14.2.08

þvottur

Ég er búin að þvo tvær vélar fullar af handklæðum, lökum og sængurveri. Ein vél í gangi núna full af nátt- og nærfötum af honum, pabbanum og mér. Ein á eftir með lakinu af rúmi foreldranna. Ég er búin að skúra baðherbergið og klósettið tvisvar, fram ganginn og inn í barnaherbergið.

Mér er allri lokið. Ég veit að í móðurtilfinningunni á að vera fullkomið æðruleysi gagnvart svona uppákomum, bara þrífa og hugga, þrífa og hugga en ég þurfti að bíta mig í kinnarnar þegar gubbið frussaðist framan í mig í mínu eigin rúmi núna áðan, að öskra ekki og æpa, leggjast niður og grenja í sjálfsvorkunn. Djöfulsins skítavinna er þetta! En engar áhyggjur, hann fann ekki fyrir pirringi mínum og fær sömu samúð og huggunarorð og áður.

Og nú liggur hann hérna sofnaður allsber í sólinni í sófanum og mig langar ekkert meir en að geta tekið þetta úr honum, það er hræðilegt að finna magann spennast og sjá hann kúgast og kunna ekki almennilega að láta þetta vaða út úr sér. Hann er svo lasinn og á svo bágt. Svo lítill og mjór og hvítur.

Þetta sem gerðist í rúminu var alveg óvart, viðbrögðin voru í raun rétt, grípa fyrir munninn og koma sér af stað en það kom bara svo hratt. Og þar sem hann var með hönd fyrir munni frussaðist út á ská og beint í andlit mitt.

Lifið í friði.