30.9.04

frí frí frí

Jibbí jei, ég er að fara í langþráð frí. Loksins! Mamma kemur í bæinn á morgun og við munum bruna til S-Frakklands í stórt hús í litlu þorpi rétt hjá Saint Emilion. Þar er 25 stiga hiti og sól í dag og er ég búin að ákveða að þannig verði öll næsta vika. Hver veit nema hægt verði að dýfa sér í laugina í garðinum? Eða slá nokkra tennisbolta í vegg á tennisvellinum? Eða hjóla um fagrar sveitir Bordeaux-svæðisins, gegnum vínekrurnar? Eða bara skutlast á bílnum niður á Atlandshafsströndina? MMMMmmmmmMMMMM Ég hlakka svo mikið til og er svo fegin að fara í frí, að ég er eiginlega að veikjast. Með hálsverki og beinbólgu. Nei, ég meina hálsbólgu og bein... æ þið vitið hvað ég meina. En mér er alveg sama. Ég svíf. Ég er að fara í frí.
Ég var aldrei búin að segja ykkur frá fjaðrafokinu sem framkvæmdastjóri TF1, valdamestu einkareknu sjónvarpsstöðvarinnar, þessari sem var fyrst ríkisstöð og var svo einkavædd fyrir nokkrum árum, þessari sem sýnir raunveruleikann á sama raunverulega hátt og DV gerir á Íslandi, dregur upp mynd af öllum ósómanum, klínir því á skjáinn og fær mesta áhorfið og halar inn helming allra sjónvarpsauglýsingatekna Frakklands, olli (jú, þetta er rétt setning þó hún sé dálítið Proustleg, fjaðrafokinu sem ... olli).
Í einhverri nýútkominni samtalsbók segir hann starf sitt felast í því að gera heila fólks móttækilegri fyrir auglýsingum. Þannig sé hans starf í raun og veru að selja kók.
Frakkar eru mikið fyrir að segja það sem þeim finnst, og því hefur mikið verið rætt og ritað um þessa hræðilega berorðu yfirlýsingu. Sumum þykir gott mál að hann skuli vera svona hreinskilinn, að hann skuli ÞORA að vera svona hreinskilinn, meðan öðrum finnst vegið að öllum sjónvarpsáhorfendum og heilum þeirra. M.a. voru haldin mótmæli fyrir utan aðalstöðvar TF1 um daginn, þar sem 30 ungmenni sátu með spjöld eftir að hafa lagt átta ferska kálfsheila við þröskuld aðaldyranna.
Auðvitað hreyfir svona setning við okkur, þó að við vitum vel sjálf að megnið af sjónvarpsefni sem okkur er boðið upp á, er okkur ekki bjóðandi, og hversu óþolandi það er að allt miðast við áhorfunartölur, sem er afleiðing auglýsingakapphlaupsins, sem er afleiðing kapítalismans.
Ég horfi eiginlega aldrei á TF1. Ekki vegna fordóma, heldur vegna þess að mér finnst þættirnir þeirra vera leiðinlegir, eða það sem ég les um þá vekur a.m.k. ekki áhuga minn. Ég nenni ekki að horfa á fólk gera upp fjölskyldudeilur eða koma út úr skápnum. Nenni ekki að horfa á sérvitringa sýna hvað þeir eru skrýtnir eins og konuna sem elskar hundinn sinn út af lífinu og vill fá að gefa honum nýra, eða manninn sem heldur að hann sé strætisvagn og fer um bæinn og býður fólki að hoppa upp á sig (bæði dæmin eru heimatilbúin og ég er mjög montin af þeim, vil gjarnan fá hrós í væntanlegum orðabelgjum).
Auðvitað hef ég ýmislegt sagt um þessa setningu og margt hugsað um hana. Mér finnst maðurinn mikilmennskubrjálæðingur. Hann á ekki að sýna tryggum áhorfendum stöðvarinnar hversu hrottalega hann lítur niður á þá. Hann á að halda áfram að leika leikinn um að það sem þeir sýna, sé það sem fólkið vill horfa á, hann sé þeirra þjónn. Ekki að hann sé að ræna þau heilanum, þó það sé auðvitað sannleikurinn. Okkur hlýtur öllum að líða betur í þjóðfélagi sem við teljum vera að vinna okkur í hag. Að Davíð og Björn og Gunnar og Jón og kannski ein og ein Katrín eða Jóna, séu að vinna í okkar þágu og fyrir almannaheill. Þó að innst inni vitum við að bröltið fjalli fyrst og fremst um vald og að vald fjalli fyrst og fremst um peninga.
Lýðurinn hefur rétt á því að geta látið eins og ekkert sé. Lifi skeytingarleysi, fáfræði og almenn skítsemi (af skítsama).

Þessi pistill byrjaði sem saklaus tilhlökkunarmeðdeiling, en endaði í hápólitísku orgi. Hvað gerðist eiginlega? Hvert er þessi heimur að fara eiginlega?

Lifið í friði.
p.s. Ekki gleyma að heila jörðina sem þið gangið á, og viti menn, einn góðan veðurdag verður jörðin góður staður.

sigur steindórs

Var á tónleikunum Hrafnagaldur Óðins eftir Sigurrós, Hilmar Örn o.fl.
Það var voðalega gaman í kokkteilboðinu á undan, enda tókst mér að drekka fjögur kampavínsglös sem nær ekki upp í mikinn hluta af flugmiðanum heim, en telst þokkalegur árangur miðað við að þeir virtust nú eitthvað vera að treina kampavínið (ekki til í byrjun (þar til ég kom), ekki til í miðju (nema fyrir mig) og svo var aðeins til þarna í endann, en öllum sagt að þetta væri síðasta flaskan...) þarna á tíundu hæð í Holiday Inn við Porte de Pantin.
En aðalmálið var vitanlega tónleikarnir sem voru fínir þó að ég hafi orðið fyrir örlitlum vonbrigðum. Sándið var ekki nýtt, þetta minnir á Preisner (æ sorrí ef nafnið er rangt, tónskáldið sem gerði tónlistina við Tvöfalt líf Veróniku) og tónlistina úr Rómeó og Júlíu nútímaútgáfunni. Popp og klassík í bland hljómar kannski alltaf eins en samt... svona melankólísk konurödd og mollar og tvíundir... æ, ég var skömmuð fyrir að vera með neikvæðni áðan af vinunum eftir tónleikana og svo held ég áfram hér... hætt núna.
Sigurvegari tónleikanna er hins vegar söngvarinn, rímnamaðurinn, galdrakarlinn Steindór. Frábær. Fallegur. Góður. Galdrakarlslegur. Mikil og sterk ára. Allt sem þurfti til að fylla upp í tómið sem fiðlurnar og ásláttartækin náðu ekki að fylla. Óborganlegur.

Ég væri alveg til í að búa með útsýni yfir périphérique, hraðbrautina sem umlykur borgina. Mér finnst svona streymandi fjarlæg bílaumferð hreint augnayndi.

Lifið í friði.

26.9.04

ráð og ræna

Ég lýsi hér með eftir ráði og rænu sem tapaðist einhvern tímann upp úr miðnætti í gær í afmælinu hennar Bryndísar E. Til hamingju með afmælið elskan mín og takk fyrir frábært partý.
Reyndar er hún Bryndís með vonlausan tónlistarsmekk þó við getum stundum mæst í gömlum abbalummum og öðru diskói. Ég þoli ekki vælið í þessum píum í dag. Þoli það ekki. Þess vegna tók ég mig til og dauðarokksöskraði yfir sum þessara laga og lýsi því líka eftir rödd minni sem er atvinnutæki mitt og ég þarf að nota á morgun, ásamt ráðinu og rænunni.
Best að skríða aftur undir sæng. Börnin eru hjá ömmu og afa og verða fram á morgun svo við hjónin erum að upplifa allsherjar hvíldardag. Arnaud ætlar út að ná í vídeó og pizzu. Ykkur finnst þetta kannski hljóma banalt, en við gerum þetta ALDREI. Nema núna.
Lifið í friði.

25.9.04

Sko mína!

Svona er maður nú flinkur stundum þó maður sé örvæntingarfull móðir á laugardagsmorgni. Nú getið þið lagt orð í belgi og ég svarað þeim fullum hálsi. Sleppið ykkur nú alveg! Embla, þú getur sett þetta á hjá þér og ekki orð um þetta vandamál meir. Tekur innan við mínútu. Klikkaðu á titilinn á þessum pistli og þú ert á réttum stað.
Lifið í friði.

Haloscan commenting and trackback have been added to this blog.

stundum

Stundum hellist það yfir mig, eins og einhver fáránleg mistök, eitthvað Kafkadæmi þar sem ég skil ekki aðstöðu mína og ástæðurnar fyrir henni, að ég er orðin tveggja barna móðir og æðsti yfirmaður fjögurra manna fjölskyldu. (Ég get leyft mér að setja mig í æðstu stöðu þar sem maðurinn minn er útlendingur og kann ekki að lesa bloggið mitt - hí á hann.)
En það sem ég meina er, að jú, ég gekk með þessi tvö börn og fæddi þau á náttúrulegan hátt og man vel eftir því og GEKKST VIÐ ÞEIM í ráðhúsinu (já, móðirin þarf að fara og skrifa undir að hún gangist við barninu sem hún ber undir belti hér í Frakklandi...) og leik mér við þau á hverjum degi og skipti á bleijum og þvæ hári og bak við eyrun og og og... en svo bara stundum er ég að gera einhvern einfaldan hlut eins og áðan var ég að setja yfir kartöflur, og fór að spá í hvað þyrfti margar kartöflur og þá helltist yfir mig að ég var að setja yfir kartöflur fyrir fjóra, FJÓRA, alveg eins og þegar ég var tólf ára að setja yfir kartöflur fyrir mömmu og þá var ég bara að hlýða beinni skipun, en núna er ég að gera þetta vegna þess á ÉG ákvað að það yrðu kartöflur í hádegismatinn. Skilur mig einhver? Ég veit ekki hvort ég næ að útskýra hvað maður er týndur á svona stundum. Gersamlega sannfærður um að þetta séu allt saman einhver mistök, maður sé ekkert kominn í þennan pakka bara sisona allt í einu og óforvarendis.
Ég skil að sumar konur myrða börnin sín og sig á eftir. Ég skil að feður myrða börnin sín, konuna sína og sig á eftir. Þetta fólk leyfir sér að ganga alla leið í þessari týndu örvæntingu sem grípur mann, í staðinn fyrir að ég tek mér tak, hristi mig og segi við sjálfa mig að auðvitað sé ég núna tveggja barna móðir. Ég hafi viljað það og sé ánægð með það. Auðvitað er ég ánægð með það. Þetta bara hellist stundum yfir mann í augnablik og svo er það búið. Stundum.
Lifið í friði.

24.9.04

íslenskur lopi

Íslenski lopinn er SVO góður og það eina sem blívur þegar hitinn fer niður fyrir tíu gráður, já, mér er sem ég heyri ykkur glotta, ég veit að þið þarna uppi á skerinu í Norðri getið ekki séð neitt kalt við það, en ekki gleyma því að heimili mitt er óupphitað enn sem komið er þar sem hitunin er sameiginleg og líklega bíðum við eftir að klukkunni verði breytt yfir á vetrartímann eða eftir því að síðasta rósin fölni hér fyrir utan eða ég veit ekki hverju til að kveikja upp. Það liggur við að börnin séu látin sofa í lopanum, en lét þó dúnsængurnar og hlý náttföt duga. Þau sofa m.a.s. undir sængum sínum alla nóttina, sem er nýlunda.
Það eru til margar sögur um þjáða kalda Íslendinga í gisnum gömlum húsum í erlendri stórborg. Húsið mitt er ekkert voðalega gamalt né gisið, en mér er nú samt skítkalt. Því vil ég samúð ykkar þarna uppfrá í góðu upphituðu snjóhúsunum ykkar. Íshöllunum. Með dansandi álfana í garðinum. Og öll náttúrulega blindhaugafull af því það er föstudagskvöld.
Maður er búinn að lesa allt of mikið af afvegaleiðandi greinum um Ísland í frönsku pressunni út af þessari lista- og vísindahátíð sem gengur í garð í næstu viku. Við erum öll Björk og álfar og fyllibyttur.
Ég var að horfa á Femme fatale eftir Brian De Palma. Þrykkjufín afþreying. Þarf samt aðeins að fá að hugsa um hana áður en ég kveð lokadóm því hún er svo dæmalaust skrýtin að ég veit ekki hvort hún er karlrembuverk eða einhvers konar afsökunarbeiðni gagnvart afbökun konunnar í Film Noir-myndunum. Læt ykkur vita hvað ég ákveð ef ég einn daginn ákveð það. Ætli það sé hægt að fá örorkubætur fyrir að vera með lamaðan heila?
Lifið í friði.

afsakið menningarferna var það víst heillin

Bið afsökunar, var víst búin að ræða um menningu í þremur pistlum áður. Þannig að það var orðin ferna og núna komið upp í fimmu. Hvar endar þetta?
Lifið í friði.

kalt á tánum

Ég næ ekki úr mér einhverjum kuldahrolli. Sit hér í lopapeysu og vildi helst vera í ullarsokkum með grifflur á höndunum að pikka á tölvuna. Er búin að ferðast um aðrar bloggsíður í dag og fann fullt af skemmtilegum síðum. Þyrfti bara að kunna að setja svona bloggaralista á síðuna mína, en ég er klaufi og fæ ekki að skoða helpsíðuna hjá blogger. Nú bíð ég spennt eftir að vera komin til Íslands í fang litla bróður sem er tölvusnillingur og á að taka síðuna mína í gegn.
Svo bý ég vitanlega vonandi líka til Parísarsíðuna með ýmsum hagnýtum upplýsingum og svoleiðis.
Börnin ákváðu að fá sér ekki sinn daglega blund, og eru hér með Legó út um alla stofu meðan mamma er í tölvunni. Guði sé lof fyrir legókubba. Guði sé lof fyrir börn sem stækka og eru farin að leika sér soldiðsona saman stundum í smá stund. Reyndi að hvísla þetta á tölvuborðinu þar sem mín reynsla er sú að ef maður byrjar að hrósa þeim, breytast þau í skrímsli.
Við erum sem sagt á leið til Íslands 10. október og verðum í 3 vikur, ég og börnin. Karlinn verður eftir til að læra fyrir bókasafnsprófið sem hann ætlar í í nóvember. Í í, fáránlegt, en finn ekki aðra lausn. Jú, líklega ... sem hann ætlar í um miðjan nóvember. Betra.
Og þá gýs upp lykt sem er í samræmi við stunur og rautt og þrútið andlit. Best að fara að þrífa bossa.
Eitt enn í sambandi við menningu og þá er komin pistlaþrenning: Hvort er verra, snobbið í kringum menningu, eða fælni við menningu? Bæði jafnvont?
Lifið í friði.

enn menning

Ég vildi bara koma því að að menning rímar líka við þrenning.

Annað hef ég ekki fram að færa héðan úr kuldanum í París. Engan veginn tilbúin í veturinn. Leiðist tilhugsunin um að þurfa að nota húfu og vettlinga. Leiðist að þurfa að klæða börnin mín í mörg lög af fötum. Leiðist kuldi. Flyt áreiðanlega til heitari landa einn daginn. Og skrifa ódauðlega bókmenntaverkið.

Lifið í friði.

22.9.04

menningarfælni

Takk fyrir innleggið svala amma. Það er einmitt mjög erfitt að henda reiður á þetta fyrirbæri bæði út af þessu snobbi og þessari leiðinda fælni sem margir hafa. Ég þekki nokkra sem eru svo ákveðnir í að allt sem gæti talist menningarlegt hljóti að vera leiðinlegt að þeir einmitt fara á mis við ýmislegt í lífinu. "Heimsbókmenntirnar" eru t.d. í útrýmingarhættu því það er svo menningarlegt að taka sig til og lesa þær, að sumir forðast það í lengstu lög, án þess að vita að ýmsar bókmenntir sem teljast til "heimsbókmenntana" geta verið bæði auðlesnar, fyndnar og spennandi sögur. Hvílík fásinna að leyfa ekki sjálfum sér að "neyta" hluta sem menningarsnobbliðið fílar. Hvílík fásinna líka að leyfa sér ekki að gagnrýna hluti sem menningarsnobbliðið fílar. Hér get ég t.d. nefnt David Lynch og kvikmyndina hans Mulholland Drive sem enginn kvikmyndagagnrýnandi í Frakklandi (og á Íslandi?) hélt vatni yfir. Ég var næstum því dáin á myndinni, svo mikið leiddist mér. Mér leiddist svo mikið að í huganum lagaði ég til í fataskápnum mínum, gekk frá öllum hreina þvottinum og eldaði súkkulaðiköku. Þegar ég kom heim var sama óreiðan og engin kaka, en...
"Menning rímar við kenning" og "I hate culture" eru líklega bestu setningarnar um þetta ósnertanlega fyrirbæri. Það væri líklega eins hægt að reyna að sálgreina marsbúana eins og að reyna að skilja þessi hugtök.
Lifið í friði.

menning

Mikið hefur verið rætt og ritað um hvað menning er nákvæmlega. Ég hef enga töfraskilgreiningu á reiðum höndum, en mér þótti þó afskaplega undarlegt að sjá þetta á forsíðu Morgunblaðsins frá síðasta laugardegi:

Íslandsvinur í Survivor.
Einn keppendanna sigldi framhjá Bessastöðum.
MENNING.

Þetta er stórmerkilegt í einu og öllu. Í fyrsta lagi: Verður maður nú Íslandsvinur af því að sigla framhjá landinu okkar? Þurfa klúbbfélagar ekki einu sinni að stíga á land lengur? Hverjir verða skilmálarnir 2010? Verður þá nóg að hafa fengið tölvukeðjubréf sem farið hafði í gegnum íslenska tölvu? Mér hefur reyndar alltaf fundist þessi Íslandsvinaklúbbur skemmtilega fáránlegt fyrirbæri, og hef oft útskýrt það fyrir Frökkum þegar ég hef fundið þörf hjá mér fyrir að draga upp háðska mynd af landinu.
Í öðru lagi: "sigldi framhjá Bessastöðum" Þarf að hafa orð um þennan hluta?

Í þriðja lagi: MENNING. Hvað er menningarlegt við þetta? Að verið er að fjalla um sjónvarpsþátt og að allt sjónvarpsefni er "menning"? Að verið er að fjalla um Ísland, nánar tiltekið Bessastaði, og hlýtur þar af leiðandi að tengjast "menningu"? Hvar kemur menning inn í þætti eins og Survivor? Getur einhver hjálpað mér? Ég er týnd. Ég er búin á því. Ég get ekki meir.
Ég ætla hér með bara að segja það sem ameríska konan sagði við Lottu vinkonu fyrir utan Louvre-safnið í París, til útskýringar á því að hún nennti ekki inn í safnið með karlinum sínum:
I HATE CULTURE!

Lifið í friði. Og passið glerboltana ykkar. Takk fyrir orðabelgina, Gvendólína, Helga og Svala.

20.9.04

heimurinn og ég

Það er alveg undarlegt, að þó maður sé svona áhugasamur um það sem er að gerast út um allan heim, þó maður láti sig varða vandamálin í hinum heimshornunum, þó maður þjáist pínulítið út af sjúkdómum og hungri í Afríku og á götum Parísar, þó hjarta manns blæði fyrir stríðshrjáða í Írak, Tjétsínu og Súdan, þá er maður samt svo einfaldur og sjónarhornið í raun svo lítið, að það miðast gersamlega við manns eigin nafla.
Ég hef verið að segja ferðalöngunum í París í sumar frá áhrifunum sem hitabylgjan hafði á okkur í fyrra, og frá myndunum sem við sáum í október/nóvember af flutningabílunum kældu sem voru að safna líkum sem var hrúgað inn í bílana, og frá öllum líkunum sem enginn vildi eiga. Þetta var allt saman mjög áhrifamikið og sorglegt, en fékk þó nýja vídd í huga mínum á laugardaginn var.
Arnaud rétti mér Télérama (sjónvarpsblaðið okkar) og sagði mér að lesa lítla umsögn um heimildarmynd sem átti að sýna þá um kvöldið. Heimildarmyndin heitir "Hinir gleymdu úr hitabylgjunni" (Les oubliés de la canilcule). Kvikmyndagerðarkona fór á stúfana og leitaði uppi þessa ættingja sem voru níddir niður í fjölmiðlum fyrir að neita að taka við líkum systra, mæðra eða jafnvel barna sinna. Vitanlega var rætt um það að útfarir eru mjög dýrar, og með því að taka við líkinu, tekur fólk á sig að greiða fyrir útförina. Málið er, að þessir ættingjar voru ekki að gera þetta í einhverri illsku, sagan á bak við lokadramað var löng og oft sársaukafull saga um yfirgefin börn sem sátu eftir með móður sem hafði varla efni á að gefa þeim að borða, um fólk sem var yfirgefið aftur og aftur, þessir sem myndin sýnir voru í raun allir að halda áfram að virða val manneskjunnar sem dó ein og yfirgefin og leyfa henni að hvíla einni og yfirgefinni í hálfgerðri fjöldagröf í úthverfi Parísar, alveg eins og hún kaus að lifa ein og yfirgefin án nokkurra tengsla við fjölskylduna.
Í greinarstúfnum eru nöfnin talin upp og þar var eitt nafn sem við hér á heimilinu þekkjum vel. Auguste Von Briesen. Brjálæðingurinn, listmálarinn, sem Arnaud vann fyrir í nokkrun tíma, sem bjó einn með úlfinum sínum í pínulitlu stúdíói á avenu Montaigne, fallegustu breiðgötunni í fallegustu borginni í fegursta landi Evrópu (þetta kemur frá honum sjálfum skv. dóttur hans í myndinni). Það fór ískaldur hrollur um mann þegar maður hugsaði til baka til ágúst í fyrra, að innan um öll þessi lík var eitt lík sem við þekktum, (þó ég hafi aldrei hitt hann hefur Arnaud verið duglegur að segja mér frá honum og Von Briesen er fígúra sem erfitt er að gleyma og er oft hafður í flimtingum á heimilinu). Auguste Von Briesen var fluttur í íbúð á vegum Parísarborgar þegar hann dó, og hefur því vonandi þurft að losa sig við úlfinn sinn. En líkið var vitanlega óþekkjanlegt þegar dóttir hans kom til að "bera kennsl á hann" um leið og henni barst bréfið frá borginni í hendur, daginn sem hún kom heim úr fríinu. Hún tók líkið og gróf föður sinn í "alvöru" kirkjugarði að viðstaddri fjölskyldunni. Hann er því ekki alveg einn hinna gleymdu, en þar sem hún mætti ekki fyrr en daginn sem stóra útförin átti að fara fram, birtist nafnið hans ásamt hinum nöfnunum 54 í blaðinu Le Parisien, og í kjölfarið birtust greinar um þennan gleymda listamann í ýmsum fjölmiðlum. Dóttirin er, ásamt systkinunum, þannig samt einn af þessum ættingjum sem "fer bara í frí í ágúst og skilur gamalmennið eftir aleitt og ófært að hugsa um að drekka nóg vatn þegar hætta er á að hitinn fari yfir öll eðlileg mörk". Vond vond, samkvæmt öllum fréttum um efnið í fyrra. (Nú er vert að segja frá fjölskyldunni í Suður Frakklandi sem hreinlega drekkti afanum, gáfu honum allt of mikið að drekka og líkaminn réði ekki við allan þennan vökva svo hann dó. Þarna á máltækið "of mikið af hinu góða" afskaplega vel við.)
En dóttirin segir frá því að Von Briesen hafði aldrei hugsað um velferð barna sinna og hafði m.a.s. dregið þau fyrir rétt fyrir nokkrum árum, til að reyna að fá út úr þeim peninga. Arnaud man einmitt eftir að hafa vélritað hótunarbréf til barna hans, eitthvað sem hann bað þá manninn um að forðast í framtíðinni, hann vildi ekki taka þátt í svona löguðu. Þau bjuggu alltaf í örlitlum stúdíóum við avenue Montaigne, og hann tók allt plássið fyrir sig og listina, þau voru í þriggja hæða kojum á göngum eða inni í eldhúsi, og áttu að dúsa þar og þegja þegar hann tók á móti gestum.
Hvað móðurina varðar, vitum við ekki neitt um hana. Von Briesen sagði aldrei orð um hana, og dóttirin í myndinni ekki heldur, hún sýnir ljósmynd af henni með ungabarni, en fer ekkert nánar út í það hvað varð um hana. Furðulegt og vert að kanna nánar.
En systkinin tóku sem sagt við karlinum látnum og veittu honum "heiðarlega" útför. Dóttirin segir þó, að ef hann sjálfur hefði mátt velja, hefði hann líklega heldur viljað vera fylgt til grafar af Jaques Chiraq en börnunum sínum, og Arnaud staðfestir þetta. Þannig má kannski segja að þau hafi náð fram einhvers konar hefnd. Með því að vera svona "ofsalega góð" tóku þau frá honum þessa opinberu útför sem fór mikinn í fjölmiðlum, og var hluti af afsökunarbeiðni Chiraq um að hafa yfirgefið ósjálfbjarga lýð sinn og eytt þessum erfiða heita ágústmánuði í svölu fjallaþorpi í Kanada.
Ég verð svo að segja sögu barna Von Briesen alveg til enda. Þau neituðu að taka við arfi, þar sem hann átti aðallega skuldir. Því fer fyrst nefnd frá ríkinu í íbúðina og hirðir allt sem seljanlegt er. Sem í hans tilviki voru vitanlega málverkin hans. Von Briesen hafði aldrei gefið börnum sínum málverk. Við fylgjum dótturinni svo þegar hún kemur í íbúðina hans, í fyrsta sinn eftir dauða hans, til að finna ljósmyndir og annað sem hún gæti haft áhuga á. Íbúðin er eins og FBI hafi komið að leita að eiturlyfjum. Öllu umsnúið og viðbjóðsleg aðkoma. Dóttirin grætur með ekkasogum, bæði vegna þessarar ömurlegu aðkomu (það var reyndar alltaf mikið drasl hjá honum, en ekki svona) og líka vegna þess að hún hafði aldrei komið í þessa íbúð sem hann bjó í síðustu tvö ár ævi sinnar, því hún hafði aldrei hitt hann eftir réttarhöldin sem hann tapaði gegn henni. Eftir að hafa fundið slatta af ljósmyndum, finnur hún, falið uppi á skáp, pakka með þremur málverkum sem hafa farið fram hjá nefndinni opinberu. Þannig fá börnin hvert sitt málverkið frá föður sínum, þ.e.a.s. ef nefndin horfði ekki á heimildarmyndina og gerir kröfu í verkin.
Það er einhvers konar yfirvofandi réttlæti í þessum skrýtna heimi sem byrjar í naflanum á mér. Einhvern veginn uppsker maður sem maður sáir, einhvern veginn fær maður greitt fyrir góða hluti og greiðir skuldirnar á endanum.

...er dauðinn sá mikli rukkari réttir oss
reikninginn yfir það sem var skrifað hjá oss.
Þá verður oss ljóst að framar ei frestur gefst,
né færi á að ráðstafa nokkru betur,
því alls sem lífið lánaði, dauðinn krefst...

Hitabylgjan var vond minning um vondan tíma í yndislegu París. Nú er hún kaldur raunveruleiki um dauða skrýtna karlsins okkar, Von Briesen. Önnur upplifun, annar raunveruleiki.

Myndin bendir á, að á hverjum degi eru þrír til fjórir einstaklingar grafnir í þessum opinbera kirkjugarði, og þar af er meirihlutinn fólk sem á íbúðir og peninga, það á bara engan til að grafa sig. Fólk sem hefur valið að skera á öll fjölskyldubönd og viljað lifa eitt. Það fer þó aldrei aleitt í jörðina, því hér eru starfandi samtök sem senda þrjár manneskjur á hverjum degi til að fylgja þessu eina fólki til grafar, til að forðast það að hægt verði að líta á leifar manneskju sem rusl.
Lengi lifi allir brjálæðingar, en munið að ef þið viljið ekki deyja ein, verðið þið að hlúa að sambandinu við fjölskylduna ykkar og vinina.

Lifið í friði.

17.9.04

líttu vel út

Sá um daginn í búð í Mýrinni lítinn poka með pillu í, og á pokalokinu stóð: "Look good in your jeans". Ætti kannski að skreppa á eftir og kaupa mér eina.
Annars er helsta jákvæða við stóra fína rassinn minn að manninum mínum finnst hann flottur og segir alltaf þegar ég byrja að gera leikfimisæfingar og minnka við mig í mat, að ég megi ekki missa gramm aftan af mér.
Annars er ég ekki með mikla fitukomplexa. Aðalmálið er að ná maganum aðeins betur inn, hann lafir einhvern veginn skringilega niður eftir þessar tvær meðgöngur sem voru með stuttu millibili. Gömul kerling bað mig að hjálpa sér í búðinni um daginn að taka upp sex mjólkurfernur í pakka, en hikaði svo og sagði: "Nei, fyrirgefið, þér eruð ófrísk" Ég hló bara að henni og sagði að barnið væri komið út og að þetta væri ekkert mál. Auðvitað sagði ég henni ekki að barnið væri orðið tíu mánaða uppistandandi töffari. Vandamálið er bara að ég nenni ekki að gera magaæfingar. Mér finnst að maginn eigi bara að skilja það að nú sé komið nóg, hann eigi bara að fara. Nenni ekki að þurfa að hafa fyrir því að ná honum af. Mér finnst að styrkur hugans eigi að nægja til að breyta sér í laginu. Ég er sannfærð um að ef við gætum stýrt því auðveldlega hvernig við litum út, yrði minna um sjálfsmorð og þunglyndi og ég er líka sannfærð um að við myndum ekki öll líta út eins og barbí og ken þó auglýsendur vilji láta okkur halda að okkur dreymi um það. Lifi búlduleitar konur og mjóslegnir karlar!
Lifi hugarstyrkurinn.
Lifið í friði.

16.9.04

sumir dagar

Sumir dagar eru þannig einhvern veginn að manni finnst maður hafi vitað það allan daginn að best hefði verið að liggja í rúminu.
Enginn túristi (önnur vikan í röð, þetta er greinilega búið núna). Enginn baksýnisspegill. Eintómt rugl með öryggisgræjuna sem ég ætlaði að festa á gluggann. Byrjaði vitanlega í stofunni, hefði átt að vita betur og byrja inni í herbergi, en nú eru tvær holur í gluggakarminum í stofunni sem gapa þarna við mér.
Náði þó að gera tvennt sem stóð til lengi og gott að vera búin að:
Keypti mér gallabuxur í fyrsta sinn í þúsund ár að mér finnst. Nú á eftir að sjá hvort ég fari í þær... Þvoði og ryksugaði bílinn (fyrir túristana sem ég ætla að keyra á mánudaginn). Það var þarfaverk, hef ekki þrifið bílinn síðan ég keypti hann... í mars...
Nenni ekki að skrifa meira, enda nennir Kári ekki að ég skrifi meira.
Lifið í friði feita flotta fólk.

15.9.04

erfitt

Hvað er átt við því að erfitt sé að vera Davíð núna? Af því að hann er veikur? Ég held að það sé erfitt að segja um það hvort það sé erfitt að vera hann veikur.
Ég veit um fólk sem er veikt og hefur ekki kost á læknisþjónustu, fólk sem horfir upp á börnin sín svöng og getur ekki gefið þeim að borða. Fólk sem heyrir sprengjur springa nálægt heimili sínu, og getur ekki flúið neitt annað.
Þó ég viti allt þetta, finnst mér stundum erfitt að vera til. Mér finnst til dæmis stundum erfitt að þurfa að bera börnin mín upp stigana heima, þau södd og sæl og heilbrigð, ég líka, íbúðin yndisleg og hrein og hlý, þau líka.
Erfitt er eitthvað sem erfitt er að mæla. Erfitt er mjög skrýtið orð, þegar maður endurtekur það oft. Ervitt.
Ég finn ekki mikið til með Davíð. Ég óska honum alls ekki að vera veikur, og vona að honum batni.
Lifið í friði og elskið erfittið ykkar, því það er kannski ekki svo erfitt eftir allt saman. Svo er lífið leiðinlegt þegar ekkert erfitt er í því.

14.9.04

draumóramanneskja

Ég veit að þið vitið öll að ég er draumóramanneskja, eða að ykkur finnst ég a.m.k. vera það. En ég er ekki svo langt leidd að ég segi ADIEU við Davíð. Ég veit að hann er ekki að fara langt, eins og ég benti á, og ég veit líka alveg jafnvel og þið hin að við eigum eftir að sjá hann í framboði til annarrar stöðu, sem hann sjálfur var að þykjast reyna að minnka niður í einhvers konar diplómatskrautstöðu en auðvitað ætlar hann að reyna að komast í hana einn góðan...
Annars er ég gersamlega andlaus þessa dagana. Friðartímarnir í Bagdad eru blóðugri en eldhúsið hennar ömmu var á sláturdegi í gamla daga, Rússar ætla ekki að rannsaka málið með börnin sem dóu, í Súdan deyr fólk ekki eitt, á McDonalds í miðborg Parísar er löng biðröð í hádeginu. Heimurinn er samur við sig.
Lifið í friði.

au revoir

Au revoir Davíð. Bonjour Halldór.
Nú verður gaman að fylgjast með því hvað muni breytast... hm... Davíð er nú ekki að fara neitt langt...
"Sumir hlutir breytast aldrei" virðist alltaf vera mottó bæði kjósenda og stjórnenda landsins. Kannski finnst öllum ég biluð að vera eitthvað að pæla í því að eitthvað ætti að fara að gerast.
Kannski finnst öllum allt vera í lagi. Eins og manninum sem var að detta niður af þaki blokkarinnar. Eftir hverja hæð sagði hann við sjálfan sig: Hingað til er allt í lagi. (Úr La Haine, Hatur, kvikmynd eftir Matthieu Kassovitz).

Lifið í friði.

12.9.04

takk embludísin mín

Mér líður miklu betur, kúlan farin og dahl-uppskriftin verður deffínettlí prófuð í vikunni.
Annars er ég svo þreytt að ég ætla alls ekki að fara að geysa um ritvöllinn. Þorði bara ekki öðru en að svara svona löngum og góðum orðabelg, og eins og dyggir lesendur vita, get ég ekki svarað honum með orðabelg sjálf. Veit einhver hvernig maður getur fengið orðabelgi "driven by haloscan" eins og toggipop o.fl. eru með?
Lifið í friði og kyssið kviði.

kúlur

Mér er búið að vera illt í kúlunni sem magnumflaskan skildi eftir á mínu fagra og veluppfyllta höfði á sunnudaginn var. Í dag var ég að hlaða myndir inn á webshots-síðuna (þú getur smellt á titilinn og ferð þá beint inn þar til að skoða) með Kára í fanginu og þegar ég stóð upp gerði ég það sem kallinn minn gerir daglega og ég hlæ alltaf jafnhátt að honum: Ég rak hausinn í kojuna sem tölvan stendur undir. Ég man alltaf eftir þessu, en Arnaud bara getur það ekki, hann er svo einbeittur alltaf að skrifa bókmenntir í tölvuna, ekki bara svona bloggrugl og bréf til vina eins og ég. En hvað um það, ég rak sem sagt höfuðið upp undir og meiddi mig, en núna, tveimur tímum seinna, virðast allar kúlur farnar og mér er ekkert illt. Lífið er sannarlega skrýtið og skemmtilegt svona á stundum.
Lifið í friði og ekki gleyma að kíkja á myndirnar af Sólrúnu, Kára og Elmari litla.

11.9.04

niðurdregin

Ég er niðurdregin í dag. Ekki eitt einasta orð í belg í sambandi við pistilinn á undan, sem ég skrifaði skjálfandi af reiði og bjóst við hörðum viðbrögðum þar sem ég er á vissan hátt að fyrirgefa hryðjuverkamönnum sem drepa saklausa borgara. Hélt að fullt af lesendum myndu sýna reiðiviðbrögð á móti. Nei. Ekkert. Nada. Kannski les mig enginn? Kannski eru allar tölvur bilaðar? Kannski er ég bara svona déskoti sannfærandi og engum finnst neinu við mig að bæta?
Svo er ég líka niðurdregin af því að Ívar litli lenti í slysi þegar hann var að leika sér við Sólrúnu í gær meðan við mæðurnar sátum á kaffihúsi og fylgdumst með þeim. Fengum samviskubit um leið og við vitum að slys er bara slys og að þar sem við leyfum börnunum okkar að gera ýmislegt sem frönsk börn fá t.d. ekki að gera, er ákveðin hætta á að stundum fari illa. Ívar er með kramda og bláa hendi, og tvo putta bundna saman. Slysó hérna er hræðileg, veggirnir slitnir, flísar brotnar, hurðakarmar flagnaðir. Íslenskir læknar myndu líklega neita að vinna við svona aðstæður, en franska hjúkunarliðið og læknarnir voru öll mjög yndisleg og standa sig með prýði þrátt fyrir þennan ömurlega aðbúnað. Við vorum náttúrulega á spítalanum sem var byggður á 17. öld, Hôtel Dieu, sem mætti útleggja á íslensku sem hótel guð og ber nafnið vegna nálægðarinnar við guðshúsið Notre Dame, en ekki af nálægð gesta við gullna hliðið. En það virðist allt í lagi með hendina hans Ívars, ekki brotinn og hann var farinn að nota hana um kvöldið aftur. Ég nenni ekki að segja frá röntgenmyndatökunni, tvö stikkorð: org og sviti.
Svo er ég líka niðurdregin af því að börnin mín eru ekki með neitt leikskólapláss. Fáum að vita eitthvað meira með Kára 22. september, en vitum ekki hvenær við fáum að vita með Sólrúnu. Konan sem ræður, svarar ekki okkar þúsund skilaboðum.
Svo er ég líka pínu niðurdregin vegna þess að í dag er 3ja ára afmæli árásarinnar á tvíburaturnana, sem var undanfari stórra hörmunga fyrir fullt af saklausu fólki. Ömurlegt. Man einmitt vel að ég var þá ólétt af Sólrúnu og hugsaði til hvers maður væri eiginlega að eignast barn inn í svona heim. Til hvers? Vonandi getur maður a.m.k. búið til heilbrigða einstaklinga með virðingu fyrir mannslífinu og mannkynsjafnrétti.
En mér líður betur núna. Ekki eins niðurdregin eftir að hafa skrifað þetta niður. Líklega er bloggið mitt bara eins og hver önnur leynidagbók sem enginn les. En það er samt allt í lagi. Ég hef a.m.k. gaman að því að tjá mig hér og það er nóg.
Lifið í friði.

9.9.04

breytum-st

Morgunblaðið síðasta laugardag fordæmir hryðjuverkamennina frá Tjétsínu og segir ALLAN HEIMINN STANDA MEÐ RÚSSLANDI. !?
Þessu er haldið fram í forystugrein, svo er vitanlega annars staðar í blaðinu heil síða með lýsingum og listi yfir öll hryðjuverkin síðustu ár. Einhvers staðar er minnst á ódæði Rússa í Tjétsínu, en þá er talað um eyðileggingu Grosníu Í LOK SÍÐUSTU ALDAR, eins og það ætti þá bara að vera löngu gleymt. ?! Er þetta stríð sem sagt búið í hugum Íslendinga? Er ekki verið að myrða og pynda fólk í Tjétsínu í dag?
Ég skil ekki hvernig við feit og fordekruð getum vogað okkur að hafa skoðun á því hvernig Tsétsénar og aðrar kúgaðar þjóðir eiga að haga sér. Ég er vitanlega illilega hrærð yfir þessum atburðum í Rússlandi, en það er samt ekki ljóst enn, hvað þá að það lægi ljóst fyrir síðasta laugardag, hverjum þetta blóðbað er í raun að kenna. Jú, blaðamaður Moggans fantasmerar eitthvað með að einhverjir arabar liggi í valnum. !? Fann hann þetta á heimasíðu W sjálfs, eða hvað? Og hvernig getur blaðamaður á Íslandi verið með vandlætingartón meðan móðir sem missti börnin sín minnir á það að Rússar hafi niðurlægt og myrt fleiri börn í Tjétsínu, en þeir í Rússlandi? Er einhver lógík í því að við lepjum upp áróðurinn að vestan, meðan fólkið sem horfir í augu dauðans, heldur sönsum og bendir á að sökudólgana sé kannski ekki svo augljóst mál að finna?
Getum við aðeins staldrað við og reynt að skilja hvers lags örvænting rekur fólk til að taka börn í gíslingu? Voru þeir kannski að reyna að fá áheyrn heimsins, þ.e. að vekja athygli á ömurlegu ástandinu heima fyrir án þess að Rússar voguðu sér að kála gíslunum með gasi áður en heimurinn fór að fylgjast með gíslatökunni, eins og var gert í leikhúsi Moskvu fyrir skömmu síðan? Þeir ímynduðu sér kannski að herinn legði aldrei til atlögu ef þeir hefðu börn fyrir framan sig?
Er ekki kominn tími til að íslensk dagblöð leyfi sér að hafa annan tón en W og Pútín viðhafa til að hylma yfir sínum eigin voðaverkum? Þeirra eilífa raus um alþjóðleg hryðjuverkagrýlusamtök heldur áfram þó þeir hafi þurft að játa á sig lygar og falsanir í sambandi við Írak og Afganistan.
Er ekki kominn tími til að við Íslendingar gerum okkur grein fyrir því að okkar ríki, okkar land, við, þjóðin sjálf, þú og ég, skrifum undir stuðning við ofbeldisverkin í Írak og eigum því yfir höfði okkar að þeir komi og hefni sín?
Vöknum Íslendingar! Vöknum til meðvitundar um að hvert líf á jörðu er dýrmætt, að við eigum ÖLL að vera jafn rétthá.
Ekki kynjajafnrétti heldur mannkynsjafnrétti.
Ekki peningavald, heldur mannauðsmáttur.
Ef breyta á heiminum, þarf að byrja smátt. Byrja þú í þínu höfði.
Lifið í friði.

6.9.04

kaldhæðni örlaganna

Í gær, sunnudag, var ég ekki með höfuðverk þegar ég vaknaði, þrátt fyrir að hafa drukkið áfengi í töluverðu magni kvöldið áður. Mjög óvanalegt fyrir mig. Ég var samt dálítið þunn, en það var samt bara alveg ágætt, þar sem börnin og karlinn voru að heiman.
Ég skrölti fram í eldhús og opnaði ísskápinn til að athuga hvað ég gæti nú fengið mér til að þykkja mig aðeins. Hvað gerðist, get ég ekki alveg verið viss um. Stingandi sársauki og hár hvellur er öruggt. Málið er að mér fannst hvellurinn koma á undan, en staðreyndin er sú að á gólfinu lá magnumflaska full af rauðvíni (magnum er tvöföld stærð eða 1,5 lítrar af víni), og að ég er með stóra kúlu á höfðinu. Sem mér var illt í allan daginn í gær og er illt í ennþá, ef ég kem við kúluna. Flaskan stóð uppi á ísskápnum og hefur staðið þar í a.m.k. tvær vikur.
Mér brá svo mikið að ég ímyndaði mér að ég væri höfuðkúpubrotin og að ég myndi deyja hægum dauðdaga þarna alein í eldhúsinu á fögrum sunnudegi. Ég hefði heldur viljað sleppa þessu atviki og vera bara með svona venjulegan þynnkuhöfuðverk.
En kaldhæðni örlaganna lætur ekki að sér hæða, eða hvað?

Lifið í friði.

Sólrún bókmenntarýnir

Sólrún, tveggja og hálfs árs, er upprennandi bókmenntarýnir. Hún tók bók frá föður sínum, Le philosophe et ses pauvres (heimskpekingurinn og fátæklingarnir hans), fletti í gegnum hana alla og sagði svo: "Ég er búin. Stafirnir eru svartir." Mér finnst þetta snilld, og gæti dugað sem umsögn um margar bækur sem ég þekki.
Gleðilegan mánudag.
Lifið í friði.

5.9.04

rulluf og guðni og friður

Hver man ekki söguna um manninn sem var að koma heim af barnum og krókódíllinn elti hann og endurtók í sífellu "fullur, fullur". Á endanum greip maðurinn krókódílinn og stakk hendinni inn í endann á honum og sneri honum um. Á eftir honum gekk áfam llídórkórk-inn og sagði "rulluf, rulluf"
æ, þið hefðuð átt að heyra mumma segja þennan í góðu stuði... hvað þið hafið nú misst af miklu öll hin... og hvað þið hljótið að njóta hin útvöldu sem munið...
Takk fyrir orðabelgi og fyrirgefið að ég get ekki svarað þeim í beinni.
élskykkuröll, KKK
ps. bravó Guðni Elísson fyrir pistilinn í Lesbók síðasta lau. Hann G er einn af fáum sem nær að fá mig til að hlægja upphátt rámum háum hlátri við lestur. Hann er snillingur og hugsar stórt og ætti náttla að skrifa skáld maðurinn!


Ímyndið ykkur heiminn án landamæra, án himins og jarðar og án stjórnmála, bara ég og þú.
Ég veit að þér finnst ég draumóramaður. En ég er ekki ein. Einn daginn muntu ganga til liðs við mig. Og heimurinn verður sem einn.
Lifið í friði í og utan við firði

1.9.04

íþróttir

Ég var alltaf dálítið utangarðs í minni fjölskyldu, þegar kom að íþróttaáhuga. Mamma og pabbi og systir mín sátu oft límd yfir einhverjum leikjum og hoppuðu og æptu þegar mark var skorað. Ég sat einhvers staðar aðeins frá, öryggis míns vegna, og fylgdist með þeim og skildi hvorki upp né niður í þessari hegðan.
Á laugardaginn var úrslitaleikur í handbolta kvenna á Ólympíuleikunum. Frönsku stúlkurnar komust því miður ekki lengra en í undanúrslit, svo að leikurinn var milli Danmerkur og Kóreu (suður, er það ekki? rugla alltaf suður og norður þarna í kóreu, hverjir eru vondir og hvar Seoul er og allt það... játa að þetta er ekkert til að vera stoltur af, en svona er það bara. Alveg eins og Frakkar SKILJA ekki muninn á Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Íslandi, bara ná honum ekki.) En ég sem sagt, alveg óforvarendis, festist fyrir framan þennan úrslitaleik. Viðurkenni að í þessu fólst ákveðinn flótti frá barnaumönnun, a.m.k. svona smá sálrænn flótti, ég fylgdist með leiknum um leið og ég gaf þeim að borða og kom þeim í rúmið. Og ég öskraði og æpti þegar fimmtán sekúndur voru eftir og þær kóreysku/kóresku skutu framhjá og aftur framlenging. Og svo vítaskotakeppni. Spennan var gífurleg, bæði liðin voru hreinlega ákveðin í að sigra, og gáfu ekkert eftir. En danska markvarslan í vítaskotahlutanum var svo stórkostleg að þær enduðu með að sigra. Og tár beggja liða hrærðu mig svo að ég stóð hér með sleif í annarri hendi og óhreinan smekk í hinni og grét með þeim öllum.
Það er ótrúlegt hvað allt sem vel er gert getur náð manni upp í góða tilfinningasveiflu. Góð bíómynd sem fjallar um hluti manni gersamlega óviðkomandi frá löndum sem maður þekkir ekki baun. Góð tónlist. Góður matur. Góður leikur. Ég hefði aldrei trúað því að ég ætti eftir að hugsa svonalagað eða skrifa það niður, en nú er maður bara orðinn svo þroskaður (þetta byrjaði allt saman í HM98 þegar Frakkar enduðu með að sigra og hér var þjóðhátíð í nokkra mánuði) að maður er bara farinn að viðurkenna íþróttir sem áhugavert fyrirbrigði.
Kannski að einn góðan veðurdag hlaupi ég maraþon með systur minni í Kúala Lumpur? Ég, Kristín, sem neitaði að vera í strigaskóm í leikfimi í MR og hljóp umhverfis tjörnina á scala-klossunum.
Lifið í friði.

sammála ó?

Já, það er nú alveg merkilegt hvað maður er oft sammála síðasta ræðumanni. Nei, þetta er alger vitleysa, gildir hvorki um mig, né svölu svaladóttur né dísudruslu, sem tekur það sérstaklega fram í sínum orðabelg. Við erum aldrei sammála neinum um neitt, en við þrjár erum sammála um það að vera aldrei sammála. Det er hele målet. En það er satt svala mín, að við höfum ekki oft rifist, þó nöldurgjarnar séum báðar tvær... hm...
Annars hef ég ekki margt né mikið að segja. Heimurinn er alltaf samur við sig. Geðsjúklingar reyna, í nafni Islam, að fá frönsk stjórnvöld til að breyta lögum sínum. Við skjálfum hér yfir örlögum blaðamannanna tveggja. Hefur annars eitthvað gerst í því? Sá ekki fréttir í gær. Kíkti á mbl áðan, og þá kemur texti um tafir á útgáfu og dreifingu í dag, en engar fréttir á netinu. Voru þeir nú að breyta einhverju sem ekki hentar mínum gamla jálki?
Fylgist með bloggi fransks brjálæðings sem á þessa setningu:
Það er rétt að jafnræði ríkir í Ameríku. Ríkir og fátækir éta sama skítinn. Ríkir borga bara meira fyrir hann. Equity! Equity!
Nú virðist sumarið hafa ákveðið að koma til Parísar, sól og hiti sem er alveg dásamlegt í september og hjálpar okkur að þola þennan erfiða tíma þegar allir koma heim úr fríinu alveg kolbrjálaðir þar sem fríið endar alltaf í þessum frægu umferðastöppum sem eyða í raun öllum sálarfriði sem fríið gaf. Umferðastöppurnar voru að þessu sinni heilbrigðar og góðar, þar sem þær voru blandaðar grænmeti og ávöxtum reiðra bænda. Ég elska það hvernig Frakkar segja það sem þeim finnst. Þetta vantar hjá Íslendingum. Ég legg til að húsmæður gangi í hóp inn í nýja og ferska Hagkaupsverslun og flokki óseljanlegt grænmeti úr borðunum og hlaði því upp við skrifstofu verslunarstjórans, sem er oft innan við kassana, svo þær lenda bara einu sinni upp á kant við lögin, þ.e. þær verða bara ákærðar fyrir að valda ónæði, en ekki fyrir þjófnað.
En nú þarf ég að fara að vinna. Vinnan er lífið. Lífið er saltfiskur.
Lifið í friði.