Handbolti
Þrátt fyrir algert áhugaleysi á handbolta er ég nú farin að kíkja eftir niðurstöðum og bera saman gengi Íslands og Frakklands og ræða þetta við manninn minn.Mér finnst gaman að fylgjast með bloggurum eins og Kolbrúnu og Elmu sem eru gagnteknar af þessu, þó ég skilji ekki beint þessa ástríðu. Í raun hef ég bara alltaf gaman af fólki sem er ástríðufullt og helst eiga þau að vera nördar (nirðir? nerðir? hvað var aftur íslenska orðið?) Þó ég nái ekki að smitast, smitar gleðin eða tilfinningaþrunginn samt einhvern veginn undarlega út frá sér.
Ég var að færa mig yfir á nýja Blogger (þó ég hefði ekki verið pínd til þess eins og Hildigunnur, bara ákvað að gera það einmitt núna vegna þess að ég hafði í raun ekki tíma til að vera neitt í tölvunni, var að stelast og það eru einmitt kjöraðstæður fyrir mig til að bretta upp ermar og skella mér í hluti sem ég hef látið sitja á hakanum).
Í dag ætla ég að ljúka við tiltekt í barnaherberginu, klára einn meil með verðum, gera tvær ítrekanir, pakka niður fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem verður í burtu í fjóra daga, svara vonandi frönskum blaðamönnum sem munu hringja unnvörpum út af bréfstúf sem þau fengu í gærkvöld út af væntanlegum mótmælum við Þjórsá 3. febrúar, hlaða inn myndum og prenta út fyrir restir af áramótakorti, borða eitthvað...
Með þessu öllu saman hlusta ég kannski á Tom Waits, fékk hann í jólagjöf og hef ekki tekið úr plastinu. Og diskurinn sem ég keypti á Íslandi og ætlaði að hlusta vel á og dæma hefur legið hér og safnað ryki, kannski nafni minn Níelsson fari líka undir geislann?
Eða kannski ég leggist upp í rúm með Henning Mankell og pakki svo bara í svitabaði í fyrramálið og láti annað sitja á hakanum áfram?
Veit ekki til hvers ég er að skrifa þetta, langaði bara að prófa að skrifa í nýja bloggernum.
Lifið í friði.
Efnisorð: þvaður
<< Home