22.1.07

kvennakvöldið

Á laugardaginn hittumst við konurnar íslensku í Frakklandi enn og aftur og fórum saman út að borða. Við vorum 47 talsins og efa ég ekki að stundum fór hávaðinn vel yfir hættumörk á veitingastaðnum. Við vöktum líka enga smáræðis athygli þegar við gengum út í einfaldri röð, fólkið í fremri salnum trúði ekki sínum eigin augum, hvílíkur fjöldi fagurra kvenna hefur sjaldan sést samankominn. Eftir matinn fórum við allar heim til eðalparísardömu og drukkum kampavín.

Mikið hefur verið rætt um það hvort við ættum að hleypa körlunum með okkur. Ég hef í sjálfu sér aldrei haft neitt á móti því, en ég veit að það mun breyta andrúmsloftinu aðeins. Það er allt öðruvísi stemning í blönduðum hópum.
Eiginlega er ekki hægt að bjóða mökum með, hugmyndin upprunalega var að geta einu sinni, eitt kvöld, hist og talað saman í friði á íslensku. Ef franskir makar koma með verður það vonlaust. Í raun og veru eru þessi kvöld ákveðið frí frá því að vera útlendingur, við þurfum náttúrulega að eiga við þjónustufólkið á staðnum en burtséð frá því líður okkur öllum eins og við séum bara komnar heim.

Í menntaskóla umgekkst ég aðallega stráka, vinahópurinn minn fasti og þröngi var fjórir strákar og ég. Ég man alltaf að mæður þeirra spurðu þá stundum hvort ég ætti enga vinkonu, þær höfðu einhverjar áhyggjur af mér í þessum karlahópi. Ég man líka að ég heyrði sögur um það að ég væri kærasta þeirra allra og fannst okkur það svo fyndið að lengi var ég kölluð dráttarvélin.
Ég held að mér hafi ekkert orðið meint af þessu tímabili, síður en svo. Ég tel mig skilja karlmenn ágætlega og hef oft fussað yfir hæfni kvenna til að gera aðeins of mikið úr hlutunum, kann ágætlega við karlmennskulegan áhuga (lesist: algert áhugaleysi) á afmælisdögum og heimboðum sem þarf að endurgjalda og fleira í þeim dúr. Ég get stundum geispað golunni yfir fjasi vinkvenna minna um hegðun og skyldur og hver sagði hverjum hvað fyrst.
En ég á samt góðar vinkonur sem ég kynntist m.a. í menntaskólanum og jafnvel fyrr og svo hef ég náttúrulega kynnst ógrynni af konum hér í París, sem ég tel svo góða vini að ég myndi vaða eld og brennistein fyrir þær.
Ég held í raun að ég hafi aldrei pælt neitt sérstaklega í kynjamismun og fyrir mér er þetta afskaplega lítið mál allt saman. Ég held að ég hafi ákveðið KVENNAkvöld eingöngu vegna þess að það eru svo hrikalega fáir karlmenn hérna og eins og kona góð benti á í sambandi við þetta, það er allsendis óvíst að þeir myndu nenna að koma þó þeim væri boðið.
Sú kona stakk upp á því að hægt væri að hafa barhitting fyrir alla einu sinni á ári en halda kvennakvöldinu óbreyttu. Það gæti bara meira en verið að í haust verði öll Íslendinganýlendan boðuð öll saman út á lífið. Þarf samt aðeins að hugsa þetta betur og auðvitað er fáránlegt að vera að spá í þetta núna meðan ég er enn örmagna eftir laugardagskvöldið, jesús maría jósep, ég var að til klukkan fimm um morguninn!

Lifið í friði.