublað í pósthólfið í gær. Flottar myndir af Steinunni Sigurðardóttur í Frakklandi og fínar greinar og alls ekki of mikið.
Skyldi íslenska ríkisstjórnin vera hrædd við Nicolas, nógu hrædd til að refsa Frökkum svona svakalega með sigri í handbolta og ískulda sem kemur og truflar vorlegan veturinn okkar?

Og undarleg tilviljun er líka að daginn fyrir þetta kuldakast (ég get sagt ykkur það að á morgun er spáð snjókomu) deyr maðurinn sem "REYNDI AÐ ELSKA", Abbé Pierre. Hann sagði í viðtali fyrir nokkrum árum að hann vildi fá þessi orð á legsteininn: "Hann reyndi að elska". Abbé Pierre var ungur munkur sem yfirgaf regluna í harða kuldakastinu vetrinn 1954 til að bjarga heimilislausum frá dauða á götum Parísar. Hann stofnaði Emmaüs, sterk og mikil hjálparsamtök sem hafa barist með kjafti - Abbé Pierre leit út fyrir að vera hinn blíðasti, en gat sko látið það vaða þegar honum misbauð - og klóm fyrir réttindum fátækra og heimilislausra. Abbé Pierre er einn af þessum mönnum sem sýna skýrt að ekki gerir trúin fólk alltaf að einhverjum skrýmslum eins og trúlausir vilja sífellt vera láta og beita fyrir sér geðsjúklingum og valdafíklum því til sönnunar.
Ég grét ekki þegar ég heyrði af andláti Abbé Pierre, hann var saddur lífdaga og getur ekki hafa verið annað en ánægður með verk sín hér á jörð. Hins vegar fór ég næstum því að grenja af reiði þegar ég sá helvítis félagsmálaráðherra sitja með hræsnissvip, kipra munninn eins og hann væri klökkur og spyrja sig hvort hann hefði kannski getað gert meira fyrir þennan langmest elskaða Frakka okkar tíma. Ég gæti ælt þegar þetta jakkafatalið vogar sér svona lýðskrum, sitjandi í sínum ofurlaunuðu stöðum með börnin í einkaskólum, lið sem borgar hvorki glæsihúsnæði sitt né skatta. Gubb.

Lifið í friði.

22.1.07

kvennakvöldið

Á laugardaginn hittumst við konurnar íslensku í Frakklandi enn og aftur og fórum saman út að borða. Við vorum 47 talsins og efa ég ekki að stundum fór hávaðinn vel yfir hættumörk á veitingastaðnum. Við vöktum líka enga smáræðis athygli þegar við gengum út í einfaldri röð, fólkið í fremri salnum trúði ekki sínum eigin augum, hvílíkur fjöldi fagurra kvenna hefur sjaldan sést samankominn. Eftir matinn fórum við allar heim til eðalparísardömu og drukkum kampavín.

Mikið hefur verið rætt um það hvort við ættum að hleypa körlunum með okkur. Ég hef í sjálfu sér aldrei haft neitt á móti því, en ég veit að það mun breyta andrúmsloftinu aðeins. Það er allt öðruvísi stemning í blönduðum hópum.
Eiginlega er ekki hægt að bjóða mökum með, hugmyndin upprunalega var að geta einu sinni, eitt kvöld, hist og talað saman í friði á íslensku. Ef franskir makar koma með verður það vonlaust. Í raun og veru eru þessi kvöld ákveðið frí frá því að vera útlendingur, við þurfum náttúrulega að eiga við þjónustufólkið á staðnum en burtséð frá því líður okkur öllum eins og við séum bara komnar heim.

Í menntaskóla umgekkst ég aðallega stráka, vinahópurinn minn fasti og þröngi var fjórir strákar og ég. Ég man alltaf að mæður þeirra spurðu þá stundum hvort ég ætti enga vinkonu, þær höfðu einhverjar áhyggjur af mér í þessum karlahópi. Ég man líka að ég heyrði sögur um það að ég væri kærasta þeirra allra og fannst okkur það svo fyndið að lengi var ég kölluð dráttarvélin.
Ég held að mér hafi ekkert orðið meint af þessu tímabili, síður en svo. Ég tel mig skilja karlmenn ágætlega og hef oft fussað yfir hæfni kvenna til að gera aðeins of mikið úr hlutunum, kann ágætlega við karlmennskulegan áhuga (lesist: algert áhugaleysi) á afmælisdögum og heimboðum sem þarf að endurgjalda og fleira í þeim dúr. Ég get stundum geispað golunni yfir fjasi vinkvenna minna um hegðun og skyldur og hver sagði hverjum hvað fyrst.
En ég á samt góðar vinkonur sem ég kynntist m.a. í menntaskólanum og jafnvel fyrr og svo hef ég náttúrulega kynnst ógrynni af konum hér í París, sem ég tel svo góða vini að ég myndi vaða eld og brennistein fyrir þær.
Ég held í raun að ég hafi aldrei pælt neitt sérstaklega í kynjamismun og fyrir mér er þetta afskaplega lítið mál allt saman. Ég held að ég hafi ákveðið KVENNAkvöld eingöngu vegna þess að það eru svo hrikalega fáir karlmenn hérna og eins og kona góð benti á í sambandi við þetta, það er allsendis óvíst að þeir myndu nenna að koma þó þeim væri boðið.
Sú kona stakk upp á því að hægt væri að hafa barhitting fyrir alla einu sinni á ári en halda kvennakvöldinu óbreyttu. Það gæti bara meira en verið að í haust verði öll Íslendinganýlendan boðuð öll saman út á lífið. Þarf samt aðeins að hugsa þetta betur og auðvitað er fáránlegt að vera að spá í þetta núna meðan ég er enn örmagna eftir laugardagskvöldið, jesús maría jósep, ég var að til klukkan fimm um morguninn!

Lifið í friði.

19.1.07

lesist

Þetta er áhugaverð grein

Til hamingju með nýja vefinn.

Og Grasagudda (nenni ekki fleiri tenglum) er líka þrælfínn vefur, lifandi og skemmtilegur.

Lifið í friði.

Mikki, kemurðu aldrei aftur?

Mér leiðast Bloglines, ég vil Mikka vef aftur. Núna!

Lifið í friði.

ykkur á Fróni til hugarhægðar

Í dag gekk ég yfir Tuileries garðinn og stemningin var alls ekki sú sama og um daginn. Nú lágu stólarnir fínu eins og hráviði um garðinn, gosbrunnurinn stóð í næstum láréttri línu langt út á gangstíginn og ekki var mikið af fólki úti enda einhver hluti af stormi sem gekk yfir París í dag.
En Vatnaliljurnar hans Monet grættu mig næstum því, og svo er miklu meira af öðrum spennandi verkum sem ég mundi alls ekki eftir, það bara hreinlega liggur við að safnið sé of stórt. Tímabundnu sýninguna sá ég varla, arkaði í gegn svona til öryggis, ef ske kynni að einhver mynd tæki upp á því að öskra á mig en það varð ekki af því.

Á leiðinni að safninu hringdi vinkona í mig. Á leiðinni út rifjaðist upp fyrir mér að í matarboði hjá þessari konu, fyrir tæpum tveimur áratugum síðan spunnust miklar umræður um það hvort hægt væri að kalla safn "krúttlegt" en það gerði einn matargesta og fékk skömm í hattinn frá öðrum fyrir.

Ég strengdi lítið heit í dag, en það verður leyndarmál í smá tíma.

Á að fara að skipta yfir í betublogger? Eru slæmar aukaverkanir? Þarf ég að vista tengla og svona annars staðar á meðan?

Lifið í friði.

18.1.07

jeudi noir

Skrifin í gær fjölluðu aðallega um það hvort ég ætti að berja börnunum í gegn um meira nám en skylduna, hvort að það væri þess virði að troða þeim í tónlistarnám eða aðrar aukagreinar.
Svo var líka lýsing á frönskum ritaradreka, þær eru alltaf svo skemmtilegar.

Svörin fjalla öll um vetrardoðann.

Hvað segir það um lesendur mína?

Nú skil ég miklu miklu betur fræðin um sendanda og viðtakanda úr bókmenntafræðinni.

Í gær lamdi rigning og rok rúðurnar hérna, við kveiktum á kerti og settum upptöku af eðalþættinum Arrêt sur images í tækið og horfðum á pælingar um aðferðir og markmið samtaka á borð við Jeudi noir, Médécins du monde og Les enfants de Don Quichotte. Þetta eru þrjú félagasamtök sem hafa með misjöfnum leiðum reynt að vekja athygli fjölmiðla og yfirvalda á hrikalegum húsnæðisvanda í Frakklandi.

Jeudi noir (Svartur fimmtudagur) er hópur ungs fólks og námsmanna sem fóru af stað í haust með mótmælaaðgerðir sem gengu þannig fyrir sig að þau mættu í stórum hóp í íbúðir sem voru auglýstar til leigu og þar sem leigusalinn auglýsti ákveðinn heimsóknartíma. Þau komu með vídeóvél, freyðivín, glös og knallettur og slógu upp stuttu partýi. Þau settu fyrsta partýið á netið og höfðu samband við fjölmiðla sem komu svo með þeim í næstu skipti og fjallað var um þau í fréttatímum flestra sjónvarpsstöðva. Skilaboðin voru: Við höfum ekki efni á þessum íbúðum, höfum ekki efni á neinum íbúðum, svo við notum tækifærið þegar þær standa opnar og auðar og gerum okkur glaðan dag undir þaki. Við höfum rétt á því að komast í húsaskjól.

Médécins du monde (læknar heimsins) eru samtök lækna sem hafa mikið aðstoðað húsnæðislausa, eru með rútur sem fara um borgirnar á nóttunni og bjarga fólki sem er kalt og slæpt, gefa lyf og næringu og hafa eflaust bjargað nokkrum mannslífum. Í fyrra dreifðu þau tjöldum til húsnæðislausra því veturinn var sérlega harður og kaldur og þessi tjöld hafa orðið óhugnalega fastur hluti af landslaginu í París. Það stóðu m.a. tvö eða þrjú tjöld við Pompidou-safnið langt fram á sumar án þess að nokkuð væri að gert. Mikil umræða skapaðist um það hvort tjöldin væru til að fela eymdina eða hvort þau gerðu hana einmitt meira áberandi og vektu þannig okkur hin til umhugsunar. En þessi samtök hafa í raun aldrei verið mikið að troða sér í fjölmiðla, þeirra starf gengur mun meira út á aðstoð en baráttu. Í raun einkenndist orðræða fulltrúa þeirra aðallega af vonleysi, hann trúir ekki á töfralausnir sem lofað hefur verið núna korteri fyrir kosningar.

Les enfants du Don Quichotte eru nýjustu samtökin, stofnuð af tveimur bræðrum sem byrjuðu líka á netinu (miðill unga fólksins) með gjörningi sem fólst í því að annar bróðirinn fleygði sér næstum nakinn út í skipaskurðinn í París, Canal Saint Martin, kom svo upp úr blautur og hrakinn og sagði í myndavélina að nú yrði að gera eitthvað í málunum, allt of margir væru heimilislausir og þrjátíu prósent heimilislausra eru fólk með vinnu. Við þetta væri ekki lengur unað.
Eitt leiddi svo af öðru, þeir skruppu í stóru íþróttabúðina Décathlon og keyptu 100 tjöld. Þau reyndust vera rauð, sem var tilviljun (tjöld læknanna voru grá og hermannagræn). Stór hópur fór með tjöldin niður á Concorde-torg en þar biðu 10 óeirðalögreglumenn á hvern mótmælanda og voru þau rekin ofan í metró. Þá lá leiðin upp á Bastillu-torgið þar sem sagan endurtók sig og þá var haldið upp á bakkana við áðurnefndan Canal Saint Martin þar sem tjöldunum var slegið upp við bakkana beggja megin. Hugsunin var að ef lögreglan réðist að þeim dyttu þau ofan í vatnið og þremur dögum áður hafði lögregla lent í vandræðum út af drukknun elts manns sem fleygði sér í á í Nantes.
Þessar aðgerðir vöktu mikla, MIKLA, athygli fjölmiðla og stjórnmálamanna sem fóru allir að tala um lög um réttindi til húsaskjóls, Chiraq, Ségolène Royal, ráðherrar og borgarstjórar um allt land (aðgerðirnar færðust hratt í aðrar borgir í Frakklandi, tjaldbúðir risu á torgum flestra stórborganna) tjáðu sig og lofuðu öllu fögru.

Í þættinum sögðu ungu mennirnir að þar sem fjölmiðlar eru klikkaðir, þarf að gera eitthvað klikkað til að ná athygli þeirra.
Don Kíkóta-barnið neitaði því að allt hefði verið útpælt, tjöldin voru óvart rauð, skipaskurðurinn sem er svo vel þekktur í kvikmyndasögunni (Hotel du Nord) var tilviljun, þeir skipulögðu ekki það að heilu fjölskyldurnar komu og prófuðu að gista í tjöldum eina nótt undir skínandi ljósum myndavélanna (alger vísun í þætti eins og Vis ma vie (Lifðu lífi mínu) sem eru hluti af raunveruleikaþáttaflóðbylgjunni), fræga fólkið kom sjálft til þeirra o.s.frv.

Að minnsta kosti náðist mikil umfjöllun um heimilisleysi venjulegs fólks, fólks sem hefur alls ekki valið að vera á götunni, fólk sem er með vinnu og mætir í hana, fólk sem á börn, foreldra og ættingja en hefur samt engar lausnir því ekki getur vinnandi maður búið hundruðum kílómetra frá vinnustaðnum, ekki er hægt að vinna í París og búa í útkjálkasveit í Miðhálendinu. Fleiri og fleiri lenda í þessari aðstöðu að missa húsnæði sitt og geta þá ekki fengið annað leigt vegna fáránlegra krafa um tekjur og tryggingar. Oft er þetta fólk sem skilur, fólk með lág laun sem þarf nú að stofna tvö aðskilin heimili. Ekki alltaf, en þarna er t.d. punktur sem getur leitt til hrikalegra aðstæðna, þeirra að fólk þori ekki að skilja út af húsnæðisvandamálinu, að konur sitji fastar í ofbeldisfullu hjónabandi því þær eiga hreinlega ekki í önnur hús að venda.
Það eru margar hliðar á þessu yfirþyrmandi máli.
Kökkurinn var dálítið beiskur í hálsi okkar í gær þegar við slökktum á sjónvarpinu og heyrðum aftur í byljandi veðrinu fyrir utan. Og svo vogar maður sér að vorkenna sér, finnast íbúðin of lítil, of margir stigar, of heitt hérna inni...

Lifið í friði.

17.1.07

mercredi libre

Miðvikudagar eru frídagar í frönskum skólum.
Í haust beitti ég ýtni og mjúkum þrýstingi til að koma börnunum í tónlistarskóla á miðvikudagsmorgnum. Við áttum nefninlega víst að sækja snemma um og biðlistarnir voru langir. En ég mætti bara galvösk með börnin og talaði við kennarann sem játaði fyrir mér eftir tvo tíma að það vantaði fullt af börnum af listanum sem ég og fór og tilkynnti ritaranum og tróð mínum inn í staðinn. Ég er viss um að fleiri börn hefðu komist að með sömu aðferð en ritarinn virðist líta á hlutverk sitt vera að halda fólki frá, ekki draga fólk að. Allt of mikið að gera hjá henni nú þegar.
Nú dauðsé ég eftir þessu, það er einhvern veginn þúsund sinnum erfiðara að koma öllum af stað á morgnana þegar ég veit að megnið af börnunum er núna hangandi á náttfötunum að leika sér með dótið sem enn er spennandi frá jólunum - enda ekki "nema" 17. janúar í dag.
Til hvers að vera að juða þessu liði í tómstundastörf og listanám þegar langlíklegast er að um 13 ára aldurinn gera þau uppsteyt og nenna engu nema hanga í tölvuleikjum með vinunum?

Æ, ég er bara þreytt enda vakti ég einhverra undarlegra hluta vegna til rúmlega tvö í nótt, alein í myrkrinu. Kannski var það Ray Charles, við horfðum a.m.k. á myndina um hann í gær og eitthvað inni í mér fór á fullt.
Ég sá Ray í Rex fyrir rúmum áratug.
Það var upplifun, hann var einhvern veginn eins og ekki af þessum heimi, eins og hann væri hengdur upp á rassinum, það eina sem snerti jarðtengdan hlut voru fingurnir á lyklaborðinu, allur líkaminn einhvern veginn í loftinu allan tímann.

Ég vil helst ekki að börnin mín verði of miklir snillingar, ekki þannig að þau geti ekki höndlað það.

Ég er svo þreytt.

Lifið í friði.

16.1.07

finnst

Mér finnst ég ekki hafa stoppað en samt finnst mér ég ekkert hafa gert. Mér finnst þetta oft.

Lifið í friði.

sko!

Fyrirsögnin er tengill í grein eftir Sigríði Pétursdóttur a.k.a. Sigga Kvika. Þetta er góð grein sem Árni Sigfússon svaraði víst í bréfi til Sigríðar. En hvað svo? Er framsýni bannorð hjá íslenskum ráðamönnum?

Annars var Danmerkurferðin fín tilbreyting og gott að hitta vinkonu sína eftir met-aðskilnað eða 1 og 1/2 ár. Sem við reyndar trúðum varla því eins og allir sem eiga góðan vin vita þarf ekki endilega að sjást til að elska og finna fyrir.

Á leiðinni heim fékk ég þær fréttir að gamli maðurinn á jarðhæðinni hafði dáið um nóttina. Það er alltaf erfitt að missa, jafnvel þó vitað sé að lífið sem hann hefði átt hefði gengið út á geislameðferðir og þjáningu.
Erfiðast er að horfa nú upp á konuna hans, hún er vitanlega miður sín enda voru þau sérlega samrýmd og eiga enga fjölskyldu. Hún er nú alein þó við séum öll hérna fyrir hana.

Lifið í friði.

10.1.07

I love Paris

Í fyrradag talaði ég við konu í símann þar sem ég lá eins og slytti í sófanum að jafna mig eftir gubbupest. Var búin að drekka tebolla og virtist ætla að halda honum niðri. Hún spurði mig hvort það væri mikið að gera hjá mér og ég sagði eins og satt var að það væri nákvæmlega ekkert að gera hjá mér. Við ákváðum stefnumót á fimmtudaginn.
Nokkrum klukkustundum síðar var ég komin með miða til Danmerkur á fimmtudaginn, vélin fer í loftið um það leyti sem ég ætlaði að hitta hana (og ég á eftir að láta hana vita). Og svo hafa þættinum borist þrjú bréf, febrúar er allur að glæðast, og ýmislegt sem ég þarf að byrja að stússast í núna strax út af því.
Gaman gaman.
Mér leiðist svo innilega ekki þessi janúar en það er náttúrulega aðallega vegna þess að hér ríkir enginn alvöru janúar. Meira svona aprílfílingur, ég get svarið það að ég kiknaði í hnjáliðunum í gær á gangi um Tuileries garðana, vetrarsólin, appelsínugulblátt ljósið, nakin trén eins og skúlptúrar, fólk í sólbaði í fallegu grænu stólunum sem Einar myndaði svo vel og ég nota á síðunni minni. Ég klökknaði og hugsaði með mér að ég ætti náttúrulega alltaf að taka með mér myndavélina þegar ég fer í bæinn. En í staðinn naut ég bara veðurblíðunnar og birtunnar og veit að ég á aldrei eftir að gleyma þessari mynd sem ekki var tekin. Ég var á leiðinni í Orangerie-safnið sem ég á enn eftir að skoða eftir breytingarnar. Var í metró og sá að ég hafði tvo tíma til að drepa og var að renna inn á Concorde stöðina og stökk út umhugsunarlaust. Var í skýjunum yfir þessari brilljant hugmynd og hálfvalhoppaði yfir Tuileriesgarðinn og naut fyrrnefndar birtu og stemningu. Þegar ég fór að nálgast safnið áttaði ég mig þó á að líklega væri ekki allt með felldu. Og jú, safnið er auðvitað lokað á þriðjudögum eins og Louvre sjálft (orangerie er gamla gróðurhúsið í hallargarðinum við Louvre þar sem ræktaðar voru appelsínur fyrir konung). Mikil vonbrigði sem ég hristi þó af mér enda ekki hægt að fara í fýlu í svona fallegu veðri. Skoðaði bygginguna vel að utan, brosti undurblítt til svertingjanna sem hömuðust við að þrífa gluggana (örugglega ekki auðvelt í miskunnarlausri vetrarsólinni sem sýnir hvert einasta ský á gluggum) og fór í W.H. Smith í staðinn að skoða bækur sem ég hef ekki efni á en það skiptir ekki máli. Það er svo gaman að skoða í fallegum bókabúðum. Las aftan á einhverja tugi bóka og skoðaði orðabók sem ég ætla að eignast um leið og ég fæ borgað í febrúar.
Þegar ég var á leið niður í metró aftur var tekið að rökkva, sólin horfin úr trjákrónunum í Tuileries. Þar sem ég var að fálma eftir veskinu mínu, fann ég myndavélina sem var enn í töskunni síðan á sunnudaginn. Dugði það til að koma mér í fýlu? Ó nei, Pollýanna hefur náð yfirhöndinni í sálu minni.

Og ef þið trúið mér ekki varðandi veðrið, kíkið þá á útsprungnu rósina hjá Rósu Rut. Og drífa sig svo til Parísar!

Lifið í friði.

9.1.07

EITT

Sú eina sem svaraði mér varðandi herstöðina var hún Eva norn, Reykvísk sápa heitir tengillinn á hana.
Hennar svar var eins og mig grunaði, að ekkert væri rætt opinberlega um þetta mál.
Líklega er íslenska ríkisstjórnin enn að sleikja sárin eins og kona sem er yfirgefin af manni. Það þarf smá tíma til að jafna sig á niðurlægingunni áður en hægt er að fara aftur að lifa lífinu.
Málið er að þarna stendur þetta tilbúna þorp og nú þegar hafa orðið skemmdir upp á stórar fjárhæðir út af vatnslögnum og frosti.
Er ekki betra að taka ákvörðun áður en fleira fer að skemmast og liggur ekki í augum uppi að þetta þorp er tilvalið að nota í hinn ofursvelta málaflokk "menning og listir"?
Verður herstöðin ekki örugglega menningar- og listamiðstöð? Aðstaða fyrir kvikmyndagerðarmenn, tónlistarmenn, rithöfunda, listmálara, félagsfræðinga, heimspekinga, stærðfræðinga... Er ekki augljóst að gömul herstöð er fullkominn vettvangur fyrir hugsun og sköpun?

Ég er kannski draumóramanneskja en við erum fleiri og dag einn munt þú koma í mitt lið líka.

Lifið í friði.

TVÖ

Þetta myndband er áhugavert að skoða. Vinsamlegast látið mig vita ef þið sjáið staðreyndarvillur í því, ég hef það fyrir sið að trúa helst engu sem ég sé og heyri, en auðvitað er freistandi að trúa þessu, ég hreinlega elska að hata W þessa dagana:

Ævi útsendara

Lifið í friði.

ÞRJÚ

Munið að næstu þrjá laugardaga er útsala hjá Ömmu Ruth

Lifið í friði.

8.1.07

klikk

Ég held að ég hljóti að mega teljast allverulega klikkuð. Það er a.m.k. á hreinu að ég hef ekki tíma til að vera veik lengi, ég er að fara til Danmerkur. Þegar vinkona þarf á manni að halda... (og mér finnst ekkert slæm tilhugsun heldur að flýja heimilið í nokkra daga).

Lifið í friði.

gubb

Er það ekki dæmigert að daginn sem börnin fara loksins aftur í skólann, liggur móðirin í gubbupest?
Ég vil fá margar samúðarkveðjur og svo ætla ég að reyna að taka mig saman í andlitinu og hætta að vera veik, ég hef bara einfaldlega hvorki tíma til þess né nennu. Ég leyfi mér að segja þetta núna því ég virðist ætla að halda niðri tebollanum og er farin að spá í hvort ég ætti að sjóða mér hrísgrjón eða pasta. Það er góðs viti.
Nóttin var hryllingur, lá og engdist um af kvölum, hrottalega óglatt með beinverki um allan líkamann. Eitt af því versta við að verða fullorðinn (eða það er mér sagt að ég sé) er að hafa ekki mömmu til að vorkenna sér, hlúa að sér, koma heim úr vinnunni með appelsín og lakkrísrör og setja hreint ver á koddann. Mamman er alveg það langbesta við veikindi og erfitt að standa í svona með mömmuna í öðru landi.

Ég er búin að flakka um netheima, bæði í gærkvöld og í morgun. Ég fékk, eins og ég segi í athugasemdahalanum hér að neðan, bréf frá Andra forstjóra Ölgerðarinnar þar sem hann þakkar ábendinguna og ætlar að stöðva þennan sleikleik. Það er gott mál, en dugar t.d. ekki fyrir Silju og Katrínu Önnu sem hafa sniðgengið vörur Ölgerðarinnar öll jólin út af Egils Lite auglýsingu. Sem ég hef ekki séð, enda horfi ég svo til aldrei á auglýsingar, lækka alltaf hljóðið niður (er einmitt nýkomin aftur með mute-takka, sem var fundinn upp af gvuði sjálfri) og reyni að beina athygli minni annað þegar ég sit fyrir framan sjónvarpið og auglýsingar hefjast. Auðvitað er maður aldrei alveg óhultur og stundum er gaman að skoða auglýsingar í hófi, fylgjast með hvaða straumar og stefnur eru notaðar til að veiða fólk í neyslunetið o.s.frv. En ég endurtek: Í hófi.

Annað mál sem brennur á fólki er Múrinn og óvarlegur, vægast sagt, brandari þar sem Thelma er notuð á afar óviðurkvæmilegan hátt. Ég hef engu við Málbein, Nönnu og fleiri að bæta, þau segja í raun allt sem segja þarf en mér er bara spurn hvort þau Múrverjar hugsuðu sig nokkuð um, hvort þau spurðu sig ekki hvernig Thelmu myndi líða ef hún sæi þetta sjálf? Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Í staðinn fyrir að koma svo með undarlega afsökunarbeiðni, kryddaða eineltisvæli à la Framsóknarflokkurinn (á meðan þessi varnarliðsveggur unga fólksins utan um Steingrím minnir óþægilega á aðferðir Sjálfstæðismanna við að verja foringjann), ættu Múrverjar að sjá sóma sinn í að fjarlægja þessa setningu af síðunni. Finnst mér.

Ég er ekki enn búin að ákveða mig hvað ég ætla að kjósa í vor. Annað hvort VG eða Samfylkinguna. Þ.e.a.s. ef það er ekki of seint að láta setja sig inn á kjörskrá, ég frétti nefninlega utan að mér að ég væri dottin þaðan út. Sem mér finnst óþarfa frekja, ég hef alltaf kosið þó ég búi í útlandinu.

Lifið í friði.

6.1.07

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þó mig langi ekki til að vera smáborgari, þó mig langi til að vera töff og öðruvísi, þá er það ekki nóg til að forða mér frá smáborgaranum sem býr í mér og tekur reglulega yfir líf mitt.
Ég reyni að gera mitt besta til að lifa í sátt og samlyndi við hann og vera um leið meðvituð um að mín smáborgaravandamál eru ekkert annað en það. Nei, ekki lifa í sátt og samlyndi við hann því í raun hata ég hann og vil að hann fari.
En mikið finnst mér fyndið að sjá annan smáborgara verða ægilega svekktan þegar hann er kallaður réttu nafni. Þá hlær norski sjóarinn í mér hátt og hressilega. Norski sjóarinn er sko ekki smáborgari, hann mígur í saltan sjó, spýtir í lófana og kúkar á kerfið.

Ég er hissa á viðbragðaleysi við póshnakka-síðunni en kannski fólk nenni ekki að kíkja þangað því ég tengi ekki á hana? Ég vil ekki tengja á hana vegna þess að sumir kunna að rekja tengla á sig (ég kann það því miður ekki sjálf) og ég vil helst losna við að fá pós-gaurana hingað inn, mig óar við þeim og smápíkutali þeirra. Myndskotin af brjóstaskorum minna mig á fulla karla starandi slefandi niður hálsmálið, gelið í hári drengjanna er viðbjóður, eru þeir kannski með kinnalit líka? Mig óar við svona mönnum og gæti trúað þeim til ofbeldis og ógnarverka.
Ég skil nú mun betur bróður minn sem forðast skemmtanalífið eins og heitan eldinn fyrst þetta er það sem hann aldursflokkur er að gera á djamminu. Ég býst fastlega við að annað sé í boði fyrir hans aldursflokk en sú staðreynd að hann hangir yfirleitt í heimahúsi með vinum sínum truflar mig ekki neitt, ég myndi ekki afbera að horfa upp á hann í svona félagsskap.

Í gær fór ég að sjá mynd í bíó. Myndinni er hægt að líkja við að drekka glas af rjóma en samt virkaði hún einhvern veginn, ég sé a.m.k. ekki eftir peningunum sem fóru í aðgangseyrinn. Myndin heitir The Holiday og þó hún verði aldrei jafnlanglíf og rómantísku gamanmyndirnar sem hún vísar til, er hún ágætis afþreying. Batteríið er búið. Lifið í friði.

5.1.07

veðurblíða

Veðrið er svo yndislegt að það vottar ekki fyrir janúartilfinningu í brjósti mér. Ég var steinhissa á að sjá Ester dæsa yfir lengd og leiðindum þessa mánaðar. Ef ég væri þið myndi ég skella mér á síðu flugfélagsins, þið vitið, sem flýgur beint hingað á laugardögum og tékka á miða. Milt og gott veður, m.a.s. stundum smá sól. Stuttar raðir á söfnin og upp í turninn stóra, góður matur, flott fólk, Parísardaman og bara flest allt það góða sem lífið hefur upp á að bjóða.
Nú, þú getur svo sem líka bara legið heima hjá þér, hugsað um skuldirnar, pirrað þig á veðrinu og haldið áfram að vera hlýðinn launaþræll. Vessgú.

Annars mæli ég með því, ef ykkur líst of vel á Ísland, að kíkja á síðu sem heitir pose.is, þar fáið þið að kynnast rjómanum úr hinu ofurdásamaða íslenska skemmtanalífi, og stelpur, ekki missa af sleikmyndakeppninni, eins og Unnur internetmamma orðar það svo vel: "frábært tækifæri fyrir ungar stúlkur". Setningin sem situr hvað mest í mér eftir flakk um pose.is er eitthvað á þá leið að "stelpur fá í miðjuna á að sjá hann", á að sjá hann hlýtur að vera hluti af hnakkamálfræðinni, sem ég þekki enn ekki mjög vel.
Ég geri ráð fyrir að flestir séu búnir að sjá myndbandið með Borat-hjónunum íslensku, það er t.d. tengt í það hjá Farfuglinum. Já, skoðið þetta og tékkið svo á miðum til Parísar.

Ég er farin niður í bæ með börnin.

Lifið í friði.

Herstöðin

Hefur einhver ákvörðun verið tekin um notkun herstöðvarinnar?
Þarna stendur þorpið sem Andri lýsir svo nákvæmlega í Draumalandinu, þorp með öllu sem til þarf. En hvað verður gert við það?

Lifiði í friði.

4.1.07

græn

Hvar var ég að lesa eitthvað um orðið grænn fyrir nokkrum mánuðum? Og hverjir höfðu skrifað lærðar greinar um orðið grænn?
Einhvern veginn er ég með Þorstein Gylfason í kollinum, eitthvað í sambandi við orð og orðskilning, en finnst sem hann hafi verið að vitna í eða þýða einhvern annan, Chomsky? Kristeva?
Ég hlýt annað hvort að hafa lesið eitthvað í Lesbókinni um þetta eða á vísindavefnum (sem ég les ekki oft en festist stundum þar inni ef ég kíki á eitthvað).
Alla vega var fjallað um að lýsingarorðið grænn væri varhugavert þar sem það hefði tvær þýðingar, annars vegar liturinn sjálfur, staðreyndin að eitthvað er grænt eins og gras og hins vegar að vera nýgræðingur, óreynd. Gott ef ekki var búin til setning sem við fyrstu sýn var absúrd, en hægt var að finna meiningu í með þessari meðvitund um margræðni orðanna.
Ansans, hvað það fer í taugarnar á mér að muna þetta ekki almennilega.

Því ég hugsaði strax og ég las að mikið vatn hefði runnið til sjávar á stuttum tíma, ég er næstum sannfærð um að flestir sem lásu fyrirsögnina tengdu pistilinn við umhverfisvernd. Er það rangt hjá mér?

Ef einhver getur bent mér á það hvað ég er nákvæmlega að tala um, er það fullkomlega leyfilegt. Ef ekki skiptir það ekki nokkru einasta máli, ég er ekkert að fara að skrifa lærða grein.

Ég er svo í lokin með eina spurningu varðandi myndagátuna sem reyndist svo létt að ég hef alveg getað leyst hana með athyglissjúk börnin yfir mér, tók þó þrjár atrennur sem er góð aukning frá því í fyrra. Ég vil bara vera viss um að í gátunni sé lausn einnar myndarinnar um-þ-ess
Ég er búin að ákveða að senda inn lausnir bæði á mynda- og krossgátunni og ef svo undarlega vill til að ég vinn ætla ég að láta ágóðann renna til grænna mála, umhverfisverndar.

Lifið í friði.

skepnur

Bóndinn sagði:
Jú, já og jamm og jæja, ég held að ég verði nú að segja það, að af öllum skepnunum mínum þykir mér vænst um konuna.

Lifið í friði.

3.1.07

ekki heldur

Ég er ekki númer!

Lifið í friði.

ekki

Ég er ekki alki,
ég er ekki alki,
ég er ekki alki fyrir fimmaura.
Ég er ekki alki,
Ég er ekki alki,
ég er ekki alki fyrir fimmaura.

Lifið í friði.

Sérdeilis hressandi viðsnúningur

Hvað er þetta "að snúa sólarhringnum við" sem allir eru að kvarta yfir? Hér skiptir ekki nokkru máli hvort það er frí eða ekki, allir dottnir niður úr þreytu fyrir allar aldir og komnir hressir framúr fyrir allar aldir.

Mér fannst skaupið fínt, horfði á það á pínulitlum skjá í litlu tölvunni og hló oft og mörgum sinnum. Ekki spillti fyrir að sjá Arndísi fyrrverandi Parísardömu, hún er frábær leikkona með flott útlit.
Það eftirminnilegasta núna er flugfreyjan úti í hrauni með vagninn sinn, Sagabútíkk. Öll sú sena talaði til mín, bæði er ég á móti ríkisstjórninni og umhverfisverndarsinni og svo þoli ég ekki þessa bévítans skjái sem troða sér næstum inn í heilann á manni þegar flogið er út fyrir allar aldir á morgnana. Hefði tekið með mér byssu og skotið niður þessa hörmung núna síðast ef nokkur leið væri að komast framhjá öryggiseftirlitinu með vopn.
Margt annað var líka fínt í skaupinu, en ég er samt búin að gleyma því öllu. Gullfiskur. Ha? Hvaða fiskur?

Lifið í friði.

vítamínavítamín

Um daginn splæsti ég í einhverja ofurblöndu af vítamínum og steinefnum sem átti að hressa mig við, laga minniskubbana og lækna mig af doða, þreytu og ofurviðkvæmni gagnvart hávaða, verkkvíða og öðru sem ég hef þjáðst af undanfarið.
Nú er vandamálið bara að ég gleymi alltaf að taka blessuð vítamínin. Skyldi vera til ráð við því?

Lifið í friði.

Kvennaferðin til Africa

Hér er tengill á kvennaferðina sem ég minntist á í síðasta bloggi.
Til að forðast allan misskilning mun ég því miður ekki komast með í þessa ferð núna. Ég á einfaldlega ekki gott með að skilja mann og börn eftir svona lengi enda eru börnin mín mjög ung og maðurinn minn vinnur fram eftir á kvöldin. Það yrði of flókið. Peningar eru líka fyrirstaða, en ég myndi nú samt redda því ef ég teldi annað leysanlegt. En ég er sem sagt byrjuð að safna fyrir svona ferð og fer sannarlega með næst, eða þarnæst.

Svo vil ég taka það fram að ég er ekki eiginlegur bloggari, ég byrjaði allt of seint að skrifa á netið og hafði lítið lesið þegar ég byrjaði og þar liggur skýringin á sérstöðu minni og því erfitt að raða mér í hóp annarra bloggara svokallaðra.
Ég er ekki bloggari.
Ég er ekki bloggari.
Ég er ekki bloggari.

Lifið í friði.

2.1.07

lausn

Ég þarf að leita lausna.
Á svo mörgum mismunandi sviðum að ég veit ekki hvernig ég á að byrja.
Líklega best að byrja á því versta og færa sig svo upp listann?
Eða hita sig upp með því auðveldasta?
En hvað er erfiðast, að eiga við veitingamenn og veisluhaldara eða finna skápa og hirslur eða hvers vegna mér líður alltaf eins og dauðyfli eða...
Ætli þessi vika fari kannski bara í að búa til listann?
Uppglenningur pirraði sig á orðinu svefnlausnir, en mig vantar einmitt lausn frá svefninum. Ég er ekki til í að verða eiturlyfjaneytandi svo ekki stinga upp á neinum ávanabindandi efnum.

Annars hvet ég ykkur til að fara til Afríku með Lindu blinda dindli og fleirum, ég ætlaði að vera löngu búin að plögga þessa vægast sagt spennandi ferð og nú sé ég að ekki er komin næg þáttaka til að negla ferðina. Ég beið og bíð enn eftir netlausnum bróður míns, ég ætlaði að fara að blogga í gegnum eigin síðu eins og flotta liðið en hér húki ég enn á blogger þó það sé komið 2007 og næ aldrei að gera helminginn af því sem mig langar.
Afríkuferðin er með Úrval Útsýn, 16 dagar í febrúar. Mig vantar tengilinn. Kannski þið finnið út úr þessu sjálf?

Lifið í friði.

1.1.07

heit

Ég er löngu hætt að strengja heit um áramótin enda nógu samviskubitin án þess að vera að kvelja mig meira en nauðsyn er.
Ég er þó ákveðin í að fara fljótlega í Hammam, arabískt gufubað og hver veit hvort ég reyni ekki að vera duglegri við það á þessu ári en á því nýliðna fór ég aldrei.
Ég skal skrifa góða lýsingu á hammamferð fljótlega, hef ekki tíma núna því við ætlum út með grislingana í rokið að leika.

Yndislegt matarboð í gær, þrenn pör og öll svo menningarleg og markaðslega einhverf að enginn hafði keypt hatta eða flautur eða hvellettur og, það sem meira er, enginn minntist orði á að slíkt vantaði.

Takk fyrir okkur.

Komum heim rétt fyrir tvö, ekki mikil umferð, en slatti af fólki á gangi og allir í góðu skapi, vinkandi okkur og brosandi. Börnin eru þreytt enda held ég að þau hafi aldrei vakað svona lengi áður. Og vöknuðu vitanlega samt fyrir níu í morgun.

Ég verð að játa að ég hef aldrei eytt jólum eða áramótum í París nema þá lokuð inni með mínu fólki, aldrei upplifað biðraðir á veitingahús og veit ekki almennilega hvort erfitt er að fá mat í París á jólum og áramótum. Þetta var aðeins rætt í gærkvöld vegna þess að vinir okkar lentu í miklum vandræðum 30. des og enduðu á slúbertastað að borða.
Því ætla ég að reyna að fá upplýsingar frá vesalings fólkinu sem reyndi að fá upplýsingar frá mér fyrir jólin því eins og þið munið kannski er ég búin að ákveða að markaðssetja aðventuna og jólin í París á þessu ári. Þetta er ekki áramótaheit.

Hér er allt komið í bál og brand, þreytt börn eru leið börn.

Lifið í friði.