8.1.07

gubb

Er það ekki dæmigert að daginn sem börnin fara loksins aftur í skólann, liggur móðirin í gubbupest?
Ég vil fá margar samúðarkveðjur og svo ætla ég að reyna að taka mig saman í andlitinu og hætta að vera veik, ég hef bara einfaldlega hvorki tíma til þess né nennu. Ég leyfi mér að segja þetta núna því ég virðist ætla að halda niðri tebollanum og er farin að spá í hvort ég ætti að sjóða mér hrísgrjón eða pasta. Það er góðs viti.
Nóttin var hryllingur, lá og engdist um af kvölum, hrottalega óglatt með beinverki um allan líkamann. Eitt af því versta við að verða fullorðinn (eða það er mér sagt að ég sé) er að hafa ekki mömmu til að vorkenna sér, hlúa að sér, koma heim úr vinnunni með appelsín og lakkrísrör og setja hreint ver á koddann. Mamman er alveg það langbesta við veikindi og erfitt að standa í svona með mömmuna í öðru landi.

Ég er búin að flakka um netheima, bæði í gærkvöld og í morgun. Ég fékk, eins og ég segi í athugasemdahalanum hér að neðan, bréf frá Andra forstjóra Ölgerðarinnar þar sem hann þakkar ábendinguna og ætlar að stöðva þennan sleikleik. Það er gott mál, en dugar t.d. ekki fyrir Silju og Katrínu Önnu sem hafa sniðgengið vörur Ölgerðarinnar öll jólin út af Egils Lite auglýsingu. Sem ég hef ekki séð, enda horfi ég svo til aldrei á auglýsingar, lækka alltaf hljóðið niður (er einmitt nýkomin aftur með mute-takka, sem var fundinn upp af gvuði sjálfri) og reyni að beina athygli minni annað þegar ég sit fyrir framan sjónvarpið og auglýsingar hefjast. Auðvitað er maður aldrei alveg óhultur og stundum er gaman að skoða auglýsingar í hófi, fylgjast með hvaða straumar og stefnur eru notaðar til að veiða fólk í neyslunetið o.s.frv. En ég endurtek: Í hófi.

Annað mál sem brennur á fólki er Múrinn og óvarlegur, vægast sagt, brandari þar sem Thelma er notuð á afar óviðurkvæmilegan hátt. Ég hef engu við Málbein, Nönnu og fleiri að bæta, þau segja í raun allt sem segja þarf en mér er bara spurn hvort þau Múrverjar hugsuðu sig nokkuð um, hvort þau spurðu sig ekki hvernig Thelmu myndi líða ef hún sæi þetta sjálf? Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Í staðinn fyrir að koma svo með undarlega afsökunarbeiðni, kryddaða eineltisvæli à la Framsóknarflokkurinn (á meðan þessi varnarliðsveggur unga fólksins utan um Steingrím minnir óþægilega á aðferðir Sjálfstæðismanna við að verja foringjann), ættu Múrverjar að sjá sóma sinn í að fjarlægja þessa setningu af síðunni. Finnst mér.

Ég er ekki enn búin að ákveða mig hvað ég ætla að kjósa í vor. Annað hvort VG eða Samfylkinguna. Þ.e.a.s. ef það er ekki of seint að láta setja sig inn á kjörskrá, ég frétti nefninlega utan að mér að ég væri dottin þaðan út. Sem mér finnst óþarfa frekja, ég hef alltaf kosið þó ég búi í útlandinu.

Lifið í friði.