30.9.04

sigur steindórs

Var á tónleikunum Hrafnagaldur Óðins eftir Sigurrós, Hilmar Örn o.fl.
Það var voðalega gaman í kokkteilboðinu á undan, enda tókst mér að drekka fjögur kampavínsglös sem nær ekki upp í mikinn hluta af flugmiðanum heim, en telst þokkalegur árangur miðað við að þeir virtust nú eitthvað vera að treina kampavínið (ekki til í byrjun (þar til ég kom), ekki til í miðju (nema fyrir mig) og svo var aðeins til þarna í endann, en öllum sagt að þetta væri síðasta flaskan...) þarna á tíundu hæð í Holiday Inn við Porte de Pantin.
En aðalmálið var vitanlega tónleikarnir sem voru fínir þó að ég hafi orðið fyrir örlitlum vonbrigðum. Sándið var ekki nýtt, þetta minnir á Preisner (æ sorrí ef nafnið er rangt, tónskáldið sem gerði tónlistina við Tvöfalt líf Veróniku) og tónlistina úr Rómeó og Júlíu nútímaútgáfunni. Popp og klassík í bland hljómar kannski alltaf eins en samt... svona melankólísk konurödd og mollar og tvíundir... æ, ég var skömmuð fyrir að vera með neikvæðni áðan af vinunum eftir tónleikana og svo held ég áfram hér... hætt núna.
Sigurvegari tónleikanna er hins vegar söngvarinn, rímnamaðurinn, galdrakarlinn Steindór. Frábær. Fallegur. Góður. Galdrakarlslegur. Mikil og sterk ára. Allt sem þurfti til að fylla upp í tómið sem fiðlurnar og ásláttartækin náðu ekki að fylla. Óborganlegur.

Ég væri alveg til í að búa með útsýni yfir périphérique, hraðbrautina sem umlykur borgina. Mér finnst svona streymandi fjarlæg bílaumferð hreint augnayndi.

Lifið í friði.