10.1.07

I love Paris

Í fyrradag talaði ég við konu í símann þar sem ég lá eins og slytti í sófanum að jafna mig eftir gubbupest. Var búin að drekka tebolla og virtist ætla að halda honum niðri. Hún spurði mig hvort það væri mikið að gera hjá mér og ég sagði eins og satt var að það væri nákvæmlega ekkert að gera hjá mér. Við ákváðum stefnumót á fimmtudaginn.
Nokkrum klukkustundum síðar var ég komin með miða til Danmerkur á fimmtudaginn, vélin fer í loftið um það leyti sem ég ætlaði að hitta hana (og ég á eftir að láta hana vita). Og svo hafa þættinum borist þrjú bréf, febrúar er allur að glæðast, og ýmislegt sem ég þarf að byrja að stússast í núna strax út af því.
Gaman gaman.
Mér leiðist svo innilega ekki þessi janúar en það er náttúrulega aðallega vegna þess að hér ríkir enginn alvöru janúar. Meira svona aprílfílingur, ég get svarið það að ég kiknaði í hnjáliðunum í gær á gangi um Tuileries garðana, vetrarsólin, appelsínugulblátt ljósið, nakin trén eins og skúlptúrar, fólk í sólbaði í fallegu grænu stólunum sem Einar myndaði svo vel og ég nota á síðunni minni. Ég klökknaði og hugsaði með mér að ég ætti náttúrulega alltaf að taka með mér myndavélina þegar ég fer í bæinn. En í staðinn naut ég bara veðurblíðunnar og birtunnar og veit að ég á aldrei eftir að gleyma þessari mynd sem ekki var tekin. Ég var á leiðinni í Orangerie-safnið sem ég á enn eftir að skoða eftir breytingarnar. Var í metró og sá að ég hafði tvo tíma til að drepa og var að renna inn á Concorde stöðina og stökk út umhugsunarlaust. Var í skýjunum yfir þessari brilljant hugmynd og hálfvalhoppaði yfir Tuileriesgarðinn og naut fyrrnefndar birtu og stemningu. Þegar ég fór að nálgast safnið áttaði ég mig þó á að líklega væri ekki allt með felldu. Og jú, safnið er auðvitað lokað á þriðjudögum eins og Louvre sjálft (orangerie er gamla gróðurhúsið í hallargarðinum við Louvre þar sem ræktaðar voru appelsínur fyrir konung). Mikil vonbrigði sem ég hristi þó af mér enda ekki hægt að fara í fýlu í svona fallegu veðri. Skoðaði bygginguna vel að utan, brosti undurblítt til svertingjanna sem hömuðust við að þrífa gluggana (örugglega ekki auðvelt í miskunnarlausri vetrarsólinni sem sýnir hvert einasta ský á gluggum) og fór í W.H. Smith í staðinn að skoða bækur sem ég hef ekki efni á en það skiptir ekki máli. Það er svo gaman að skoða í fallegum bókabúðum. Las aftan á einhverja tugi bóka og skoðaði orðabók sem ég ætla að eignast um leið og ég fæ borgað í febrúar.
Þegar ég var á leið niður í metró aftur var tekið að rökkva, sólin horfin úr trjákrónunum í Tuileries. Þar sem ég var að fálma eftir veskinu mínu, fann ég myndavélina sem var enn í töskunni síðan á sunnudaginn. Dugði það til að koma mér í fýlu? Ó nei, Pollýanna hefur náð yfirhöndinni í sálu minni.

Og ef þið trúið mér ekki varðandi veðrið, kíkið þá á útsprungnu rósina hjá Rósu Rut. Og drífa sig svo til Parísar!

Lifið í friði.