23.1.07

Ísland-Frakkland

Nei, ég horfði ekki á handboltann. Það hefur áður komið fram hérna að áhugi minn á íþróttum er, á skalanum núll til tíu, sirkabát í núlli. En ég óska nú samt Íslendingum til hamingju með sigurinn í gær og bravó fyrir að halda ykkur innan við tólf marka sigurinn til að tryggja ykkur forskot í næsta riðli (er það ekki rétta orðið annars?). Já, ég get alveg endurtekið þetta hérna eftir nokkur símtöl frá sigurvímaðri fjölskyldunni sem horfði vitanlega á leikinn í gær þó ég skilji alls ekki þessar flóknu reglur né langi til þess að skilja þær.
Það hefur líka komið fram hér áður að stundum, í gamla daga, þegar ég horfði á móður mína, föður og systur stökkva samtaka upp úr sófanum og klappa og öskra, þar sem ég stóð í dyragættinni með tja, til dæmis stærðfræðibókina í hendi, íhugaði ég alvarlega möguleikana á því að kannski væri ég ættleidd.

En ekki nóg með að Íslendingar rústi Frökkum í handbolta einhvers staðar í Þýskalandi, einhverra hluta vegna hafa þeir fundið sig knúna til þess að senda okkur ískalt loft í nótt, hitastigið hrundi úr þægilegu rúmlega tíu gráðunum niður í núllpúnktinn og rokið sem skók húsið að utan í nótt vakti mig nokkrum sinnum. Takk fyrir það.
Ég get ekki annað en spurt mig að því hvort þetta hafi eitthvað með Nicolas Hulot að gera. Hann tilkynnti í gær að hann ætlar ekki að bjóða sig fram í forsetaembættið (og varpa nokkrir öndinni léttar yfir því, allt of vinsæll fyrir þetta pólitíkusapakk sem ætti varla séns í hann) en er hins vegar alsæll með hve margir frambjóðendur skrifuðu undir umhverfissáttmála hans og lofar hann að fylgjast vel með kosningabaráttunni í vor og vekja samstundis þá kandídata sem honum finnst sofna á verðinum, sem gleyma umhvefisþættinum eða koma með loforð sem standast ekki sáttmálann. Ó, ef Ísland ætti svona Nicolas Hulot, ha? já, alveg rétt, við eigum jú Ómar Ragnarsson og vonandi verður hann jafnharður áfram og hann hefur verið hingað til. Það er alveg hægt að líkja þeim saman, vinsælir sjónvarpsmenn sem þekkja fullt af pólitíkusum, brennandi áhugi á umhverfismálum.
Ef þú hefur ekki græna glóru um hvað ég er að tala þýðir það að þú ert ekki skráð(ur) á póstlista Framtíðarlandsins. Það er hreinasta firra, nýja fyrirkomulagið þeirra er flott og gaman að fá 2. tölublað í pósthólfið í gær. Flottar myndir af Steinunni Sigurðardóttur í Frakklandi og fínar greinar og alls ekki of mikið.
Skyldi íslenska ríkisstjórnin vera hrædd við Nicolas, nógu hrædd til að refsa Frökkum svona svakalega með sigri í handbolta og ískulda sem kemur og truflar vorlegan veturinn okkar?

Og undarleg tilviljun er líka að daginn fyrir þetta kuldakast (ég get sagt ykkur það að á morgun er spáð snjókomu) deyr maðurinn sem "REYNDI AÐ ELSKA", Abbé Pierre. Hann sagði í viðtali fyrir nokkrum árum að hann vildi fá þessi orð á legsteininn: "Hann reyndi að elska". Abbé Pierre var ungur munkur sem yfirgaf regluna í harða kuldakastinu vetrinn 1954 til að bjarga heimilislausum frá dauða á götum Parísar. Hann stofnaði Emmaüs, sterk og mikil hjálparsamtök sem hafa barist með kjafti - Abbé Pierre leit út fyrir að vera hinn blíðasti, en gat sko látið það vaða þegar honum misbauð - og klóm fyrir réttindum fátækra og heimilislausra. Abbé Pierre er einn af þessum mönnum sem sýna skýrt að ekki gerir trúin fólk alltaf að einhverjum skrýmslum eins og trúlausir vilja sífellt vera láta og beita fyrir sér geðsjúklingum og valdafíklum því til sönnunar.
Ég grét ekki þegar ég heyrði af andláti Abbé Pierre, hann var saddur lífdaga og getur ekki hafa verið annað en ánægður með verk sín hér á jörð. Hins vegar fór ég næstum því að grenja af reiði þegar ég sá helvítis félagsmálaráðherra sitja með hræsnissvip, kipra munninn eins og hann væri klökkur og spyrja sig hvort hann hefði kannski getað gert meira fyrir þennan langmest elskaða Frakka okkar tíma. Ég gæti ælt þegar þetta jakkafatalið vogar sér svona lýðskrum, sitjandi í sínum ofurlaunuðu stöðum með börnin í einkaskólum, lið sem borgar hvorki glæsihúsnæði sitt né skatta. Gubb.

Lifið í friði.