11.2.08

bjálki og flís

Ég hef mikið spáð í flísir og bjálka síðan á laugardagskvöldið út af örlitlu atviki í annars alveg frábærum kvennafans og vel heppnuðu kvöldi. Rauðvínið sem staðurinn bauð með matnum var ekkert sérlega gott en maturinn sjálfur alger dýrð og dásemd, góð þjónusta, lipur og létt, ekki daður, bara bróðurleg framkoma, honum fannst við frábærar, sem við náttúrulega erum. Flottur hópur. Og þar sem rauðvínið var ekkert sérlega gott, var ég ekkert sérlega þunn daginn eftir.

EN ég er sem sagt búin að vera að spá í flísir og bjálka og hef komist að þeirri niðurstöðu að þessi saga er aldrei of oft sögð.
Þetta er dálítið í beinu framhaldi af öðru sem hefur gerjast um í mínum fagra kolli undanfarið, en ég hef tekið mig í ákveðna meðferð í að reyna að hætta að skipta mér of mikið af öðrum og hvernig aðrir lifa sínu lífi. Ég held ég hafi ekkert verið of mikið að því þannig lagað séð, er t.d. löngu hætt að hneykslast á fólki og hef lengi barist gegn öllu sem heitir vandlæting sem, að mínu viti, er tilfinning náksyld hroka, gætu jafnvel verið alsystur.
Samt á ég það til að vera að hlutast til um eitthvað sem kemur mér ekki við og hef kannski gengið of langt í því að segja það sem mér finnst. Það getur verið erfitt að finna hinn gullna meðalveg í slíku og oft er erfitt að horfa upp á vini stefna í áttir sem manni finnst kolrangar, svamla um í feni neikvæðni og depurðar og grípa í rangar spýtur til að draga sig upp, en hvað á ég með að þykjast vita hvaða spýtur eru réttar eða rangar?
Og á ég eitthvað að benda fólki á að það sé kannski að fara offari í að skipta sér af öðrum? Er ég þá að skipta mér of mikið af þeim og þar af leiðandi í mótsögn við sjálfa mig?

Hér er svo örlítil lexía fyrir bloggara um það hvernig hægt er að afbaka raunveruleikann þegar fjasað er um mál án þess að vita allar staðreyndir þeirra.

Jæja, það verður stór dagur í dag, mikið af lausum endum sem þarf að byrja að hnýta ef ég ætla að komast á skíði í lok næstu viku. Og ekki má gleyma að bera á bjálkann, við viljum ekki að hann fúni í fjallaloftinu. Hvort er betra, Flügger eða Harpa?

Lifið í friði.