19.1.07

ykkur á Fróni til hugarhægðar

Í dag gekk ég yfir Tuileries garðinn og stemningin var alls ekki sú sama og um daginn. Nú lágu stólarnir fínu eins og hráviði um garðinn, gosbrunnurinn stóð í næstum láréttri línu langt út á gangstíginn og ekki var mikið af fólki úti enda einhver hluti af stormi sem gekk yfir París í dag.
En Vatnaliljurnar hans Monet grættu mig næstum því, og svo er miklu meira af öðrum spennandi verkum sem ég mundi alls ekki eftir, það bara hreinlega liggur við að safnið sé of stórt. Tímabundnu sýninguna sá ég varla, arkaði í gegn svona til öryggis, ef ske kynni að einhver mynd tæki upp á því að öskra á mig en það varð ekki af því.

Á leiðinni að safninu hringdi vinkona í mig. Á leiðinni út rifjaðist upp fyrir mér að í matarboði hjá þessari konu, fyrir tæpum tveimur áratugum síðan spunnust miklar umræður um það hvort hægt væri að kalla safn "krúttlegt" en það gerði einn matargesta og fékk skömm í hattinn frá öðrum fyrir.

Ég strengdi lítið heit í dag, en það verður leyndarmál í smá tíma.

Á að fara að skipta yfir í betublogger? Eru slæmar aukaverkanir? Þarf ég að vista tengla og svona annars staðar á meðan?

Lifið í friði.