30.9.04

frí frí frí

Jibbí jei, ég er að fara í langþráð frí. Loksins! Mamma kemur í bæinn á morgun og við munum bruna til S-Frakklands í stórt hús í litlu þorpi rétt hjá Saint Emilion. Þar er 25 stiga hiti og sól í dag og er ég búin að ákveða að þannig verði öll næsta vika. Hver veit nema hægt verði að dýfa sér í laugina í garðinum? Eða slá nokkra tennisbolta í vegg á tennisvellinum? Eða hjóla um fagrar sveitir Bordeaux-svæðisins, gegnum vínekrurnar? Eða bara skutlast á bílnum niður á Atlandshafsströndina? MMMMmmmmmMMMMM Ég hlakka svo mikið til og er svo fegin að fara í frí, að ég er eiginlega að veikjast. Með hálsverki og beinbólgu. Nei, ég meina hálsbólgu og bein... æ þið vitið hvað ég meina. En mér er alveg sama. Ég svíf. Ég er að fara í frí.
Ég var aldrei búin að segja ykkur frá fjaðrafokinu sem framkvæmdastjóri TF1, valdamestu einkareknu sjónvarpsstöðvarinnar, þessari sem var fyrst ríkisstöð og var svo einkavædd fyrir nokkrum árum, þessari sem sýnir raunveruleikann á sama raunverulega hátt og DV gerir á Íslandi, dregur upp mynd af öllum ósómanum, klínir því á skjáinn og fær mesta áhorfið og halar inn helming allra sjónvarpsauglýsingatekna Frakklands, olli (jú, þetta er rétt setning þó hún sé dálítið Proustleg, fjaðrafokinu sem ... olli).
Í einhverri nýútkominni samtalsbók segir hann starf sitt felast í því að gera heila fólks móttækilegri fyrir auglýsingum. Þannig sé hans starf í raun og veru að selja kók.
Frakkar eru mikið fyrir að segja það sem þeim finnst, og því hefur mikið verið rætt og ritað um þessa hræðilega berorðu yfirlýsingu. Sumum þykir gott mál að hann skuli vera svona hreinskilinn, að hann skuli ÞORA að vera svona hreinskilinn, meðan öðrum finnst vegið að öllum sjónvarpsáhorfendum og heilum þeirra. M.a. voru haldin mótmæli fyrir utan aðalstöðvar TF1 um daginn, þar sem 30 ungmenni sátu með spjöld eftir að hafa lagt átta ferska kálfsheila við þröskuld aðaldyranna.
Auðvitað hreyfir svona setning við okkur, þó að við vitum vel sjálf að megnið af sjónvarpsefni sem okkur er boðið upp á, er okkur ekki bjóðandi, og hversu óþolandi það er að allt miðast við áhorfunartölur, sem er afleiðing auglýsingakapphlaupsins, sem er afleiðing kapítalismans.
Ég horfi eiginlega aldrei á TF1. Ekki vegna fordóma, heldur vegna þess að mér finnst þættirnir þeirra vera leiðinlegir, eða það sem ég les um þá vekur a.m.k. ekki áhuga minn. Ég nenni ekki að horfa á fólk gera upp fjölskyldudeilur eða koma út úr skápnum. Nenni ekki að horfa á sérvitringa sýna hvað þeir eru skrýtnir eins og konuna sem elskar hundinn sinn út af lífinu og vill fá að gefa honum nýra, eða manninn sem heldur að hann sé strætisvagn og fer um bæinn og býður fólki að hoppa upp á sig (bæði dæmin eru heimatilbúin og ég er mjög montin af þeim, vil gjarnan fá hrós í væntanlegum orðabelgjum).
Auðvitað hef ég ýmislegt sagt um þessa setningu og margt hugsað um hana. Mér finnst maðurinn mikilmennskubrjálæðingur. Hann á ekki að sýna tryggum áhorfendum stöðvarinnar hversu hrottalega hann lítur niður á þá. Hann á að halda áfram að leika leikinn um að það sem þeir sýna, sé það sem fólkið vill horfa á, hann sé þeirra þjónn. Ekki að hann sé að ræna þau heilanum, þó það sé auðvitað sannleikurinn. Okkur hlýtur öllum að líða betur í þjóðfélagi sem við teljum vera að vinna okkur í hag. Að Davíð og Björn og Gunnar og Jón og kannski ein og ein Katrín eða Jóna, séu að vinna í okkar þágu og fyrir almannaheill. Þó að innst inni vitum við að bröltið fjalli fyrst og fremst um vald og að vald fjalli fyrst og fremst um peninga.
Lýðurinn hefur rétt á því að geta látið eins og ekkert sé. Lifi skeytingarleysi, fáfræði og almenn skítsemi (af skítsama).

Þessi pistill byrjaði sem saklaus tilhlökkunarmeðdeiling, en endaði í hápólitísku orgi. Hvað gerðist eiginlega? Hvert er þessi heimur að fara eiginlega?

Lifið í friði.
p.s. Ekki gleyma að heila jörðina sem þið gangið á, og viti menn, einn góðan veðurdag verður jörðin góður staður.