12.10.07

leiksýningin heldur áfram, já

Stundum er ég spurð að því hvers vegna ég fari ekki í pólitík. Það er ákveðin ástæða fyrir því, sama ástæðan og fékk mig til að hverfa frá kvikmyndagerðardraumunum: Ég þoli ekki baktjaldamakk, baktal, spottatogun, grúppuplott og framapot. Ég gæti ekki tilheyrt neinum af flokkunum, staðið í neinu því sem þau standa í, nema náttúrulega kokkteilboðunum en það væri rangt að fara út í pólitík fyrir kampavínið, það sér hver heilvita maður.
Mér finnst þau öll koma illa út úr vaudeville-farsadrama síðustu daga. Þau hljóta öll að þurfa á brjóstsviðatöflum að halda, vesalings strengjabrúðurnar.

Annars hlustaði ég á alls konar útvarpsefni síðustu tvo daga, og horfði á fréttir sjónvarpsstöðvanna. Ég var náttúrulega að bilast á að lenda beint inni í þessari leiksýningu borgarfulltrúanna en þetta var áhugavert.
Það sem stendur upp úr er Páll Óskar. Hann segir já við sjálfan sig um leið og hann vaknar á morgnana. Já. Ekkert öskur með tilheyrandi slætti á brjóstkassa. Bara svona venjulegt (ekki einu sinni hommalegt) já. Þetta gerir hann til að minna sig á að hann er tilbúinn í öll þau verkefni sem honum bjóðast, og ef hann ræður ekki við þau mun hann finna manneskjur sem geta hjálpað honum. Kristín elskar Pál Óskar. Hann er sætur og góður og syngur vel. Ég hlustaði töluvert á Milljónamæringaplötuna hans 2002 með Sólrúnu pínulitla og sífellt í fangi mér. Þar standa tvö lög upp úr: Sólin og Copacabana. Dönsum! Já!

Lifið í friði.