8.2.08

gullkorn nr. 1

Á stefnunni hrundu gullkornin af vörum fyrirlesara, svo hrærast þau um í heilagrautnum og skýtur upp þegar við á. Hver veit nema þau detti hér inn eitt af öðru á næstu vikum?
Alla vega kalla ég þessa færslu númer eitt og í því felst ákveðið loforð, samningur, pakt, um að fleiri fylgi á eftir.

Þjónustufulltrúinn í bankanum réttir þér regnhlíf þegar sól skín í heiði en rífur hana af þér þegar byrjar að rigna.

Bankinn minn var einmitt að senda mér tilkynningu um sekt fyrir fátækt.

Samt má ekki gleyma því að á þessum árstíma hef ég yfirleitt verið mun fátækari, jafnvel lent í því að þurfa að betla pening af foreldrum, en nú sé ég alveg fram á að geta fyllt holuna sjálf, bara ekki aaalveg strax. En ég hef aldrei lent í því að vera með túrista í desember og janúar fyrr. Allt á uppleið hjá Parísardömunni.

Og þar sem ég á nokkrar krónur í öðrum banka ætla ég að nota kort þess reiknings til að borga fyrir klippingu í dag og útstáelsið á morgun.

Það var eitthvað undarlegt hvítt glitrandi efni á bílum og vegum hér í morgun og sá ég að einn bíll rann til í þessu skrýtna efni. Ætli hjól geti runnið til líka? Ætti ég sem sagt ekki að fara á hjólinu í klippingu eins og ég var búin að ákveða?

Lifið í friði.