6.1.07

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þó mig langi ekki til að vera smáborgari, þó mig langi til að vera töff og öðruvísi, þá er það ekki nóg til að forða mér frá smáborgaranum sem býr í mér og tekur reglulega yfir líf mitt.
Ég reyni að gera mitt besta til að lifa í sátt og samlyndi við hann og vera um leið meðvituð um að mín smáborgaravandamál eru ekkert annað en það. Nei, ekki lifa í sátt og samlyndi við hann því í raun hata ég hann og vil að hann fari.
En mikið finnst mér fyndið að sjá annan smáborgara verða ægilega svekktan þegar hann er kallaður réttu nafni. Þá hlær norski sjóarinn í mér hátt og hressilega. Norski sjóarinn er sko ekki smáborgari, hann mígur í saltan sjó, spýtir í lófana og kúkar á kerfið.

Ég er hissa á viðbragðaleysi við póshnakka-síðunni en kannski fólk nenni ekki að kíkja þangað því ég tengi ekki á hana? Ég vil ekki tengja á hana vegna þess að sumir kunna að rekja tengla á sig (ég kann það því miður ekki sjálf) og ég vil helst losna við að fá pós-gaurana hingað inn, mig óar við þeim og smápíkutali þeirra. Myndskotin af brjóstaskorum minna mig á fulla karla starandi slefandi niður hálsmálið, gelið í hári drengjanna er viðbjóður, eru þeir kannski með kinnalit líka? Mig óar við svona mönnum og gæti trúað þeim til ofbeldis og ógnarverka.
Ég skil nú mun betur bróður minn sem forðast skemmtanalífið eins og heitan eldinn fyrst þetta er það sem hann aldursflokkur er að gera á djamminu. Ég býst fastlega við að annað sé í boði fyrir hans aldursflokk en sú staðreynd að hann hangir yfirleitt í heimahúsi með vinum sínum truflar mig ekki neitt, ég myndi ekki afbera að horfa upp á hann í svona félagsskap.

Í gær fór ég að sjá mynd í bíó. Myndinni er hægt að líkja við að drekka glas af rjóma en samt virkaði hún einhvern veginn, ég sé a.m.k. ekki eftir peningunum sem fóru í aðgangseyrinn. Myndin heitir The Holiday og þó hún verði aldrei jafnlanglíf og rómantísku gamanmyndirnar sem hún vísar til, er hún ágætis afþreying. Batteríið er búið. Lifið í friði.