hnútur í maga, eðlisfræði og blóm
Kári var mjög lítill í sér í allan gærdag og borðar eins og fugl en er að öðru leyti hress.Ég gerði verkefni nr. 3 í beyg og morði (takk x fyrir að koma með þessa nafngift á þennan hræðilega kúrs) og í svefnrofunum í morgun áttaði ég mig á því að ég sendi ekki helvítis verkefnið. Skila því sem sagt 6 tímum of seint sem þýðir væntanlega engin yfirferð og núll í einkunn, nema mark verði tekið á vælandi tölvupósti sem ég sendi kennaranum. Þetta með skilin í tölvunni er ein af ástæðunum fyrir því að maður er með stöðugan hnút í maganum. Ég kíki oft aftur og aftur á það hvort ég hafi sent hitt eða þetta.
Ferlega er þetta annars erfitt fag, ég veð í villu og svíma við að greina orð í myndön og greina myndön í flokka og rökstyðja svo greininguna. Rökstuðningurinn er verstur, ég ramba oft á rétt en geri mér enga grein fyrir því hvers vegna. Hræðileg tilfinning.
Hinn kúrsinn er að verða mun skemmtilegri (les skiljanlegri) og mér finnst gaman að lesa hljóðróf, litli eðlisfræðingurinn vaknar inni í mér.
Hvað skyldi hafa orðið um Baldur eðlisfræðikennara í Seljaskóla? Hann var töff týpa, dökkur og dálítið hlédrægur. Mér fannst hann bæði fyndinn og skemmtilegur en hinir krakkarnir deildu ekki þeirri skoðun með mér, allir voru að keppast við að hata eðlisfræði því það var svo kúl. Einhvern veginn finnst mér eins og ég gæti hafa heyrt um lát Baldurs, en ég er alls ekki viss.
Sólin skín en hér ríkir vetur konungur, hitastigið rétt yfir núlli sem er viðbjóðslega kalt á röku meginlandinu eins og þau vita sem eru ekki heimsk og heima alin. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að í gær sá ég bleik blóm á trjám, líklega kirsuberjatrjám. Það er nú varla hægt að gerast meira vorlegur en tré sem skartar blómum. Þetta er allt að koma.
Lifið í friði.
<< Home