24.9.04

kalt á tánum

Ég næ ekki úr mér einhverjum kuldahrolli. Sit hér í lopapeysu og vildi helst vera í ullarsokkum með grifflur á höndunum að pikka á tölvuna. Er búin að ferðast um aðrar bloggsíður í dag og fann fullt af skemmtilegum síðum. Þyrfti bara að kunna að setja svona bloggaralista á síðuna mína, en ég er klaufi og fæ ekki að skoða helpsíðuna hjá blogger. Nú bíð ég spennt eftir að vera komin til Íslands í fang litla bróður sem er tölvusnillingur og á að taka síðuna mína í gegn.
Svo bý ég vitanlega vonandi líka til Parísarsíðuna með ýmsum hagnýtum upplýsingum og svoleiðis.
Börnin ákváðu að fá sér ekki sinn daglega blund, og eru hér með Legó út um alla stofu meðan mamma er í tölvunni. Guði sé lof fyrir legókubba. Guði sé lof fyrir börn sem stækka og eru farin að leika sér soldiðsona saman stundum í smá stund. Reyndi að hvísla þetta á tölvuborðinu þar sem mín reynsla er sú að ef maður byrjar að hrósa þeim, breytast þau í skrímsli.
Við erum sem sagt á leið til Íslands 10. október og verðum í 3 vikur, ég og börnin. Karlinn verður eftir til að læra fyrir bókasafnsprófið sem hann ætlar í í nóvember. Í í, fáránlegt, en finn ekki aðra lausn. Jú, líklega ... sem hann ætlar í um miðjan nóvember. Betra.
Og þá gýs upp lykt sem er í samræmi við stunur og rautt og þrútið andlit. Best að fara að þrífa bossa.
Eitt enn í sambandi við menningu og þá er komin pistlaþrenning: Hvort er verra, snobbið í kringum menningu, eða fælni við menningu? Bæði jafnvont?
Lifið í friði.