mercredi libre
Miðvikudagar eru frídagar í frönskum skólum.Í haust beitti ég ýtni og mjúkum þrýstingi til að koma börnunum í tónlistarskóla á miðvikudagsmorgnum. Við áttum nefninlega víst að sækja snemma um og biðlistarnir voru langir. En ég mætti bara galvösk með börnin og talaði við kennarann sem játaði fyrir mér eftir tvo tíma að það vantaði fullt af börnum af listanum sem ég og fór og tilkynnti ritaranum og tróð mínum inn í staðinn. Ég er viss um að fleiri börn hefðu komist að með sömu aðferð en ritarinn virðist líta á hlutverk sitt vera að halda fólki frá, ekki draga fólk að. Allt of mikið að gera hjá henni nú þegar.
Nú dauðsé ég eftir þessu, það er einhvern veginn þúsund sinnum erfiðara að koma öllum af stað á morgnana þegar ég veit að megnið af börnunum er núna hangandi á náttfötunum að leika sér með dótið sem enn er spennandi frá jólunum - enda ekki "nema" 17. janúar í dag.
Til hvers að vera að juða þessu liði í tómstundastörf og listanám þegar langlíklegast er að um 13 ára aldurinn gera þau uppsteyt og nenna engu nema hanga í tölvuleikjum með vinunum?
Æ, ég er bara þreytt enda vakti ég einhverra undarlegra hluta vegna til rúmlega tvö í nótt, alein í myrkrinu. Kannski var það Ray Charles, við horfðum a.m.k. á myndina um hann í gær og eitthvað inni í mér fór á fullt.
Ég sá Ray í Rex fyrir rúmum áratug.
Það var upplifun, hann var einhvern veginn eins og ekki af þessum heimi, eins og hann væri hengdur upp á rassinum, það eina sem snerti jarðtengdan hlut voru fingurnir á lyklaborðinu, allur líkaminn einhvern veginn í loftinu allan tímann.
Ég vil helst ekki að börnin mín verði of miklir snillingar, ekki þannig að þau geti ekki höndlað það.
Ég er svo þreytt.
Lifið í friði.
<< Home