17.9.04

líttu vel út

Sá um daginn í búð í Mýrinni lítinn poka með pillu í, og á pokalokinu stóð: "Look good in your jeans". Ætti kannski að skreppa á eftir og kaupa mér eina.
Annars er helsta jákvæða við stóra fína rassinn minn að manninum mínum finnst hann flottur og segir alltaf þegar ég byrja að gera leikfimisæfingar og minnka við mig í mat, að ég megi ekki missa gramm aftan af mér.
Annars er ég ekki með mikla fitukomplexa. Aðalmálið er að ná maganum aðeins betur inn, hann lafir einhvern veginn skringilega niður eftir þessar tvær meðgöngur sem voru með stuttu millibili. Gömul kerling bað mig að hjálpa sér í búðinni um daginn að taka upp sex mjólkurfernur í pakka, en hikaði svo og sagði: "Nei, fyrirgefið, þér eruð ófrísk" Ég hló bara að henni og sagði að barnið væri komið út og að þetta væri ekkert mál. Auðvitað sagði ég henni ekki að barnið væri orðið tíu mánaða uppistandandi töffari. Vandamálið er bara að ég nenni ekki að gera magaæfingar. Mér finnst að maginn eigi bara að skilja það að nú sé komið nóg, hann eigi bara að fara. Nenni ekki að þurfa að hafa fyrir því að ná honum af. Mér finnst að styrkur hugans eigi að nægja til að breyta sér í laginu. Ég er sannfærð um að ef við gætum stýrt því auðveldlega hvernig við litum út, yrði minna um sjálfsmorð og þunglyndi og ég er líka sannfærð um að við myndum ekki öll líta út eins og barbí og ken þó auglýsendur vilji láta okkur halda að okkur dreymi um það. Lifi búlduleitar konur og mjóslegnir karlar!
Lifi hugarstyrkurinn.
Lifið í friði.