kaldhæðni örlaganna
Í gær, sunnudag, var ég ekki með höfuðverk þegar ég vaknaði, þrátt fyrir að hafa drukkið áfengi í töluverðu magni kvöldið áður. Mjög óvanalegt fyrir mig. Ég var samt dálítið þunn, en það var samt bara alveg ágætt, þar sem börnin og karlinn voru að heiman.Ég skrölti fram í eldhús og opnaði ísskápinn til að athuga hvað ég gæti nú fengið mér til að þykkja mig aðeins. Hvað gerðist, get ég ekki alveg verið viss um. Stingandi sársauki og hár hvellur er öruggt. Málið er að mér fannst hvellurinn koma á undan, en staðreyndin er sú að á gólfinu lá magnumflaska full af rauðvíni (magnum er tvöföld stærð eða 1,5 lítrar af víni), og að ég er með stóra kúlu á höfðinu. Sem mér var illt í allan daginn í gær og er illt í ennþá, ef ég kem við kúluna. Flaskan stóð uppi á ísskápnum og hefur staðið þar í a.m.k. tvær vikur.
Mér brá svo mikið að ég ímyndaði mér að ég væri höfuðkúpubrotin og að ég myndi deyja hægum dauðdaga þarna alein í eldhúsinu á fögrum sunnudegi. Ég hefði heldur viljað sleppa þessu atviki og vera bara með svona venjulegan þynnkuhöfuðverk.
En kaldhæðni örlaganna lætur ekki að sér hæða, eða hvað?
Lifið í friði.
<< Home