20.2.08

Maríukirkjan í París

Ég fór með börnin mín í Notre Dame í fyrsta sinn um daginn. Við eyddum þar rúmri klukkustund við að skoða skúlptúra og litað gler, módel af kirkjunni sem skurðlæknir nokkur gaf nýlega og annað sem sýnir hvernig farið var að því að byggja hana á sínum tíma.

Við innkomu gekk Sólrún beint að verði og spurði hvar stúlkan með geitina væri. Hann kom af fjöllum.

Við sáum Jesú á krossinum og ræddum lengi um krossfestingar, nagla, blóð og sársauka og að hann hefði dáið en að margir teldu að hann væri ekki dáinn heldur væri á himnum.
Svo skoðuðum við lengi lengi lengi tréskúlptúrinn á kórnum sem sýnir sveinbörnin aflífuð (sagan um Móses).
Ég var að vona að þau kæmu ekki auga á þessa hráu mynd sem sýnir illsku og offors og blóðuga barnslíkama hrynja til jarðar, ég þarf alltaf að benda fullorðnu túristunum á þetta en þau sáu hana þó ég reyndi að setja í hálfgerðan strunsgír.

Þegar við vorum svo búin að sitja og hlusta á orgelleik og vorum á leiðinni út báðu þau um að fá að fara aftur að skoða þessa mynd og ljónið sem verndar gröf einhvers biskups þarna sem hreif þau sérstaklega.

Við fundum hvorki Esmeröldu með geitina né Kvasímótó en þóttumst þó öll hafa séð þeim bregða fyrir á svölunum, örlítið falin bak við súlu að horfa á fólksmergðina sem er að einhverju leyti þeim að þakka.

Það er magnað hversu ólík tilfinning það er að fara með áhugasama og heillaða að skoða þessi stórvirki en að strunsa í gegn með fólki sem er orðið dauðþreytt, búið að sjá aðrar svona kirkjur í öðrum löndum og lítur varla upp þegar stoppað er í þverálmunni til að skoða rósalaga norður- og suðurgluggana.

Það er magnað hvað börn hafa næmt auga fyrir fegurð og handverki. Kári byrjaði að taka andköf yfir gluggum um leið og við gengum inn og þau voru síspyrjandi, vildu vita af hverjum öll líkneskin væru og svo er náttúrulega ótrúlegt að sjá hversu spennt þau eru að skoða hluti sem hræða þau, hvað börn elska að verða pínu hrædd.

Lifið í friði.