2.2.08

hérastubbafílingur

Fyrst fór ég í vinnuna, kom heim og gúffaði í mig tófú og hrísgrjónum og rauk í sund með börnin í upphitaða laug sem var að opna á ný eftir heilmiklar endur"bætur". Og nú langar mig mest að leggja mig en það verður engin miskunn hjá Guðmundi, inn í eldhús að baka súkkulaðiköku. Nenni sko ekki að vera að gera þetta í kvöld, heldur ætla ég að sitja hér í kósíheitum og sötra restina af hvítvíninu og slaka á. Fullt af börnum að koma í kaffi á morgun.

Fyrir nákvæmlega 6 árum var 020202 og ég bakaði súkkulaðiköku þrátt fyrir þrálátan bakverk og ég hefði það smá á tilfinningunni að það læki úr mér. Ég fór nú samt með kökuna í matarboð og var í boðinu til kl. 2 um nóttina. Stundi við og við af bakverkjum. Klukkan þrjú rauk Arnaud út að finna leigubíl og við fórum upp á fæðingardeild. 12 tímum síðar var ég orðin mamma lítillar stúlku með risastór augu sem horfði grafalvarleg á mig og mér leið eins og hún væri þroskaðri en ég.

Lífið er ekkert svo slæmt, alla vega ekki mitt líf.

Lifið í friði.