1.1.07

heit

Ég er löngu hætt að strengja heit um áramótin enda nógu samviskubitin án þess að vera að kvelja mig meira en nauðsyn er.
Ég er þó ákveðin í að fara fljótlega í Hammam, arabískt gufubað og hver veit hvort ég reyni ekki að vera duglegri við það á þessu ári en á því nýliðna fór ég aldrei.
Ég skal skrifa góða lýsingu á hammamferð fljótlega, hef ekki tíma núna því við ætlum út með grislingana í rokið að leika.

Yndislegt matarboð í gær, þrenn pör og öll svo menningarleg og markaðslega einhverf að enginn hafði keypt hatta eða flautur eða hvellettur og, það sem meira er, enginn minntist orði á að slíkt vantaði.

Takk fyrir okkur.

Komum heim rétt fyrir tvö, ekki mikil umferð, en slatti af fólki á gangi og allir í góðu skapi, vinkandi okkur og brosandi. Börnin eru þreytt enda held ég að þau hafi aldrei vakað svona lengi áður. Og vöknuðu vitanlega samt fyrir níu í morgun.

Ég verð að játa að ég hef aldrei eytt jólum eða áramótum í París nema þá lokuð inni með mínu fólki, aldrei upplifað biðraðir á veitingahús og veit ekki almennilega hvort erfitt er að fá mat í París á jólum og áramótum. Þetta var aðeins rætt í gærkvöld vegna þess að vinir okkar lentu í miklum vandræðum 30. des og enduðu á slúbertastað að borða.
Því ætla ég að reyna að fá upplýsingar frá vesalings fólkinu sem reyndi að fá upplýsingar frá mér fyrir jólin því eins og þið munið kannski er ég búin að ákveða að markaðssetja aðventuna og jólin í París á þessu ári. Þetta er ekki áramótaheit.

Hér er allt komið í bál og brand, þreytt börn eru leið börn.

Lifið í friði.