24.9.04

íslenskur lopi

Íslenski lopinn er SVO góður og það eina sem blívur þegar hitinn fer niður fyrir tíu gráður, já, mér er sem ég heyri ykkur glotta, ég veit að þið þarna uppi á skerinu í Norðri getið ekki séð neitt kalt við það, en ekki gleyma því að heimili mitt er óupphitað enn sem komið er þar sem hitunin er sameiginleg og líklega bíðum við eftir að klukkunni verði breytt yfir á vetrartímann eða eftir því að síðasta rósin fölni hér fyrir utan eða ég veit ekki hverju til að kveikja upp. Það liggur við að börnin séu látin sofa í lopanum, en lét þó dúnsængurnar og hlý náttföt duga. Þau sofa m.a.s. undir sængum sínum alla nóttina, sem er nýlunda.
Það eru til margar sögur um þjáða kalda Íslendinga í gisnum gömlum húsum í erlendri stórborg. Húsið mitt er ekkert voðalega gamalt né gisið, en mér er nú samt skítkalt. Því vil ég samúð ykkar þarna uppfrá í góðu upphituðu snjóhúsunum ykkar. Íshöllunum. Með dansandi álfana í garðinum. Og öll náttúrulega blindhaugafull af því það er föstudagskvöld.
Maður er búinn að lesa allt of mikið af afvegaleiðandi greinum um Ísland í frönsku pressunni út af þessari lista- og vísindahátíð sem gengur í garð í næstu viku. Við erum öll Björk og álfar og fyllibyttur.
Ég var að horfa á Femme fatale eftir Brian De Palma. Þrykkjufín afþreying. Þarf samt aðeins að fá að hugsa um hana áður en ég kveð lokadóm því hún er svo dæmalaust skrýtin að ég veit ekki hvort hún er karlrembuverk eða einhvers konar afsökunarbeiðni gagnvart afbökun konunnar í Film Noir-myndunum. Læt ykkur vita hvað ég ákveð ef ég einn daginn ákveð það. Ætli það sé hægt að fá örorkubætur fyrir að vera með lamaðan heila?
Lifið í friði.