1.9.04

íþróttir

Ég var alltaf dálítið utangarðs í minni fjölskyldu, þegar kom að íþróttaáhuga. Mamma og pabbi og systir mín sátu oft límd yfir einhverjum leikjum og hoppuðu og æptu þegar mark var skorað. Ég sat einhvers staðar aðeins frá, öryggis míns vegna, og fylgdist með þeim og skildi hvorki upp né niður í þessari hegðan.
Á laugardaginn var úrslitaleikur í handbolta kvenna á Ólympíuleikunum. Frönsku stúlkurnar komust því miður ekki lengra en í undanúrslit, svo að leikurinn var milli Danmerkur og Kóreu (suður, er það ekki? rugla alltaf suður og norður þarna í kóreu, hverjir eru vondir og hvar Seoul er og allt það... játa að þetta er ekkert til að vera stoltur af, en svona er það bara. Alveg eins og Frakkar SKILJA ekki muninn á Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Íslandi, bara ná honum ekki.) En ég sem sagt, alveg óforvarendis, festist fyrir framan þennan úrslitaleik. Viðurkenni að í þessu fólst ákveðinn flótti frá barnaumönnun, a.m.k. svona smá sálrænn flótti, ég fylgdist með leiknum um leið og ég gaf þeim að borða og kom þeim í rúmið. Og ég öskraði og æpti þegar fimmtán sekúndur voru eftir og þær kóreysku/kóresku skutu framhjá og aftur framlenging. Og svo vítaskotakeppni. Spennan var gífurleg, bæði liðin voru hreinlega ákveðin í að sigra, og gáfu ekkert eftir. En danska markvarslan í vítaskotahlutanum var svo stórkostleg að þær enduðu með að sigra. Og tár beggja liða hrærðu mig svo að ég stóð hér með sleif í annarri hendi og óhreinan smekk í hinni og grét með þeim öllum.
Það er ótrúlegt hvað allt sem vel er gert getur náð manni upp í góða tilfinningasveiflu. Góð bíómynd sem fjallar um hluti manni gersamlega óviðkomandi frá löndum sem maður þekkir ekki baun. Góð tónlist. Góður matur. Góður leikur. Ég hefði aldrei trúað því að ég ætti eftir að hugsa svonalagað eða skrifa það niður, en nú er maður bara orðinn svo þroskaður (þetta byrjaði allt saman í HM98 þegar Frakkar enduðu með að sigra og hér var þjóðhátíð í nokkra mánuði) að maður er bara farinn að viðurkenna íþróttir sem áhugavert fyrirbrigði.
Kannski að einn góðan veðurdag hlaupi ég maraþon með systur minni í Kúala Lumpur? Ég, Kristín, sem neitaði að vera í strigaskóm í leikfimi í MR og hljóp umhverfis tjörnina á scala-klossunum.
Lifið í friði.