30.10.07

skyldulesning?

Þetta er áhugavert, vel skrifað og skýrt.

Ég er hins vegar óáhugaverð, skrifa illa og óskýrt og er líklega á leiðinni að fá magasár yfir þessu verkefni sem hvorki gengur né rekur. Sjaldan hef ég verið jafn svekkt yfir að vera að missa af tíma, svo stutt frá en kemst samt ekki.

Lifið í friði

27.10.07

mamma

Í gær varð mamma sextug og ég fagnaði vitanlega með henni.

Búin að fara í sund og borða pulsu. Ekki fá kókosbollu. Ef ekki væri fyrir þýðinguna myndi ég stefna til bloggarahittings í næstu viku, en það verður bara að vera í þarnæstu viku í staðinn.

Nema þið viljið koma á vínsmökkunarnámskeið núna á þriðjudag, sjá Vínskólinn.is, ég ætla að vera þar.

Næstu helgi fer ég svo aftur út til Parísar með hóp frá ÚRVAL ÚTSÝN og kem með honum til baka á mánudeginum til að fara svo aftur út á föstudeginum á eftir. Eins og hver annar jetsetter.

Spurningin er hvar og hvenær viljið þið hitta mig? Kókó á Mokka á þriðjudeginum síðdegis eða...?

Lifið í friði.

25.10.07

dregur til tíðinda II

en ekki alveg strax, bíðið róleg, mér líður ekkert smá skringilega, spennt en örþreytt, kvíðin en hlakka til

nei ég er ekki að fara að unga út þriðja barninu

Lifið í friði.

24.10.07

dregur til tíðinda

en ekki í kvöld heldur á morgun

dag skal að kveldi lofa sagði einhver, þessi var eiginlega svolítið mislukkaður því í öllu stressinu innihélt hann:
tveggja tíma bið eftir pípulagningarmanni sem lét ekki sjá sig, tuttugu mínútna töf í bílnum út af brunaliðinu án þess að nokkur eldur sæist, þá fögru sýn að sjá sjúkraflutningamenn koma með lík út úr blokk, á börum, vafið í teppi, yfirfulla verslunarmiðstöð, eru jólin á morgun eða hvað, litla skreppið varð ferlega erfitt, stress stress stress, ég er komin með ógeð á neyslusamfélaginu, já, hljómar frekar klisjukennt en það er nú samt meinið, ég er komin með ógeð á kaupandi fólki

ég sé töfalt, farin að sofa

En já, ég gleymdi: Börnin mín eru samt yndisleg. Þau björguðu því sem bjargað varð af þessum undarlega degi með uppátækjum, bröndurum, sögum og söngvum.

Lifið í friði.

hugmyndaviðrun

Ég var að spá í það hvort ég ætti ekki að setja upp síðu um Sarkozy á parisardaman.com.
Þar myndi ég telja upp eftirlætisveitingastaði hans og gefa upp heimilisföngin hans, hann á hús í Neuilly, forsetahöllin er við Champs Elysées og svo eru einhverjar misvelfengnar íbúðir hér og þar. Svo get ég tínt til áhugamál hans, sýnt myndir af konunum í lífi hans og líklega dettur mér eitthvað fleira í hug.
Þá geta þessar bitru en boðlegu konur úr bloggheimum komið til mín í heimsókn og veitt hann í net sín í leiðinni. Hann er ekki slæmur fengur, ef peningar skipta aðalmálinu, en kannski ekki alveg jafnspennandi ef þú vilt geta átt góðar og rólegar stundir með honum oft.

Spurningin er alltaf með þessa fráskildu: Eru þeir tilbúnir eða þurfa þeir bara öxl að gráta við? Ekki myndi ég vilja hafa Nicolas grenjandi á minni öxl.

Lifið í friði.

23.10.07

psst, nokkur ráð til verðandi bófa

Ég rakst á dálítið skemmtilegt í dag þegar ég var að safna orðum í þýðinguna mína. Þið þurfið að gúggla orðið úrrek og biðja um íslenskar síður eingöngu. Þá fáið þið PDF-skjal um innbrotatækni sem fjórða valkost. Mjög áhugavert og hlýtur að vera helvíti dýrt að starta þessu sporti.

Gaman af því eins og Þórður segir alltaf.

Lifið í friði.

p.s. ég reyndi eins og ég gat að setja inn tengil en þar sem þetta er PDF skjal gengur það ekki og klukkan er orðin næstum ellefu.

ah

Akkúrat þegar ég var að fríka út af stressi og komin að því að fá panikkast heyrist bréf detta inn í pósthólfið.
Þakkarbréf frá viðskiptavini sem er svo fallegt að skyndilega sé ég sólina betur, skynja ég haustfegurðina í trjánum sem ég er svo heppin að sjá út um gluggann minn og lífið brosir við mér.
Hver þarf tíma? Tíminn er það eina sem er ekki einu sinni til. Brettar upp ermar og tekist á við verkefnin. Þau klárast, eins og alltaf.

Lifið í friði.

smá

Getur einhver aaaaðeins hægt á tímanum? Bara smá? Bara í dag og á morgun?

Lifið í friði.

strætó

Þetta er alveg rétt hjá Vésteini.
Of mikil bílaumferð bitnar á okkur öllum. Íslendingar eru barnvæn þjóð, er það ekki? Er því ekki hægt að reyna að muna það að þetta er mál sem snertir komandi kynslóðir?

Lifið í friði.

22.10.07

hjónabandið

Ég hef engu sérstöku við þessa fínu greiningu að bæta nema þessu:

í sumar ræddum við systir mín og mágkona aðeins um hjónaband samkynhneigðra og orðanotkun. Ég játaði að það vefðist fyrir mér að kalla þær foreldra dótturinnar, þar sem mér þættu felast bæði karl og kona í orðinu. Þær mótmæltu mér og síðan hef ég ekki átt í neinum vandræðum með þetta. Smá æfing og þar með kom það.
Málvitund er mjög mikilvæg og spennandi en það er líka mjög auðvelt að aðlaga sig nýjum aðstæðum og breyta þessari vitund.

Ég get svo bara sagt að það að fylgjast með börnunum sem fæðast í kringum þær frumkvöðla Gullu og Guðrúnu (þær voru fyrstar að nýta sér þjónustu Storksins í Danmörku og hafa leiðbeint öðrum við það), er bara nákvæmlega eins og að fylgjast með öllum börnunum sem fæðast hjá "venjulegum" foreldrum. Sama eftirvæntingin, sama gleðin, sama fæðingarþunglyndið, sömu áhyggjur af kvillum og ekkert meira eða minna.
Ég skil ekki, ég bara skil það ekki, að fólk sé enn í dag að láta þessa hluti vefjast fyrir sér. Sumt er skrýtið í fyrstu en um leið og maður meðtekur þetta og ákveður að opna huga sinn og sýna skilning, er þetta ekkert svo skrýtið og kannski meira að segja bara næstum svekkjandi ofureðlilegt allt saman.

Litla frænka mín hefur ekkert umfram né skortir nokkuð það sem mín börn hafa. Hún á tvær mömmur en þau eiga mömmu og pabba. Það er allt og sumt og breytir í raun og veru ekki neinu. Hvort sem afdönkuðum fordómafullum kjánum líkar betur eða verr. Þau geta reynt til eilífðarnóns að bera fyrir sig rökleysum í stað þess að standa upp og viðurkenna vandamál sitt og reyna að vinna á því. Ég vona það fyrir þau sjálf að það takist einn daginn.

Lifið í friði.

21.10.07

kynin láta ekki að sér hæða

Börnin fóru í afmælið í gær með gjafirnar sem móðirin þurfti að þjást fyrir að kaupa á dögunum.
Þau áttu að vera í búningum og voru hvorugt í vafa um það hvað þau vildu vera. Sólrún fór í prinsessukjólinn sem amma gaf henni um árið og lét mig mála sig eins og mús í framan.
Kári vildi vera Spiderman og tókst okkur að fá lánaðan búning handa honum án mikillar fyrirhafnar.
Það er fínt að vera hér heima sem köngulóarstelpa og tíkarspenastrákur, en þegar þau mæta í veislur, vita þau greinilega hvernig á að líta út.

Lifið í friði.

spííderman


spííderman
Originally uploaded by parisardaman
þetta er sonur minn

prinsessumús


prinsessumús
Originally uploaded by parisardaman
þetta er ekki sonur minn

19.10.07

síldin ég

Eftir metróferð fram og til baka með 20 prósent tíðni ferða líður mér eins og ég hafi verið niðurlægð á einhvern hátt.
Í morgun var ég næstum því farin að grenja eftir troðninginn og ryskingarnar sem mynduðust þegar ég var að reyna að komast út úr helvítis lestinni, troðfullri. Fólkið sem stóð á pallinum var svo ákaft að troða sér inn að það ætlaði frekar að stíga ofan á okkur sem vildum út, en að víkja til hliðar augnablik. Mér var hrint. Fast. Það er mjög óþægileg reynsla.
Á leiðinni einhvers staðar tilkynnti einhver kerling allt í einu hátt og snjallt að hún myndi toga í neyðarhemilinn ef fólkið hætti ekki að reyna að ýta henni inn í vegginn (ef hægt er að tala um veggi á lestarskrokkum). Þá trylltust náttúrulega allir, einn stakk upp á að hún yrði rotuð, annar að við hentum henni út á næstu stöð. Sumir hlógu, flestir frussuðu af alvöru reiði. Mjög óþægileg reynsla.

Kannski ekki að ástæðulausu sem ég hef látið mig dreyma um stórt og fallegt anarkíst og andkapítalískt samyrkjubú í Austur Evrópu allan eftirmiðdaginn? Hverjir voru með? Hvenær á að slá til?

Lifið í friði.

Kári er með gosbrunn í hárinu

á myndinni hér fyrir neðan.

Maðurinn minn sá það ekki strax, vildi vera viss um að það hefði ekki farið framhjá ykkur hinum.

Lifið í friði.

18.10.07

strákur og stelpa


burt með kynjaskiptingu
Originally uploaded by parisardaman

leikföng II

Ég hafði ekki kíkt á Katrínu Önnu í smá tíma, einfaldlega vegna þess að ég verð alltaf svo þreytt þegar ég fer til hennar því athugasemdirnar eru svo ömurlegar. Hún er sem sagt sú sem ég var að vísa til um daginn þegar ég sagðist ekki skilja í fólki sem reynir að frelsa aumingjana.
Hún er með jafngildi 2000 orða um nákvæmlega það sem ég var að tala um í morgun.

Er þetta hægt? Mér finnst það ekki. En ég hef samt enga lausn og tel eftir sem áður vandann alls ekki liggja hjá auglýsingagerðarfólkinu heldur fólkinu sem býr til þessar vörur. Ekki kínversku þrælunum heldur fjárfestunum sem láta búa til þessar vörur.

Ég var að fara í gegnum myndir í gær, heldur betur kominn tími til að standa við það sem ég lofaði sjálfri mér þegar ég keypti stafræna vél, að prenta reglulega út, og þar rakst ég á skemmtilega mynd sem mun koma hingað inn síðar í dag.

Djöfull eruð þið óheppin, ég er bæði að vinna þýðingu og tvö skólaverkefni hérna kriss og kross. Kjöraðstæður til að blogga aðeins of mikið.

Lifið í friði.

leikföng

Í gær fór ég í svona alvöru risastóra dótabúð með börnin til að velja afmælisgjafir handa skólafélögum. Sólrún ætlaði að velja handa stelpunni (3) og Kári handa stráknum (5).
Á jarðhæð var ekkert dót fyrir eldri en eins árs, en hins vegar risa "gáfubarnadeild" með púsluspilum, tölvuleikjum, borðspilum, þrauta- og gátuleikjum, teikniblokkum og litum í öllum pakkastærðum og svo bókum.

Mér varð um og ó. Ekkert dót? Er kannski búið að ákveða að hætta að framleiða dót fyrir eldri krakkana? Eiga þau bara að sitja við púsluspil milli þess sem þau æfa sig í réttritun og reikningi?
En þá tók ég eftir stórum breiðum stiga sem lá niður í kjallara. Við fikruðum okkur varlega niður hann og við okkur blasti þessi líka undraheimur, barbí, póní, pleimó, legó, drekar, prinsessur, óargadýr, bílar (og það engir smá kaggar, Anna hefði notið sín vel), reiðhjól, hjólabretti, hlaupahjól, línuskautar...
Ef ég hafði haft einhverjar áhyggjur af því að vita muninn á stelpu- og strákadóti hurfu þær áhyggjur í stiganum. Kynjalínan var svo skýr að ég fékk strax snert af mígrenikasti af pirringi. Helmingur salarins er bleikur, hinn helmingurinn blár.
Lífið er einfalt, er það ekki?

Börnin mín voru lengi að velja og eftir að hafa reynt að pranga inn á mig dóti sem kostaði margfalt á við línurnar sem ég hafði sett mér, enduðu þau bæði á dóti sem var aðeins undir þeim svo ég gat verið ánægð.

En ég er eiginlega miður mín eftir þessa ferð. Katrín Anna og femínistar gagnrýna réttilega bæklinga verslunarmiðstöðvanna fyrir kynjaskiptingu og staðalímyndir. Ég spyr mig bara hvernig í ósköpunum á að komast hjá því? Klæða strákana í prinsessukjóla og fá þeim straujárnið í hendur? Er það ekki alveg jafn klisjukennt og hallærislegt?
Kannski þarf að beina spjótunum harðar að rótinni, þeim sem framleiða þetta drasl allt saman, bleikt og blátt fullorðinshermidót? Hver í fjáranum kaupir gufustraujárn handa barni í gjöf? Hvernig á auglýsingahönnuðurinn að setja slíkt í bæklingana?

Ég mæli heldur með búðum eins og Nature et Découvertes til að finna gjafir. Þessi ferð í stóru dótabúðina voru mistök sem ekki verða endurtekin á næstunni.

Lifið í friði.

17.10.07

þegar ég var elítan

Ég hef sjaldan orðið eins hissa og daginn sem vinkona mín rifjaði það upp að þegar hún kom til Parísar var henni sagt að hún yrði að komast í partý til Kristínar, að tékkað yrði á því fyrir hana hvort hún mætti ekki örugglega koma með, og allt þetta var hvíslað. Á Íslendingakvöldi á Kitty O'Shea.

Mín eigin upplifun á sömu aðstæðum var að ég bauð öllum sem nenntu að halda áfram í partý. Ég bjó í stórri íbúð og var partýljón og mér leist hreint ekki svo illa á að vera í hlutverki félagsheimilisforstöðukonunnar í París.

Ég var miður mín yfir því að hluti af hópnum sem kom ekki með í partý, kom ekki af því þeim var víst ekki boðið. Ég var miður mín yfir því að hafa verið einhvers konar elíta. Einhver trendí pía sem fólk var hálfhrætt við. Það var síst af öllu hlutverkið sem ég var að leika.

Svona getur manni mistekist leikurinn stundum.

Kannski veit elítufólk aldrei af því að það er elíta og kannski er einmitt hrunið úr elítuflokknum falið í því að verða meðvitaður um að tilheyra henni?

Æ, þegiðu og drekktu rjómann þinn!

Lifið í friði.

15.10.07

Villerí, villera

Ég skildi ekki allúsjónina hjá Hildigunni hérna fyrr en ég las þetta.
Verður það sem sagt trendið að fara og fá sér einn Villara eftir vinnu?

Lifið í friði.

hvað í andskotanum?

Ekki lítið sem ég varð glöð við að sjá ÁJ inni á Mikka Vef og ekki minna hissa þegar ég fylgdi tenglinum. Hvað kom eiginlega fyrir síðuna hans? Þarna eru m.a.s. tenglar á dónó svo nú geta sorpblöðin heima birt lista yfir viðbjóðsfólk sem tengir á síðu sem tengir á klám. Og ég á listanum.
Þetta er óþolandi.
Hvar er ÁJ? Er ég nokkuð ein um að sakna hans? Er hann farinn að blogga annars staðar?

Lifið í friði.

tjáningarvandamál

Ég er raddlaus.
Ekki hás, ekki rám.
RaddLAUS.
Týndi röddinni minni í einhverri skítapest.
Þó ég hati sjálfsvorkunn er ég svolítið í þeim gír einmitt núna. Sjálfsvorkunn er einmitt það sem maður á að stunda ef maður vill vera veikur og einn, sjálfsvorkunn er örugg leið til mislukkaðs lífs. Þess vegna forðast ég að leyfa mér að detta ofan í þann pytt. En stundum bresta einfaldlega allir varnargarðar og fyrr en varir er maður kominn á bólakaf.

Bara að skrifa þetta fær mig til að líða aðeins betur.

Hef ég einhvern tímann sagt að þessi bloggsíða væri gefandi? Að ég veitti úr mínum viskubrunni yfir sárþyrstar leitandi sálir? Ónei. Ég held ekki. Þessi bloggsíða mun frekar tæki fyrir mig til að misnota aðra. Koma með spurningar og fá svör. Fá vorkunn þegar mér finnst ég þurfa, klapp á bakið þegar mér finnst ég eiga það skilið. Þetta er kannski ekki viðeigandi en svona er ég nú illa innrætt.

Getur einhver komið og kviksett mig? Ég lofa að þykjast vera dauð allan tímann.

Lifið í friði.

12.10.07

leiksýningin heldur áfram, já

Stundum er ég spurð að því hvers vegna ég fari ekki í pólitík. Það er ákveðin ástæða fyrir því, sama ástæðan og fékk mig til að hverfa frá kvikmyndagerðardraumunum: Ég þoli ekki baktjaldamakk, baktal, spottatogun, grúppuplott og framapot. Ég gæti ekki tilheyrt neinum af flokkunum, staðið í neinu því sem þau standa í, nema náttúrulega kokkteilboðunum en það væri rangt að fara út í pólitík fyrir kampavínið, það sér hver heilvita maður.
Mér finnst þau öll koma illa út úr vaudeville-farsadrama síðustu daga. Þau hljóta öll að þurfa á brjóstsviðatöflum að halda, vesalings strengjabrúðurnar.

Annars hlustaði ég á alls konar útvarpsefni síðustu tvo daga, og horfði á fréttir sjónvarpsstöðvanna. Ég var náttúrulega að bilast á að lenda beint inni í þessari leiksýningu borgarfulltrúanna en þetta var áhugavert.
Það sem stendur upp úr er Páll Óskar. Hann segir já við sjálfan sig um leið og hann vaknar á morgnana. Já. Ekkert öskur með tilheyrandi slætti á brjóstkassa. Bara svona venjulegt (ekki einu sinni hommalegt) já. Þetta gerir hann til að minna sig á að hann er tilbúinn í öll þau verkefni sem honum bjóðast, og ef hann ræður ekki við þau mun hann finna manneskjur sem geta hjálpað honum. Kristín elskar Pál Óskar. Hann er sætur og góður og syngur vel. Ég hlustaði töluvert á Milljónamæringaplötuna hans 2002 með Sólrúnu pínulitla og sífellt í fangi mér. Þar standa tvö lög upp úr: Sólin og Copacabana. Dönsum! Já!

Lifið í friði.

11.10.07

tónlist í harðan disk

Ég er að pæla, er hægt að kaupa svona lítinn fallegan (straumlínulagaðir og fínir samkvæmt pakkningum) utanáliggjandi harðan disk sem yrði eingöngu nýttur til þess að hlaða allri tónlistinni minni á? Er þá ekkert mál að setja iTunes eða eitthvað annað inn á hann til að taka við því og stjórna spilun?
Ég verð að losa hillupláss, þetta er hætt að vera fyndið. Og helst dettur mér í hug að kópíera alla diskana okkar og setja þá svo í fallega (ekki straumlínulagaða þó) kassa niður í geymslu.
Ha? Er þetta möguleiki? Er þetta eitthvað sem fólk gerir? Er þetta kannski Feng Sjúí í þokkabót? Hvað þarf stóran disk fyrir 5 Benno-turna?

Lifið í friði.

10.10.07

botnleysi

Ég er búin að vera botnlaus í allan dag. Döðlur, kex, banani, jógúrt, allt inn á milli venjulegra og vel útilátinna matmálstíma.

En ég er líka búin að vera dugleg og nú fer ég út í sólina.

Lifið í friði.

mig vantar smá hjálp

Er einhvern tímann talað á X-inu? Einhver kvikmyndarýni eða annað? Eða bara stanslaus tónlist?
En á FM957?
Mig vantar tal á öðrum stöðvum en RÚV. Takk.

Lifið í friði.

molar, sjúgið eða bryðjið, ykkar er valið

Eldgömul vídeóspóla með ævintýrum Gúffa er það sem börnin velja þessa dagana.

Ég gat hlustað á fyrsta fyrirlesturinn í eigin tölvu í gær. Reyndar bara byrjunina, tímans vegna, en ég er ó, svo glöð. HÍ bregst við vandamálum og leysir þau. Ég var búin að gefa þeim til jóla þannig að þetta er framar öllum vonum.

Það er margt að gerast, margt að gerjast, spurning um að halda nú rétt á spöðunum, hugsa sig vel um, láta slag standa, taka ákvarðanir og standa við þær... say no more...

Ég trimmaði meira í gær en í síðustu viku þrátt fyrir mjög lélegan nætursvefn og mikla þreytu. Ég fór í svitaástandið, það lak af mér. Gott að hugsa um öll eiturefnin sem ég sendi út í umhverfið? Veit ekki... Svo var heldur betur tekið á í maga rass og lærum, spurning hvort ég komist fram úr, og þó, fór nú víst á klóið áðan og þar sem það er mér ekki minnisstætt hlýtur allt að vera í allra besta lagi.

Ég skil ekki bofs í REI-málinu. Ég skil ekki bofs í súlu madame ONO, hélt alltaf, í alvöru talað, að þetta væri grín. Jæja, ekki ætla ég að fara að mæla gegn friðarumleitunum og kannski eru allar aðferðir góðar aðferðir?

Mér líður óeðlilega vel. Leikfimin? En þessi dagur verður eins og aðrir dagar: Brjálað að gera. Ég verð seint ásökuð um að nýta ekki tímann vel þetta árið.

Lifið í friði.

6.10.07

laugardagsmorgunn í sollinum

Hesú marja hósei. Villtist aðeins inn á Moggablogg og líður eins og ég sé öll skítug, utan sem innan. Ég skil ekkert í sumu viti bornu fólki að vera að reyna að frelsa aumingjana, hvílík orkueyðsla og sóun.

Annars er ekkert fínt að frétta, svona fyrir utan almenna góða heilsu fjölskyldunnar meðan fólkið í kringum okkur stráfellur fyrir haustveirunni.

Ég ætla að skreppa í smá sveitaferð í sólarhring. Verð þá laus við að hlusta á manninn minn horfa á France gegn All Blacks.

Já já og jamm og jæja. Var rjóminn búinn?

Lifið í friði.

5.10.07

árétting

Ég átti afmæli í gær, ekki í dag en tek að sjálfsögðu við hamingjuóskum fram yfir helgina og jafnvel lengur ef þið viljið.

Ég er lengi búin að óska mér borvélarinnar og var búin að segja við manninn minn að hann mætti sko alveg gefa mér svoleiðis í afmælis- eða jólagjöf. Hins vegar myndi ég aldrei fyrirgefa honum að gefa mér ryksugu eða örbylgjuofn. Ég vil helst fá gjafir sem hafa notagildi en mér verður að geta þótt vænt um þær líka og borvélin mín gæti þess vegna fengið heiðurssæti í glerskápnum ásamt fallega postulíninu frá ömmu mannsins míns.
Svo fæ ég alveg pæjugjafir líka, svona fyrir ykkur sem gátuð haft áhyggjur af mér og mínum trukkalessutendensum. Vinkona mín (sú sem ekur á gangstéttum og fann bílastæðahús í Garðabænum, og lagði þar) gaf mér t.d. vörur úr uppáhaldsbúðinni minni, L'Occitane. Ég fór einmitt í unaðslegt bað í gær með ilmkúlum og spreyjaði svo á mig kölnarvatninu. Tengdamamma gefur mér líka alltaf einhverjar flíkur eða annað pæjó svo ég hef engar áhyggjur af því.

Ég bað mömmu og pabba um myndaorðabókina, þó með þeim fyrirvara að ég vil skoða hana fyrst, er eitthvað meira að frétta af villum í þeirri áhugaverðu bók?

Lifið í friði.

hlaðin gjöfum

Afmælisdeginum eyddi ég í að gera mállýskuverkefni. Klukkan 14 slökkti ég á öllum símum til að geta unnið. Ég á marga og góða vini og hefði alveg verið til í að spjalla við alla en námið gengur fyrir öllu þessa dagana.

Lauk verkefninu og öðru námsstússi klukkan 17.10. Það voru skilaboð á símsvörunum.

Þegar allir voru komnir heim eftir sína erfiðu daga var gjafaafhending. Ég fékk þennan og er að rifna úr monti. Minn er stærri en þinn.
Svo fékk ég líka perur í lesljósið mitt sem hefur verið ljóslaust í 3 vikur eða heila eilífð, man ekki hvort. Og spilastokk með Parísarmyndum. Ég er dekruð kona.
Á veitingahúsinu um kvöldið skrapp ég á snyrtinguna og þegar ég kom til baka beið mín umslag. Í því var ekki flugmiði til Túnis heldur loforð mannsins míns um að taka bílpróf. Skyndilega sá ég manninn minn í framtíðinni, með farsíma undir stýri, og líkaði miður. En fólk á víst að breytast, það ku vera þroskamerki. Ef hann fer að lesa bílablöð mun ég virkilega fara að hafa áhyggjur.

Ég ætlaði að nýta daginn til lesturs og hlustunar (í PC vina minna, brostnar vonir um breytingar í gær settu dálítinn skugga á afmælið). En kannski ég bori fyrst upp lampana sem ég keypti í IKEA fyrir langalöngu síðan.

Ég er 38 ára í líkama 18 ára unglings.

Lifið í friði.

4.10.07

fönix

Ég var að horfa á Phantom of the Paradise, í, tja, líklega þriðja skiptið. Þar er Phoenix, listakonan sem verður sjúklega háð áhorfendahópnum á einu giggi og vill meira og meira og meira.
Sígild mynd, ekki allra kannski, en mín í það minnsta. Ég skil eiginlega ekki hvers vegna enginn leikhópur hefur sett þetta upp á Íslandi, þrykkjusterk tónlist, fígúra sem jafnast alveg á við Rocky Horror gaurinn sem ég nenni ekki að fletta upp einmitt núna, fullt að gerast.

En það var ekki sá fönix sem ég ætlaði að benda á, heldur þessi hér.

Lifið í friði.

3.10.07

tvisvar

Ég vaknaði tvisvar í morgun.

Fyrst hrökk ég upp klukkan 6:06 við það að lögreglumaður ætlaði að fara að taka úr mér blóð því ég hafði ekið drukkin og valdið slysi. Frekar óþægilegur draumur sem byrjaði á ferð í Garðabæinn með Bryn sem vildi keyra á gangstéttum og lagði í bílastæðahús þó að nóg væri af stæðum. Svo var ég komin í matarboð hjá Atla og Steinunni í húsi foreldra hans og báðu þau mig um að ganga með barn fyrir sig. Ég komst við, mig langaði það en óttaðist það um leið, og geng út með Arnaud. Hann gengur beint að bílnum og ég spyr hann hvort ég eigi nokkuð að keyra því við fengum jú rauðvín með matnum. Svo yppi ég öxlum og hugsa að ef ég missi prófið geti ég ekki unnið og þá gangi ég með barnið fyrir vin minn. Ég bakka út úr stæðinu og niður brekku fulla af bílum í allar áttir og er bremsulaus og fer bakkandi á fullri ferð yfir stór gatnamót á rauðu og veld sem sagt slysinu. Þá er Gulla systir komin við hlið mér og við hlaupum út úr bílnum og að næstu lögreglustöð til að athuga hvort þeir viti eitthvað og sjáum stóra mynd af Gullu í aksjón í boltanum og vitum að þeir vita en að þeir haldi að Gulla sé hin seka. Ég geng þá inn, kynni mig, og segi að ég hafi verið bílstjórinn. Er sett í stól og byrjað að undirbúa blóðtökuna með tilheyrandi hnýtingum og slætti á æðar. Ég er hrædd við nálar svo það vakti mig líklega.

Svo var ég vakandi í klukkutíma, hlustaði á andardrátt og hrotur Arnaud, heyrði Sólrúnu fara að pissa og þar sem hún kom aldrei til baka fór ég og náði í hana þar sem hún var að fikta í tánum á sér sitjandi á klósettinu. Við kúrðum saman, Arnaud fór fram og bjó til kaffi handa mér en þegar hann kom með það var ég aftur á leið inn í draumaheima.
Var stödd í Pósthússtræti við Hótel Borg, fór inn á stóran pall við kaffihús til að komast yfir á Lækjargötu en pallurinn var of hár til að ég þyrði að stökkva niður en náði þó að hneykslast á því að ekki væri grindverk. Í Lækjargötu fór ég upp í strætisvagn og upp á efri hæðina. Það var trépallur sem var byrjaður að fúna og var ég næstum farin í gegn og náði að hengja mig á handriðið skíthrædd. Bílstjórinn ók eins og bavíani um Reykjavík og svo út á sjó og breyttist bíllinn vitanlega strax í skip. Túristar komu upp á efri hæðina og langaði mig til að vara þau við götunum í pallinum en vissi ekki hvernig ég átti að gera það. Stórir ískjakar birtust í kringum okkur og alltaf var glannaskapurinn jafnmikill. Skyndilega áttaði ég mig á því að bíl/skipstjórinn var í sjálfsmorðshugleiðingum og keyrði skipið beint inn í ljósan klettavegg. Skipið sporðreistist og byrjaði að sökkva með miklum látum. Við vorum þá komin inn í sal (ekki uppi á þilfari eins og fyrst) og fann ég þrýstinginn á eyrunum þegar við fórum á kaf. Ég ákvað að paníkera ekki, að ég væri sko ekki að upplifa neitt Titanic, að allt yrði í lagi en vaknaði samt þarna með andfælum kl. 8:16.
Kaffið var orðið kalt, svo ég pantaði nýjan bolla hjá manninum mínum sem ég er nú búin að drekka og tilbúin í daginn. Hann hlýtur að verða tvöfaldur, það hentar mér ágætlega.

Lifið í friði.

2.10.07

ha? hver? hvað meinarðu?

Ég hef líklega upplifað hraðasta og afkastamesta mánuð lífs míns núna í september. Og þó. Hef svo sem lent í skorpum áður, en í þessum mánuði telst mér til að eingöngu einn dagur hafi farið í almennilegt hangs. Sem er mjög óvanalegt fyrir mig.

Ég lít alls ekki á hangs sem tímasóun því í hangsi dúlla ég mér við að grípa í lesnar bækur, kíki á fjölmiðla, les upp gamlar og geymdar Lesbókargreinar og hef t.d. oft fengið hugmyndir að efni á hina síðuna mína á slíkum dægidögum.
Hætt er við að síðan sú muni ekki bæta við sig miklu efni þennan veturinn en þó veit maður aldrei, kannski ég skelli t.d. inn efni sem ég á hálftilbúið eins og njarðarkaflann? Á hann er komið ýmislegt skemmtilegt en þar vantar þó margt og hef ég því hikað við að setja hann inn á netið.

Það er gaman að vera námsmaður, en það er þó að vissu leyti erfitt að endurupplifa þessa sterku tilfinningu um að vera að svíkjast um í hvert sinn sem ekki er setið við. Og þó að í byrjun hafi mér liðið eins og skerptist á hugsun minni, mér fundist ég verða skipulagðari og afkastameiri, hefur undanfarna daga frekar borið á klaufaskap og utanviðsighegðun. Til dæmis brilleraði ég nýlega í athugasemdakerfi hjá Hjörvari sem vildi kanna skilning á orðinu sifjaspell. Ég veit ekki hvað fólk þar mun halda um mig.
Hanakamburinn í gær er líklega annað ágætt dæmi og m.a.s. tvíþætt því það sýnir að ég hef ekki einu sinni tíma til að fara í sturtu á morgnana sem hefur hingað til verið mér jafnnauðsynlegt og kaffibollinn (sem ég hef ekki lent í að þurfa að sleppa enda get ég þá alveg eins bara lagst niður og drepist).
Það eru áreiðanlega fleiri dæmi, en auðvitað er ég búin að gleyma þeim. Ég gleymi dálítið mörgu þessa dagana, meiru en vanalega, og var ég þó slæm.

Ég er þó ekki búin að gleyma einu: Aftur út að trimma í kvöld.

Lifið í friði.

1.10.07

hvað er hanakamburinn gamall?

Í gær var fjölskylduboð og klíndi ég því froðu í úrsérvaxið hár mitt.
Í morgun rauk ég út með mín fimm börn í skólann, það er í raun verkefni sem dugir mér fyrir daginn, en ég fór samt beint yfir til nágrannanna að hlusta á fyrirlestra og taka glósur.
Þegar ég kem hingað yfir til að fá mér að borða verður mér litið í spegil og sé að ég er með einhvers konar undarlega lagaðan hanakamb á höfðinu. Nú verð ég að spyrja mig: Var hann kominn þegar ég fór með börnin og afmæliskökurnar í skólann þar sem ég ræddi kumpánalega við kennara og aðstoðarfólk um daginn og veginn ásamt því að heilsa foreldrum gleðilega eins og ég geri mér ávallt far um?
Kom hann kannski eftir það en áður en ég hitti húsvörðinn og spjallaði við hann um íslenskunám í tölvum?
Var hann kannski bara nýkominn núna þegar ég hitti gömlu ekkjuna á jarðhæð og spjallaði við hana um reikninga og hvað við værum ríkar ef pósturinn væri ekki borinn út?

Ég veit það ekki og líklega er það best.

Ég ætla að fá mér súkkulaði til að hlusta á næstu tvo fyrirlestra. Ég á það fyllilega skilið. Ég er dökkt súkkulaði, en þú?

Lifið í friði.