heimurinn og ég
Það er alveg undarlegt, að þó maður sé svona áhugasamur um það sem er að gerast út um allan heim, þó maður láti sig varða vandamálin í hinum heimshornunum, þó maður þjáist pínulítið út af sjúkdómum og hungri í Afríku og á götum Parísar, þó hjarta manns blæði fyrir stríðshrjáða í Írak, Tjétsínu og Súdan, þá er maður samt svo einfaldur og sjónarhornið í raun svo lítið, að það miðast gersamlega við manns eigin nafla.Ég hef verið að segja ferðalöngunum í París í sumar frá áhrifunum sem hitabylgjan hafði á okkur í fyrra, og frá myndunum sem við sáum í október/nóvember af flutningabílunum kældu sem voru að safna líkum sem var hrúgað inn í bílana, og frá öllum líkunum sem enginn vildi eiga. Þetta var allt saman mjög áhrifamikið og sorglegt, en fékk þó nýja vídd í huga mínum á laugardaginn var.
Arnaud rétti mér Télérama (sjónvarpsblaðið okkar) og sagði mér að lesa lítla umsögn um heimildarmynd sem átti að sýna þá um kvöldið. Heimildarmyndin heitir "Hinir gleymdu úr hitabylgjunni" (Les oubliés de la canilcule). Kvikmyndagerðarkona fór á stúfana og leitaði uppi þessa ættingja sem voru níddir niður í fjölmiðlum fyrir að neita að taka við líkum systra, mæðra eða jafnvel barna sinna. Vitanlega var rætt um það að útfarir eru mjög dýrar, og með því að taka við líkinu, tekur fólk á sig að greiða fyrir útförina. Málið er, að þessir ættingjar voru ekki að gera þetta í einhverri illsku, sagan á bak við lokadramað var löng og oft sársaukafull saga um yfirgefin börn sem sátu eftir með móður sem hafði varla efni á að gefa þeim að borða, um fólk sem var yfirgefið aftur og aftur, þessir sem myndin sýnir voru í raun allir að halda áfram að virða val manneskjunnar sem dó ein og yfirgefin og leyfa henni að hvíla einni og yfirgefinni í hálfgerðri fjöldagröf í úthverfi Parísar, alveg eins og hún kaus að lifa ein og yfirgefin án nokkurra tengsla við fjölskylduna.
Í greinarstúfnum eru nöfnin talin upp og þar var eitt nafn sem við hér á heimilinu þekkjum vel. Auguste Von Briesen. Brjálæðingurinn, listmálarinn, sem Arnaud vann fyrir í nokkrun tíma, sem bjó einn með úlfinum sínum í pínulitlu stúdíói á avenu Montaigne, fallegustu breiðgötunni í fallegustu borginni í fegursta landi Evrópu (þetta kemur frá honum sjálfum skv. dóttur hans í myndinni). Það fór ískaldur hrollur um mann þegar maður hugsaði til baka til ágúst í fyrra, að innan um öll þessi lík var eitt lík sem við þekktum, (þó ég hafi aldrei hitt hann hefur Arnaud verið duglegur að segja mér frá honum og Von Briesen er fígúra sem erfitt er að gleyma og er oft hafður í flimtingum á heimilinu). Auguste Von Briesen var fluttur í íbúð á vegum Parísarborgar þegar hann dó, og hefur því vonandi þurft að losa sig við úlfinn sinn. En líkið var vitanlega óþekkjanlegt þegar dóttir hans kom til að "bera kennsl á hann" um leið og henni barst bréfið frá borginni í hendur, daginn sem hún kom heim úr fríinu. Hún tók líkið og gróf föður sinn í "alvöru" kirkjugarði að viðstaddri fjölskyldunni. Hann er því ekki alveg einn hinna gleymdu, en þar sem hún mætti ekki fyrr en daginn sem stóra útförin átti að fara fram, birtist nafnið hans ásamt hinum nöfnunum 54 í blaðinu Le Parisien, og í kjölfarið birtust greinar um þennan gleymda listamann í ýmsum fjölmiðlum. Dóttirin er, ásamt systkinunum, þannig samt einn af þessum ættingjum sem "fer bara í frí í ágúst og skilur gamalmennið eftir aleitt og ófært að hugsa um að drekka nóg vatn þegar hætta er á að hitinn fari yfir öll eðlileg mörk". Vond vond, samkvæmt öllum fréttum um efnið í fyrra. (Nú er vert að segja frá fjölskyldunni í Suður Frakklandi sem hreinlega drekkti afanum, gáfu honum allt of mikið að drekka og líkaminn réði ekki við allan þennan vökva svo hann dó. Þarna á máltækið "of mikið af hinu góða" afskaplega vel við.)
En dóttirin segir frá því að Von Briesen hafði aldrei hugsað um velferð barna sinna og hafði m.a.s. dregið þau fyrir rétt fyrir nokkrum árum, til að reyna að fá út úr þeim peninga. Arnaud man einmitt eftir að hafa vélritað hótunarbréf til barna hans, eitthvað sem hann bað þá manninn um að forðast í framtíðinni, hann vildi ekki taka þátt í svona löguðu. Þau bjuggu alltaf í örlitlum stúdíóum við avenue Montaigne, og hann tók allt plássið fyrir sig og listina, þau voru í þriggja hæða kojum á göngum eða inni í eldhúsi, og áttu að dúsa þar og þegja þegar hann tók á móti gestum.
Hvað móðurina varðar, vitum við ekki neitt um hana. Von Briesen sagði aldrei orð um hana, og dóttirin í myndinni ekki heldur, hún sýnir ljósmynd af henni með ungabarni, en fer ekkert nánar út í það hvað varð um hana. Furðulegt og vert að kanna nánar.
En systkinin tóku sem sagt við karlinum látnum og veittu honum "heiðarlega" útför. Dóttirin segir þó, að ef hann sjálfur hefði mátt velja, hefði hann líklega heldur viljað vera fylgt til grafar af Jaques Chiraq en börnunum sínum, og Arnaud staðfestir þetta. Þannig má kannski segja að þau hafi náð fram einhvers konar hefnd. Með því að vera svona "ofsalega góð" tóku þau frá honum þessa opinberu útför sem fór mikinn í fjölmiðlum, og var hluti af afsökunarbeiðni Chiraq um að hafa yfirgefið ósjálfbjarga lýð sinn og eytt þessum erfiða heita ágústmánuði í svölu fjallaþorpi í Kanada.
Ég verð svo að segja sögu barna Von Briesen alveg til enda. Þau neituðu að taka við arfi, þar sem hann átti aðallega skuldir. Því fer fyrst nefnd frá ríkinu í íbúðina og hirðir allt sem seljanlegt er. Sem í hans tilviki voru vitanlega málverkin hans. Von Briesen hafði aldrei gefið börnum sínum málverk. Við fylgjum dótturinni svo þegar hún kemur í íbúðina hans, í fyrsta sinn eftir dauða hans, til að finna ljósmyndir og annað sem hún gæti haft áhuga á. Íbúðin er eins og FBI hafi komið að leita að eiturlyfjum. Öllu umsnúið og viðbjóðsleg aðkoma. Dóttirin grætur með ekkasogum, bæði vegna þessarar ömurlegu aðkomu (það var reyndar alltaf mikið drasl hjá honum, en ekki svona) og líka vegna þess að hún hafði aldrei komið í þessa íbúð sem hann bjó í síðustu tvö ár ævi sinnar, því hún hafði aldrei hitt hann eftir réttarhöldin sem hann tapaði gegn henni. Eftir að hafa fundið slatta af ljósmyndum, finnur hún, falið uppi á skáp, pakka með þremur málverkum sem hafa farið fram hjá nefndinni opinberu. Þannig fá börnin hvert sitt málverkið frá föður sínum, þ.e.a.s. ef nefndin horfði ekki á heimildarmyndina og gerir kröfu í verkin.
Það er einhvers konar yfirvofandi réttlæti í þessum skrýtna heimi sem byrjar í naflanum á mér. Einhvern veginn uppsker maður sem maður sáir, einhvern veginn fær maður greitt fyrir góða hluti og greiðir skuldirnar á endanum.
...er dauðinn sá mikli rukkari réttir oss
reikninginn yfir það sem var skrifað hjá oss.
Þá verður oss ljóst að framar ei frestur gefst,
né færi á að ráðstafa nokkru betur,
því alls sem lífið lánaði, dauðinn krefst...
Hitabylgjan var vond minning um vondan tíma í yndislegu París. Nú er hún kaldur raunveruleiki um dauða skrýtna karlsins okkar, Von Briesen. Önnur upplifun, annar raunveruleiki.
Myndin bendir á, að á hverjum degi eru þrír til fjórir einstaklingar grafnir í þessum opinbera kirkjugarði, og þar af er meirihlutinn fólk sem á íbúðir og peninga, það á bara engan til að grafa sig. Fólk sem hefur valið að skera á öll fjölskyldubönd og viljað lifa eitt. Það fer þó aldrei aleitt í jörðina, því hér eru starfandi samtök sem senda þrjár manneskjur á hverjum degi til að fylgja þessu eina fólki til grafar, til að forðast það að hægt verði að líta á leifar manneskju sem rusl.
Lengi lifi allir brjálæðingar, en munið að ef þið viljið ekki deyja ein, verðið þið að hlúa að sambandinu við fjölskylduna ykkar og vinina.
Lifið í friði.
<< Home