11.9.04

niðurdregin

Ég er niðurdregin í dag. Ekki eitt einasta orð í belg í sambandi við pistilinn á undan, sem ég skrifaði skjálfandi af reiði og bjóst við hörðum viðbrögðum þar sem ég er á vissan hátt að fyrirgefa hryðjuverkamönnum sem drepa saklausa borgara. Hélt að fullt af lesendum myndu sýna reiðiviðbrögð á móti. Nei. Ekkert. Nada. Kannski les mig enginn? Kannski eru allar tölvur bilaðar? Kannski er ég bara svona déskoti sannfærandi og engum finnst neinu við mig að bæta?
Svo er ég líka niðurdregin af því að Ívar litli lenti í slysi þegar hann var að leika sér við Sólrúnu í gær meðan við mæðurnar sátum á kaffihúsi og fylgdumst með þeim. Fengum samviskubit um leið og við vitum að slys er bara slys og að þar sem við leyfum börnunum okkar að gera ýmislegt sem frönsk börn fá t.d. ekki að gera, er ákveðin hætta á að stundum fari illa. Ívar er með kramda og bláa hendi, og tvo putta bundna saman. Slysó hérna er hræðileg, veggirnir slitnir, flísar brotnar, hurðakarmar flagnaðir. Íslenskir læknar myndu líklega neita að vinna við svona aðstæður, en franska hjúkunarliðið og læknarnir voru öll mjög yndisleg og standa sig með prýði þrátt fyrir þennan ömurlega aðbúnað. Við vorum náttúrulega á spítalanum sem var byggður á 17. öld, Hôtel Dieu, sem mætti útleggja á íslensku sem hótel guð og ber nafnið vegna nálægðarinnar við guðshúsið Notre Dame, en ekki af nálægð gesta við gullna hliðið. En það virðist allt í lagi með hendina hans Ívars, ekki brotinn og hann var farinn að nota hana um kvöldið aftur. Ég nenni ekki að segja frá röntgenmyndatökunni, tvö stikkorð: org og sviti.
Svo er ég líka niðurdregin af því að börnin mín eru ekki með neitt leikskólapláss. Fáum að vita eitthvað meira með Kára 22. september, en vitum ekki hvenær við fáum að vita með Sólrúnu. Konan sem ræður, svarar ekki okkar þúsund skilaboðum.
Svo er ég líka pínu niðurdregin vegna þess að í dag er 3ja ára afmæli árásarinnar á tvíburaturnana, sem var undanfari stórra hörmunga fyrir fullt af saklausu fólki. Ömurlegt. Man einmitt vel að ég var þá ólétt af Sólrúnu og hugsaði til hvers maður væri eiginlega að eignast barn inn í svona heim. Til hvers? Vonandi getur maður a.m.k. búið til heilbrigða einstaklinga með virðingu fyrir mannslífinu og mannkynsjafnrétti.
En mér líður betur núna. Ekki eins niðurdregin eftir að hafa skrifað þetta niður. Líklega er bloggið mitt bara eins og hver önnur leynidagbók sem enginn les. En það er samt allt í lagi. Ég hef a.m.k. gaman að því að tjá mig hér og það er nóg.
Lifið í friði.