22.9.04

menning

Mikið hefur verið rætt og ritað um hvað menning er nákvæmlega. Ég hef enga töfraskilgreiningu á reiðum höndum, en mér þótti þó afskaplega undarlegt að sjá þetta á forsíðu Morgunblaðsins frá síðasta laugardegi:

Íslandsvinur í Survivor.
Einn keppendanna sigldi framhjá Bessastöðum.
MENNING.

Þetta er stórmerkilegt í einu og öllu. Í fyrsta lagi: Verður maður nú Íslandsvinur af því að sigla framhjá landinu okkar? Þurfa klúbbfélagar ekki einu sinni að stíga á land lengur? Hverjir verða skilmálarnir 2010? Verður þá nóg að hafa fengið tölvukeðjubréf sem farið hafði í gegnum íslenska tölvu? Mér hefur reyndar alltaf fundist þessi Íslandsvinaklúbbur skemmtilega fáránlegt fyrirbæri, og hef oft útskýrt það fyrir Frökkum þegar ég hef fundið þörf hjá mér fyrir að draga upp háðska mynd af landinu.
Í öðru lagi: "sigldi framhjá Bessastöðum" Þarf að hafa orð um þennan hluta?

Í þriðja lagi: MENNING. Hvað er menningarlegt við þetta? Að verið er að fjalla um sjónvarpsþátt og að allt sjónvarpsefni er "menning"? Að verið er að fjalla um Ísland, nánar tiltekið Bessastaði, og hlýtur þar af leiðandi að tengjast "menningu"? Hvar kemur menning inn í þætti eins og Survivor? Getur einhver hjálpað mér? Ég er týnd. Ég er búin á því. Ég get ekki meir.
Ég ætla hér með bara að segja það sem ameríska konan sagði við Lottu vinkonu fyrir utan Louvre-safnið í París, til útskýringar á því að hún nennti ekki inn í safnið með karlinum sínum:
I HATE CULTURE!

Lifið í friði. Og passið glerboltana ykkar. Takk fyrir orðabelgina, Gvendólína, Helga og Svala.