allan daginn verður glímt við þjóðveginn
Búin með annað verkefnið, hitt verður að koma með í fjöllin, líklega skýrist allt í fjallaloftinu og ég rumpa þessu af eins og ekkert sé. Áreiðanlega einhver blokkerandi andi í þessu pestarbæli.
Ég var næstum því búin að hugsa og skrifa að mig langi stundum að henda börnunum mínum, en ég gerði mér sem betur fer grein fyrir því að það væri ekki við hæfi og að hið ritaða orð er oft oftúlkað svo betra væri að sleppa slíkum svörtum húmor.
Hér eru komnar töskur úttútnaðar af fötum, ísskápur fullur af samlokum (ég var akkúrat núna að gera mér grein fyrir því hvílíkur hetjuskapur það er að hafa smurt ofan í liðið, halló, eins og ég hafi verið að dúlla mér hérna undanfarið? svona er maður þægur og góður við móður sína, ef mamma segir að ég ætti að smyrja, smyr ég), allir pappírarnir tilbúnir fyrir bílaleigubílinn, búið að prenta út kort af leiðinni og stúdera vel, allir komnir í hrein nærföt, nú er bara að sækja foreldra mína og systur ásamt dóttur hennar út á völl á morgun á stóra bílnum, troða þeim og öllu dótinu þeirra (dæmigerðir Íslendingar, með eigin skíði) inn í bílinn og aka í einhverja klukkutíma. Öll vafin inn í handklæði til öryggis ef Sólrún heldur áfram að gubba.
Þessi sjoppa verður að öllum líkindum lokuð á meðan ég skemmti mér á skíðum og úða í mig feitum fjallaostum og drekk bragðsterkt hvítvín með, þess á milli.
Ég mun ekki sakna ykkar og geri ekki ráð fyrir því að mín verði sárt saknað. Ég veit ekki hvað er að mér þessa dagana en þegar ég rak augun í setningu um "næmt auga barna fyrir fegurð og handverki" hér aðeins neðar var ég næstum því búin að ýta á EYÐA STRAX takkann. Édúddamía hvað ég er uppskrúfuð. Ég lifi í raun hróðug í þeirri trú að ég sé rosa hnyttin og skörp en það bráir yfirleitt af mér í smá tíma ef ég les eitthvað aftur á bak hér.
Viðbót: Ég horfði á Kiljuna meðan ég smurði samlokurnar, helvíti fínn þáttur. M.a.s. Robbe-Grillet í honum. Eins og ég segi, dauðinn selur. Eða tíminn líður og ég er mörgum sekúndum nær dauðanum en áðan.
Lifið í friði.
pollýönnumst dálítið
Í nótt þurfti ég tvisvar að setja dóttur mína í sturtu. Í fyrra skiptið vaknaði hún í hægðum sínum, í það síðara í ælu sinni. Hún er veikluleg og kúgast dálítið en aðallega gengur þetta niður af henni.
Við leggjum af stað héðan upp úr hálftólf á morgun. Hún byrjaði að kvarta um í maganum kl. 18 í gær, þetta ætti því að vera að mestu búið kl. 18 í kvöld og hún hefur þá tæpa 18 tíma til að jafna sig áður en við förum út á hraðbrautina.
Eittt hef ég uppgötvað í þessari magapestarmartröð: Magapestir eru ekki umhverfisvænar, hér gengur þvottavélin á háum hita og mikið þarf að skola og sturta niður. Ég sé enga aðra leið en bara spandera vatni og bakteríueyðandi efnum í svona ástandi.
Lifið í friði.
tilviljun?
Ég kom og hlammaði mér í sófann með tölvuna við hlið mannsins míns sem fylgist með boltanum og pakkar inn bókum sem hann var að selja á e-flóanum. Ég kíki aftur á auglýsingu um atvinnuhúsnæði sem mér barst í dag og segi stundarhátt að ég þyrfti að kíkja á þetta á morgun, mér finnst myndin á gulu síðunum svo skrýtin en auglýsingin hljómar spennandi. Svo segi ég heimilisfangið og maðurinn minn lítur undarlega á mig og spyr hvort ég sé ekki örugglega að grínast. Ég skil ekki hvað hann meinar og hann lyftir upp pakkanum sem hann var nýbúinn að merkja vandlega. Sama heimilisfang.
Lifið í friði.
dauðinn selur
Ég veit ekki hvort ég næ að klára miðannarverkefnið í beyg og morði áður en ég fer í frí, sem þýðir þá að ég verð ekki á leiðinni í ALfrí heldur HÁLFfrí.
En ég verð alla vega í stórbrotnum fjallagarði í þessu hálffríi (sem gæti orðið alfrí ef andinn kæmi skyndilega yfir mig á morgun).
Maðurinn minn seldi bók eftir Robbe-Grillet í dag. Ef ég skrifa einhvern tímann bók, lofið þið þá kaupa hana ÁÐUR en ég dey, svona ef þið á annað borð hefðuð hug á að kaupa hana.
Lifið í friði.
Maríukirkjan í París
Ég fór með börnin mín í Notre Dame í fyrsta sinn um daginn. Við eyddum þar rúmri klukkustund við að skoða skúlptúra og litað gler, módel af kirkjunni sem skurðlæknir nokkur gaf nýlega og annað sem sýnir hvernig farið var að því að byggja hana á sínum tíma.
Við innkomu gekk Sólrún beint að verði og spurði hvar stúlkan með geitina væri. Hann kom af fjöllum.
Við sáum Jesú á krossinum og ræddum lengi um krossfestingar, nagla, blóð og sársauka og að hann hefði dáið en að margir teldu að hann væri ekki dáinn heldur væri á himnum.
Svo skoðuðum við lengi lengi lengi tréskúlptúrinn á kórnum sem sýnir sveinbörnin aflífuð (sagan um Móses).
Ég var að vona að þau kæmu ekki auga á þessa hráu mynd sem sýnir illsku og offors og blóðuga barnslíkama hrynja til jarðar, ég þarf alltaf að benda fullorðnu túristunum á þetta en þau sáu hana þó ég reyndi að setja í hálfgerðan strunsgír.
Þegar við vorum svo búin að sitja og hlusta á orgelleik og vorum á leiðinni út báðu þau um að fá að fara aftur að skoða þessa mynd og ljónið sem verndar gröf einhvers biskups þarna sem hreif þau sérstaklega.
Við fundum hvorki Esmeröldu með geitina né Kvasímótó en þóttumst þó öll hafa séð þeim bregða fyrir á svölunum, örlítið falin bak við súlu að horfa á fólksmergðina sem er að einhverju leyti þeim að þakka.
Það er magnað hversu ólík tilfinning það er að fara með áhugasama og heillaða að skoða þessi stórvirki en að strunsa í gegn með fólki sem er orðið dauðþreytt, búið að sjá aðrar svona kirkjur í öðrum löndum og lítur varla upp þegar stoppað er í þverálmunni til að skoða rósalaga norður- og suðurgluggana.
Það er magnað hvað börn hafa næmt auga fyrir fegurð og handverki. Kári byrjaði að taka andköf yfir gluggum um leið og við gengum inn og þau voru síspyrjandi, vildu vita af hverjum öll líkneskin væru og svo er náttúrulega ótrúlegt að sjá hversu spennt þau eru að skoða hluti sem hræða þau, hvað börn elska að verða pínu hrædd.
Lifið í friði.
dóni deyr
Þá er
hann látinn. Líklega án þess að hafa komið til Íslands, eða hvað? A.m.k. komst hann ekki þarna í fyrra, líklega heilsan að baga hann. Hann var orðinn 85 ára, það kom mér á óvart, svona menn eins og hann eru líklega alltaf fimmtugir í mínum huga. Hann var aldrei GAMALL dónakall, heldur framúrstefnulegur (og nett óskiljanlegur) pælari.
Hann gerði víst eitthvað meira af kvikmyndum en ég vissi um þegar ég varaði siðprúðu þjóðina við honum þarna um árið. Ég hef ekki séð neina þeirra, en las eina heila bók eftir hann og tókst m.a.s. að troða hluta af kenningu hans um sjálfsævisöguformið inn í svar á prófi, þar sló ég heldur betur um mig alveg óvart, held ég hafi skyndilega skilið hann í smá stund. En svo fór það aftur.
Lifið í friði.
kirsuberjatréð
Kirsuberjatréð við innganginn á blokkinni minni er farið að blómstra. Það finnst mér bera vott um kurteisi og gott uppeldi þessa litla trés og gætu tré annars staðar tekið sér það til fyrirmyndar. Ég hefði getað hangið út um gluggann og dáðst að örsmáum blómunum tímunum saman í dag (ég á sko að vera að vinna skólaverkefni) en sá galli er á gjöf Njarðar að einmitt núna er verið að saga í sundur gangstéttina okkar hérna svo mun girnilegri kostur er að hafa alla glugga vel lokaða, helst hlerana líka, og halda sig í bakherbergjum. Það er nú meira hvað þetta innflutta vinnuafl er óalið, gátu þeir ekki beðið þangað til smáborgarar götunnar væru komnir í vetrarfríið sem byrjar í næstu viku?
Lifið í friði.
vegir tæknigyðjunnar
eru órannsakanlegir:
Í morgun hafði ég fyrir því að hlunkast hingað upp á mína blessuðu 5. hæð með PC vina minna. Svo fór ég inn á Ugluna og sótti skjalið og reyndi að hlaða inn hljóðskránni og ekkert gerðist, bara villuskilaboð. Þá ákvað ég af minni alkunnu þrjósku að prófa í minni eigin fínu MacBook og viti menn, þar get ég hlustað og m.a.s. sett á pásu og spólað til baka.
Mér fannst ég endilega verða að láta heiminn vita af þessu, hvers vegna veit ég reyndar alls ekki og er nokkuð viss um að þið yppið nú öxlum og hugsið... ekki neitt...
En ef ykkur vantar heilaörvandi efni, getið þið litið við hjá
Rafauga sem vitnar í Göring í dag.
Einu sinni voru til menn sem höfðu völd en gátu samt verið heiðarlegir.
Lifið í friði.
Jógi
Ég komst að því mér til undrunar að maðurinn minn hafði ekki græna glóru um það hver Jógi björn er. Síðan höfum við börnin horft á nokkra Jógaþætti á youtube. Það er ágætt, en ekkert mikið meira en það. Af hverju fannst mér hann svona skemmtilegur í gamla daga? Var það bara af því að hungruðum finnst allt gott?
Lifið í friði.
Barnaby snýr aftur
Hann er eitthvað svo hómí, þó hann sé á frönsku.
Hver man eftir skíðaæfingaþáttunum sem voru einhvern tímann í sjónvarpinu? Ég gæti veðjað að þeir hafi verið norskir, en ekki hengt mig upp á það.
Ég á sterka minningu af okkur systrum að fara brunið, var það í lok hvers þáttar?
Lifið í friði.
hnútur í maga, eðlisfræði og blóm
Kári var mjög lítill í sér í allan gærdag og borðar eins og fugl en er að öðru leyti hress.
Ég gerði verkefni nr. 3 í beyg og morði (takk x fyrir að koma með þessa nafngift á þennan hræðilega kúrs) og í svefnrofunum í morgun áttaði ég mig á því að ég sendi ekki helvítis verkefnið. Skila því sem sagt 6 tímum of seint sem þýðir væntanlega engin yfirferð og núll í einkunn, nema mark verði tekið á vælandi tölvupósti sem ég sendi kennaranum. Þetta með skilin í tölvunni er ein af ástæðunum fyrir því að maður er með stöðugan hnút í maganum. Ég kíki oft aftur og aftur á það hvort ég hafi sent hitt eða þetta.
Ferlega er þetta annars erfitt fag, ég veð í villu og svíma við að greina orð í myndön og greina myndön í flokka og rökstyðja svo greininguna. Rökstuðningurinn er verstur, ég ramba oft á rétt en geri mér enga grein fyrir því hvers vegna. Hræðileg tilfinning.
Hinn kúrsinn er að verða mun skemmtilegri (les skiljanlegri) og mér finnst gaman að lesa hljóðróf, litli eðlisfræðingurinn vaknar inni í mér.
Hvað skyldi hafa orðið um Baldur eðlisfræðikennara í Seljaskóla? Hann var töff týpa, dökkur og dálítið hlédrægur. Mér fannst hann bæði fyndinn og skemmtilegur en hinir krakkarnir deildu ekki þeirri skoðun með mér, allir voru að keppast við að
hata eðlisfræði því það var svo kúl. Einhvern veginn finnst mér eins og ég gæti hafa heyrt um lát Baldurs, en ég er alls ekki viss.
Sólin skín en hér ríkir vetur konungur, hitastigið rétt yfir núlli sem er viðbjóðslega kalt á röku meginlandinu eins og þau vita sem eru ekki heimsk og heima alin. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að í gær sá ég bleik blóm á trjám, líklega kirsuberjatrjám. Það er nú varla hægt að gerast meira vorlegur en tré sem skartar blómum. Þetta er allt að koma.
Lifið í friði.
myndlist - varúð auglýsing!
Embla Dís er fædd i Reykjavík 1969.
Handverk og tjáning hafa átt hug hennar alla tíð
en hún fór þó ekki að mála fyrr en árið 2000.
Fram að því vann hún mest með leir, málm, tré og garn.
Hún er menntuð sem sjúkraliði og málmsmiður og
hefur unnið við bæði fögin en starfar nú hjá Iðjuþjálfun á Kleppi
sem aðstoðarmaður við handverk sjúklinga.
Í maí fluttist hún aftur til landsins eftir 5 ára dvöl í Danmörku
þar sem hún rak allsérstakt kaffihús, gallerí og tónleikastað
sem var myndskreyttur hátt og lágt af henni og öðrum.
Þetta er fyrsta sýning Emblu á Íslandi. Verkin, 25 talsins,
máluð með akrýl á striga eða á tré eru unnin á árunum 02-07.
Eitt mósaíkverk og skúlptúr úr rekaviði og málmi fá að fljóta með.
Flest verkin eru til sölu en nokkur eru þegar seld.
Opnun sýningarinnar er 16. febrúar klukkan 15 og mun hún standa í mánuð
í Glergalleríinu Iceglass við smábátahöfnina í Keflavík.
Lifið í friði.
án titils
Jæja, einn af topp 10 dögunum yfir leiðinlegasta dag ársins er að kveldi kominn. Ég er með kvíðahnút yfir nóttinni, hann fór í rúmið með eina matskeið af vatni í maganum. Ég vona að hann fái að sofa.
Mig langar mest að grenja úr sjálfsvorkunn en hugsa að ég horfi á morðingjaþátt í staðinn. Ég hef að ég held ekkert sagt ykkur frá því en í vetur höfum við tekið upp og horft á heimildarmyndir um glæpamál og dísöss kræst men villidýrin sem hafa orðið til í þessu landi. Einn af "eftirlætis" þáttunum fjallaði um ofurvenjulega konu sem var alin upp á góðu heimili í sáttum systkinahópi en var með eitthvað örlítið bæklaðan fót sem olli einelti á unglingsárunum. Svo varð hún saumakona og giftist og svo skildi kallinn við hana eftir 16 hamingjusöm ár og saumastofan er lögð niður og hún gerist sjúkraliði og flytur til borgar þar sem hún endurkynnist gamalli vinkonu og gerist djammfélagi hennar.
Eitthvað hefur vinkonan farið í hana, kannski endurvakið eineltisminningar, eða var það að hún fékk lánaða hjá henni peninga og endurgreiddi svo ekki þegar hún náði að selja (man ekki hvað það var, föt eða skart eða eitthvað)? Alla veganna fór það svo að ofurvenjulega stundvísa og kurteisa yfirgefna fv. saumakonan og núverandi velliðinn sjúkraliði tekur vinkonu sína og gefur henni svefnlyf í te, skellir henni í baðkar, drekkir henni og geymir í pakka úti á svölum meðan hún heldur upp á 14 ára afmæli dóttur sinnar með fullt af börn í íbúðinni og leikur á alls oddi.
Svo daginn eftir brytjar hún hana niður í poka með verkfærum látins föður síns og svo fer hún með pokana einn af öðrum og skilur eftir á ýmsum stöðum í borginni. Fær m.a. 12 ára son sinn til að hjálpa sér með einn pokann, hann var svo þungur. En hausinn lét hún vera áfram úti á svölum og var að reyna að eyða honum, með sleggju og fleiru og endaði svo með því að setja hann í ofninn og stilla á sjálfhreinsunarprógrammið.
Sætt?
Engin útskýring. Hún er ekki geðveik, hún veit hvað hún gerði en ber fyrir sig einhvers konar minnisleysi. Flestir sérfræðinganna telja að um einhvers konar djúpa afbrýðisemi/minnimáttarkennd hafi verið að ræða. Lögfræðingurinn hennar ásakar megrunarlyfjablöndu sem hún var búin að vera að taka inn og hafði létt hana um 15 kíló á skömmum tíma.
Þessi saga var til að létta andrúmsloftið eftir allar ælusögurnar í dag.
Lifið í friði.
þvottur
Ég er búin að þvo tvær vélar fullar af handklæðum, lökum og sængurveri. Ein vél í gangi núna full af nátt- og nærfötum af honum, pabbanum og mér. Ein á eftir með lakinu af rúmi foreldranna. Ég er búin að skúra baðherbergið og klósettið tvisvar, fram ganginn og inn í barnaherbergið.
Mér er allri lokið. Ég veit að í móðurtilfinningunni á að vera fullkomið æðruleysi gagnvart svona uppákomum, bara þrífa og hugga, þrífa og hugga en ég þurfti að bíta mig í kinnarnar þegar gubbið frussaðist framan í mig í mínu eigin rúmi núna áðan, að öskra ekki og æpa, leggjast niður og grenja í sjálfsvorkunn. Djöfulsins skítavinna er þetta! En engar áhyggjur, hann fann ekki fyrir pirringi mínum og fær sömu samúð og huggunarorð og áður.
Og nú liggur hann hérna sofnaður allsber í sólinni í sófanum og mig langar ekkert meir en að geta tekið þetta úr honum, það er hræðilegt að finna magann spennast og sjá hann kúgast og kunna ekki almennilega að láta þetta vaða út úr sér. Hann er svo lasinn og á svo bágt. Svo lítill og mjór og hvítur.
Þetta sem gerðist í rúminu var alveg óvart, viðbrögðin voru í raun rétt, grípa fyrir munninn og koma sér af stað en það kom bara svo hratt. Og þar sem hann var með hönd fyrir munni frussaðist út á ská og beint í andlit mitt.
Lifið í friði.
gubb
Kári er með gubbupest og ég er annað hvort meðvirk, of viðkvæm eða líka með gubbupest. Ég skilaði alla vega kaffinu mínu eftir að hann ældi mig alla út í morgun en svo drakk ég vatnsglas og hef haldið því niðri meðan hann heldur nákvæmlega engu niðri og er hvítur sem skítur.
Við fórum í gegnum alvöru kennslustund í fjögurra stiga viðbrögðum við löngun til að kasta upp: standa upp, taka fyrir munnin, hlaupa inn á klósett, æla. Hann er góður námsmaður, alveg eins og einkunnaspjaldið hans sýndi um daginn og brást algerlega rétt við þegar hann skilaði síðasta skammti af vatni.
Ég sé fram á undarlegan dag í nákvæmlega engum takti við áætlanir en þetta er víst hluti af þessum pakka að vera foreldri. Það kemur þó engan veginn til greina að ég missi af launuðu vinnunni á morgun, það er á tæru.
Lifið í friði.
Allir í Suðrið!
Ný síða með ferðaþjónustu fyrir Íslendinga í Frakklandi hefur verið opnuð. Ég mæli eindregið með aðstandendum síðunnar, skemmtilegt fólk og vel að sér í öllu sem viðkemur þessu frábæra svæði. Dömur mínar og herrar, má ég kynna
FRAKKLANDSFERÐIR.ISTilvalið er að koma með vél frá Íslandi og fara beint í hraðlest frá flugvellinum niðureftir og vera í nokkra daga þar, koma svo með lestinni til baka og vera nokkra daga í París.
Lifið í friði.
vertu meðvituð um kosti þína
Ef ykkur vantar sérfræðiaðstoð við að láta verða sem minnst úr deginum, talið við mig. Ekki ókeypis þjónusta, en vægt verð.
Lifið í friði.
tvennt og fleira
A. Ég trúi því ekki að þessi mánuður sé að verða hálfnaður.
B. Ég trúi því ekki að klukkan sé að verða fimm.
Hins vegar trúi ég á heilagan anda og fyrirgefningu syndanna. En það er allt önnur ella (sem rímar við lella sem rímar við gella). Oh, og nú langar mig í gellur!
Ég vil að það komi fram að ég held ég hafi ekki hnitið einn einasta hnút. Það er alveg glatað að þurfa að bíða eftir svörum frá öðrum, m.a. einni sem ég talaði við í síma meðan ég sendi tölvupóstinn en samt drullast hún ekki til að svara mér og hnýta.
Er'ett'ekki örugglega hnýta hneit hnitum hnitið?
Lifið í friði.
bjálki og flís
Ég hef mikið spáð í flísir og bjálka síðan á laugardagskvöldið út af örlitlu atviki í annars alveg frábærum kvennafans og vel heppnuðu kvöldi. Rauðvínið sem staðurinn bauð með matnum var ekkert sérlega gott en maturinn sjálfur alger dýrð og dásemd, góð þjónusta, lipur og létt, ekki daður, bara bróðurleg framkoma, honum fannst við frábærar, sem við náttúrulega erum. Flottur hópur. Og þar sem rauðvínið var ekkert sérlega gott, var ég ekkert sérlega þunn daginn eftir.
EN ég er sem sagt búin að vera að spá í flísir og bjálka og hef komist að þeirri niðurstöðu að þessi saga er aldrei of oft sögð.
Þetta er dálítið í beinu framhaldi af öðru sem hefur gerjast um í mínum fagra kolli undanfarið, en ég hef tekið mig í ákveðna meðferð í að reyna að hætta að skipta mér of mikið af öðrum og hvernig aðrir lifa sínu lífi. Ég held ég hafi ekkert verið of mikið að því þannig lagað séð, er t.d. löngu hætt að hneykslast á fólki og hef lengi barist gegn öllu sem heitir vandlæting sem, að mínu viti, er tilfinning náksyld hroka, gætu jafnvel verið alsystur.
Samt á ég það til að vera að hlutast til um eitthvað sem kemur mér ekki við og hef kannski gengið of langt í því að segja það sem mér finnst. Það getur verið erfitt að finna hinn gullna meðalveg í slíku og oft er erfitt að horfa upp á vini stefna í áttir sem manni finnst kolrangar, svamla um í feni neikvæðni og depurðar og grípa í rangar spýtur til að draga sig upp, en hvað á ég með að þykjast vita hvaða spýtur eru réttar eða rangar?
Og á ég eitthvað að benda fólki á að það sé kannski að fara offari í að skipta sér af öðrum? Er ég þá að skipta mér of mikið af þeim og þar af leiðandi í mótsögn við sjálfa mig?
Hér er svo örlítil lexía fyrir bloggara um það hvernig hægt er að afbaka raunveruleikann þegar fjasað er um mál án þess að vita allar staðreyndir þeirra.
Jæja, það verður stór dagur í dag, mikið af lausum endum sem þarf að byrja að hnýta ef ég ætla að komast á skíði í lok næstu viku. Og ekki má gleyma að bera á bjálkann, við viljum ekki að hann fúni í fjallaloftinu. Hvort er betra, Flügger eða Harpa?
Lifið í friði.
lella
Þrátt fyrir að hafa lofað vinkonunum um daginn að halda sídd í hári mínu leyfði ég hárskera mínum að taka næstum allt af. Ég er sem sagt aftur orðin eins og lella. Og mér líður miklu betur.
Eiginlega finnst mér hárið síkka inn á við jafnmikið og það síkkar út og að heilinn á mér sé orðinn fullur af hárflóka þegar ég er komin með mikinn lubba. Og hár sem snertir augabrýr er bara ávísun á þungt skap.
Þegar ég kem úr góðri klippingu líður mér alltaf eins og ég svífi um.
Í vímunni í gær, nýkomin úr klippingu fór ég og keypti mér skó fyrir kvöldið í kvöld. Það var ekki gáfulegt, miðað við fjárhagslegt ástand heimilanna en helvíti góð tilfinning samt. Og ég gæti best trúað að þessir skór verði notaðir í að sannfæra bankakalla og fjárfesta um að þeir eigi að láta mig hafa milljónir að moða úr.
Við hlið mér situr lítil stelpa í bleikum náttkjól með kattareyru á höfðinu. Hún var rétt í þessu að spyrja hvort við gætum nokkuð keypt svalir. Hún veit nefninlega að ef við fáum einhvern tímann svalir, fáum við kisu. Ég hef ekki brjóst í mér til að segja henni að í gær tók ég einmitt þá ákvörðun að hreinsa út allar hugmyndir um að skipta um íbúð þar til ég væri búin að setja fyrirtækið upp eða hætt við allt saman. Það eru takmörk fyrir því hvað litlir fagrir heilar geta þolað í einu, þetta sá ég um leið og hárflókinn losnaði úr mínum í gær.
Lifið í friði.
gullkorn nr. 1
Á stefnunni hrundu gullkornin af vörum fyrirlesara, svo hrærast þau um í heilagrautnum og skýtur upp þegar við á. Hver veit nema þau detti hér inn eitt af öðru á næstu vikum?
Alla vega kalla ég þessa færslu númer eitt og í því felst ákveðið loforð, samningur, pakt, um að fleiri fylgi á eftir.
Þjónustufulltrúinn í bankanum réttir þér regnhlíf þegar sól skín í heiði en rífur hana af þér þegar byrjar að rigna.Bankinn minn var einmitt að senda mér tilkynningu um sekt fyrir fátækt.
Samt má ekki gleyma því að á þessum árstíma hef ég yfirleitt verið mun fátækari, jafnvel lent í því að þurfa að betla pening af foreldrum, en nú sé ég alveg fram á að geta fyllt holuna sjálf, bara ekki aaalveg strax. En ég hef aldrei lent í því að vera með túrista í desember og janúar fyrr. Allt á uppleið hjá Parísardömunni.
Og þar sem ég á nokkrar krónur í öðrum banka ætla ég að nota kort þess reiknings til að borga fyrir klippingu í dag og útstáelsið á morgun.
Það var eitthvað undarlegt hvítt glitrandi efni á bílum og vegum hér í morgun og sá ég að einn bíll rann til í þessu skrýtna efni. Ætli hjól geti runnið til líka? Ætti ég sem sagt ekki að fara á hjólinu í klippingu eins og ég var búin að ákveða?
Lifið í friði.
Evruvæðing Íslands
Þessa vikuna skokkaði ég í hálftíma og byrjaði í birtu. Það var góð tilfinning. Birta mín, komdu fagnandi.
Þessa viku hef ég séð fullt af fólki sem hefur meikað það feitt og ennþá meira af fólki sem dreymir um að meika það feitt, ég var ein af þeim. 6 (eða 7?) fyrirlestrar og pallborðsumræður á tveimur dögum. Ég var dugleg kona. Verðandi bissnesskona. Eða ekki. Lærði margt skemmtilegt, m.a. að skilmerkilegustu skoðanakannanir sýna að það eru frekar vinstrisinnaðir, jafnvel öfgavinstrisinnaðir, sem stofna fyrirtæki í dag. Oft þá einsmannsfyrirtæki því þar er frelsið. Get borið vitni um það, frelsi en auðvitað samt líka binding. En góð binding.
Þessir dagar voru þó fyrir stærra og meira fyrirtæki en litla krúttið mitt, Parísardömuna.
Langflestir fyrirlesarar og ræðuhaldarar voru karlkyns. Nema á kvennaráðstefnunni, þar voru aðallega konur en stjórnandinn og "guðfaðirinn" (frá sponsfyrirtækinu) voru karlar. Guðfaðirinn sagði að þó ekki sæust margir karlar í salnum, liði honum síður en svo illa. Hann ætti þrjár stelpur sem allar stjórnuðu fyrirtækjum í dag. Hann var sætur gamall karl.
Stjórnandinn hóf allar spurningar á því að biðjast afsökunar á karlrembunni í þeim. Þær sneru glæsilega út úr fyrir honum og hófu umræðurnar langt yfir það plan að festast í pælingum um það hvort konur væru öðruvísi stjórnendur en karlar. Ég fylltist von og gleði við að sjá þær þarna 7 í röð, allar búnar að meika það feitt.
Í þessari viku hef ég mikið hlakkað til laugardagskvöldsins, en þá verður hið árlega og óborganlega kvennakvöld íslenskra kvenna í París haldið í xta sinn. Hef ekki nennt að finna út ártalið.
Ég hef ekki lesið Moggann, nema dánartilkynningarnar.
Ég hef næstum ekkert eldað, nema ferskasta þorsk sem hefur komið inn fyrir mínar varir á mánudag.
Ég hef ekkert haldið upp á kjötkveðjuhátíðina og ætla að borða kjöt á morgun og hinn.
Ég er örmagna en get ekki slitið mig frá blogglestri.
Ég er ekkert smá spennt að sjá hvað bíður mín í framtíðinni. Meika ég það Gústi?
Ef einhver hélt að ég ætlaði að tala um evruvæðingu Íslands má sá hinn sami rassskella sjálfan sig.
Lifið í friði.
dæs
Afmælinu lokið og ekkert afmæli fyrr en í október og þá er það mitt afmæli og yfirleitt læt ég duga að halda upp á það með því að leyfa Arnaud að bjóða mér út að borða. Alla vega er nokkuð ljóst að ég býð ekki 10 fjörkálfum innan við 7 ára.
Ég er frekar þreytt þó ég hafi í raun ekki haft mjög mikið fyrir þessu. Bara þreytt eftir lætin og hamaganginn. Og það er myrkur. Og kuldi. Og ég ætla út á völl að sækja skylmingakonu sem mun gista hér í nótt.
Lifið í friði.
damned
[titillinn á að lesa með frönskum hreim sem er eins og íslenskur í þessu orði, annars er það svindl]
Ég sem hef alltaf séð Himma fyrir mér sem ég í myndinni um mig. Nú er Frikki búinn að
eyðileggja það fyrir mér.
Lifið í friði.
catwoman
Hvernig upplifa 4 ára gutti og 6 ára dúlla Catwoman? Við horfðum á ýmsar senur úr Batman Returns, teiknimyndum og gömlu seríunni áðan. Þau voru ógurlega spennt og hálfgrobbin, ég held þau hafi alveg skynjað að þau voru að horfa á fullorðinsefni, skynjað að þetta er ekki alveg í stíl við
Einu sinni var,
Bamba né
Öskubusku. Má alveg sýna litlum börnum svona sexý gellur lumbra á vesölum lögregluþjónum og eyðileggja
mollið og svona? Mér finnst það í lagi, en segið mér ef þið eruð hneyksluð.
Þeim fannst líka
Time Warp ferlega skemmtilegt. Í næstu viku leigi ég RHPS úti á bókasafni, maðurinn minn hefur aldrei séð hana! Og í leiðinni ætla ég að taka
Little Shop of Horrors.
Lifið í friði.
hérastubbafílingur
Fyrst fór ég í vinnuna, kom heim og gúffaði í mig tófú og hrísgrjónum og rauk í sund með börnin í upphitaða laug sem var að opna á ný eftir heilmiklar endur"bætur". Og nú langar mig mest að leggja mig en það verður engin miskunn hjá Guðmundi, inn í eldhús að baka súkkulaðiköku. Nenni sko ekki að vera að gera þetta í kvöld, heldur ætla ég að sitja hér í kósíheitum og sötra restina af hvítvíninu og slaka á. Fullt af börnum að koma í kaffi á morgun.
Fyrir nákvæmlega 6 árum var 020202 og ég bakaði súkkulaðiköku þrátt fyrir þrálátan bakverk og ég hefði það smá á tilfinningunni að það læki úr mér. Ég fór nú samt með kökuna í matarboð og var í boðinu til kl. 2 um nóttina. Stundi við og við af bakverkjum. Klukkan þrjú rauk Arnaud út að finna leigubíl og við fórum upp á fæðingardeild. 12 tímum síðar var ég orðin mamma lítillar stúlku með risastór augu sem horfði grafalvarleg á mig og mér leið eins og hún væri þroskaðri en ég.
Lífið er ekkert svo slæmt, alla vega ekki mitt líf.
Lifið í friði.
hvítvínið
Ég ákvað að fá mér Gewurztraminer til að fá mér bara lítið, það er svolítið sætt til að vera að svolgra í sig í miklu magni. Nú er ég hálfnuð með flöskuna og langar ekki vitund að hætta. Er ekki örugglega flöskudagur í dag?
Lifið í friði.
það er gott að trúa
Góða Guð, viltu gefa mér styrk til þess að fara í verslunarmiðstöðina og þar í Disney búðina?
Gæti varla gert þetta án hennar, eða hvað?
Lifið í friði.