lella
Þrátt fyrir að hafa lofað vinkonunum um daginn að halda sídd í hári mínu leyfði ég hárskera mínum að taka næstum allt af. Ég er sem sagt aftur orðin eins og lella. Og mér líður miklu betur.Eiginlega finnst mér hárið síkka inn á við jafnmikið og það síkkar út og að heilinn á mér sé orðinn fullur af hárflóka þegar ég er komin með mikinn lubba. Og hár sem snertir augabrýr er bara ávísun á þungt skap.
Þegar ég kem úr góðri klippingu líður mér alltaf eins og ég svífi um.
Í vímunni í gær, nýkomin úr klippingu fór ég og keypti mér skó fyrir kvöldið í kvöld. Það var ekki gáfulegt, miðað við fjárhagslegt ástand heimilanna en helvíti góð tilfinning samt. Og ég gæti best trúað að þessir skór verði notaðir í að sannfæra bankakalla og fjárfesta um að þeir eigi að láta mig hafa milljónir að moða úr.
Við hlið mér situr lítil stelpa í bleikum náttkjól með kattareyru á höfðinu. Hún var rétt í þessu að spyrja hvort við gætum nokkuð keypt svalir. Hún veit nefninlega að ef við fáum einhvern tímann svalir, fáum við kisu. Ég hef ekki brjóst í mér til að segja henni að í gær tók ég einmitt þá ákvörðun að hreinsa út allar hugmyndir um að skipta um íbúð þar til ég væri búin að setja fyrirtækið upp eða hætt við allt saman. Það eru takmörk fyrir því hvað litlir fagrir heilar geta þolað í einu, þetta sá ég um leið og hárflókinn losnaði úr mínum í gær.
Lifið í friði.
<< Home