5.1.07

veðurblíða

Veðrið er svo yndislegt að það vottar ekki fyrir janúartilfinningu í brjósti mér. Ég var steinhissa á að sjá Ester dæsa yfir lengd og leiðindum þessa mánaðar. Ef ég væri þið myndi ég skella mér á síðu flugfélagsins, þið vitið, sem flýgur beint hingað á laugardögum og tékka á miða. Milt og gott veður, m.a.s. stundum smá sól. Stuttar raðir á söfnin og upp í turninn stóra, góður matur, flott fólk, Parísardaman og bara flest allt það góða sem lífið hefur upp á að bjóða.
Nú, þú getur svo sem líka bara legið heima hjá þér, hugsað um skuldirnar, pirrað þig á veðrinu og haldið áfram að vera hlýðinn launaþræll. Vessgú.

Annars mæli ég með því, ef ykkur líst of vel á Ísland, að kíkja á síðu sem heitir pose.is, þar fáið þið að kynnast rjómanum úr hinu ofurdásamaða íslenska skemmtanalífi, og stelpur, ekki missa af sleikmyndakeppninni, eins og Unnur internetmamma orðar það svo vel: "frábært tækifæri fyrir ungar stúlkur". Setningin sem situr hvað mest í mér eftir flakk um pose.is er eitthvað á þá leið að "stelpur fá í miðjuna á að sjá hann", á að sjá hann hlýtur að vera hluti af hnakkamálfræðinni, sem ég þekki enn ekki mjög vel.
Ég geri ráð fyrir að flestir séu búnir að sjá myndbandið með Borat-hjónunum íslensku, það er t.d. tengt í það hjá Farfuglinum. Já, skoðið þetta og tékkið svo á miðum til Parísar.

Ég er farin niður í bæ með börnin.

Lifið í friði.