18.1.07

jeudi noir

Skrifin í gær fjölluðu aðallega um það hvort ég ætti að berja börnunum í gegn um meira nám en skylduna, hvort að það væri þess virði að troða þeim í tónlistarnám eða aðrar aukagreinar.
Svo var líka lýsing á frönskum ritaradreka, þær eru alltaf svo skemmtilegar.

Svörin fjalla öll um vetrardoðann.

Hvað segir það um lesendur mína?

Nú skil ég miklu miklu betur fræðin um sendanda og viðtakanda úr bókmenntafræðinni.

Í gær lamdi rigning og rok rúðurnar hérna, við kveiktum á kerti og settum upptöku af eðalþættinum Arrêt sur images í tækið og horfðum á pælingar um aðferðir og markmið samtaka á borð við Jeudi noir, Médécins du monde og Les enfants de Don Quichotte. Þetta eru þrjú félagasamtök sem hafa með misjöfnum leiðum reynt að vekja athygli fjölmiðla og yfirvalda á hrikalegum húsnæðisvanda í Frakklandi.

Jeudi noir (Svartur fimmtudagur) er hópur ungs fólks og námsmanna sem fóru af stað í haust með mótmælaaðgerðir sem gengu þannig fyrir sig að þau mættu í stórum hóp í íbúðir sem voru auglýstar til leigu og þar sem leigusalinn auglýsti ákveðinn heimsóknartíma. Þau komu með vídeóvél, freyðivín, glös og knallettur og slógu upp stuttu partýi. Þau settu fyrsta partýið á netið og höfðu samband við fjölmiðla sem komu svo með þeim í næstu skipti og fjallað var um þau í fréttatímum flestra sjónvarpsstöðva. Skilaboðin voru: Við höfum ekki efni á þessum íbúðum, höfum ekki efni á neinum íbúðum, svo við notum tækifærið þegar þær standa opnar og auðar og gerum okkur glaðan dag undir þaki. Við höfum rétt á því að komast í húsaskjól.

Médécins du monde (læknar heimsins) eru samtök lækna sem hafa mikið aðstoðað húsnæðislausa, eru með rútur sem fara um borgirnar á nóttunni og bjarga fólki sem er kalt og slæpt, gefa lyf og næringu og hafa eflaust bjargað nokkrum mannslífum. Í fyrra dreifðu þau tjöldum til húsnæðislausra því veturinn var sérlega harður og kaldur og þessi tjöld hafa orðið óhugnalega fastur hluti af landslaginu í París. Það stóðu m.a. tvö eða þrjú tjöld við Pompidou-safnið langt fram á sumar án þess að nokkuð væri að gert. Mikil umræða skapaðist um það hvort tjöldin væru til að fela eymdina eða hvort þau gerðu hana einmitt meira áberandi og vektu þannig okkur hin til umhugsunar. En þessi samtök hafa í raun aldrei verið mikið að troða sér í fjölmiðla, þeirra starf gengur mun meira út á aðstoð en baráttu. Í raun einkenndist orðræða fulltrúa þeirra aðallega af vonleysi, hann trúir ekki á töfralausnir sem lofað hefur verið núna korteri fyrir kosningar.

Les enfants du Don Quichotte eru nýjustu samtökin, stofnuð af tveimur bræðrum sem byrjuðu líka á netinu (miðill unga fólksins) með gjörningi sem fólst í því að annar bróðirinn fleygði sér næstum nakinn út í skipaskurðinn í París, Canal Saint Martin, kom svo upp úr blautur og hrakinn og sagði í myndavélina að nú yrði að gera eitthvað í málunum, allt of margir væru heimilislausir og þrjátíu prósent heimilislausra eru fólk með vinnu. Við þetta væri ekki lengur unað.
Eitt leiddi svo af öðru, þeir skruppu í stóru íþróttabúðina Décathlon og keyptu 100 tjöld. Þau reyndust vera rauð, sem var tilviljun (tjöld læknanna voru grá og hermannagræn). Stór hópur fór með tjöldin niður á Concorde-torg en þar biðu 10 óeirðalögreglumenn á hvern mótmælanda og voru þau rekin ofan í metró. Þá lá leiðin upp á Bastillu-torgið þar sem sagan endurtók sig og þá var haldið upp á bakkana við áðurnefndan Canal Saint Martin þar sem tjöldunum var slegið upp við bakkana beggja megin. Hugsunin var að ef lögreglan réðist að þeim dyttu þau ofan í vatnið og þremur dögum áður hafði lögregla lent í vandræðum út af drukknun elts manns sem fleygði sér í á í Nantes.
Þessar aðgerðir vöktu mikla, MIKLA, athygli fjölmiðla og stjórnmálamanna sem fóru allir að tala um lög um réttindi til húsaskjóls, Chiraq, Ségolène Royal, ráðherrar og borgarstjórar um allt land (aðgerðirnar færðust hratt í aðrar borgir í Frakklandi, tjaldbúðir risu á torgum flestra stórborganna) tjáðu sig og lofuðu öllu fögru.

Í þættinum sögðu ungu mennirnir að þar sem fjölmiðlar eru klikkaðir, þarf að gera eitthvað klikkað til að ná athygli þeirra.
Don Kíkóta-barnið neitaði því að allt hefði verið útpælt, tjöldin voru óvart rauð, skipaskurðurinn sem er svo vel þekktur í kvikmyndasögunni (Hotel du Nord) var tilviljun, þeir skipulögðu ekki það að heilu fjölskyldurnar komu og prófuðu að gista í tjöldum eina nótt undir skínandi ljósum myndavélanna (alger vísun í þætti eins og Vis ma vie (Lifðu lífi mínu) sem eru hluti af raunveruleikaþáttaflóðbylgjunni), fræga fólkið kom sjálft til þeirra o.s.frv.

Að minnsta kosti náðist mikil umfjöllun um heimilisleysi venjulegs fólks, fólks sem hefur alls ekki valið að vera á götunni, fólk sem er með vinnu og mætir í hana, fólk sem á börn, foreldra og ættingja en hefur samt engar lausnir því ekki getur vinnandi maður búið hundruðum kílómetra frá vinnustaðnum, ekki er hægt að vinna í París og búa í útkjálkasveit í Miðhálendinu. Fleiri og fleiri lenda í þessari aðstöðu að missa húsnæði sitt og geta þá ekki fengið annað leigt vegna fáránlegra krafa um tekjur og tryggingar. Oft er þetta fólk sem skilur, fólk með lág laun sem þarf nú að stofna tvö aðskilin heimili. Ekki alltaf, en þarna er t.d. punktur sem getur leitt til hrikalegra aðstæðna, þeirra að fólk þori ekki að skilja út af húsnæðisvandamálinu, að konur sitji fastar í ofbeldisfullu hjónabandi því þær eiga hreinlega ekki í önnur hús að venda.
Það eru margar hliðar á þessu yfirþyrmandi máli.
Kökkurinn var dálítið beiskur í hálsi okkar í gær þegar við slökktum á sjónvarpinu og heyrðum aftur í byljandi veðrinu fyrir utan. Og svo vogar maður sér að vorkenna sér, finnast íbúðin of lítil, of margir stigar, of heitt hérna inni...

Lifið í friði.