18.10.07

leikföng

Í gær fór ég í svona alvöru risastóra dótabúð með börnin til að velja afmælisgjafir handa skólafélögum. Sólrún ætlaði að velja handa stelpunni (3) og Kári handa stráknum (5).
Á jarðhæð var ekkert dót fyrir eldri en eins árs, en hins vegar risa "gáfubarnadeild" með púsluspilum, tölvuleikjum, borðspilum, þrauta- og gátuleikjum, teikniblokkum og litum í öllum pakkastærðum og svo bókum.

Mér varð um og ó. Ekkert dót? Er kannski búið að ákveða að hætta að framleiða dót fyrir eldri krakkana? Eiga þau bara að sitja við púsluspil milli þess sem þau æfa sig í réttritun og reikningi?
En þá tók ég eftir stórum breiðum stiga sem lá niður í kjallara. Við fikruðum okkur varlega niður hann og við okkur blasti þessi líka undraheimur, barbí, póní, pleimó, legó, drekar, prinsessur, óargadýr, bílar (og það engir smá kaggar, Anna hefði notið sín vel), reiðhjól, hjólabretti, hlaupahjól, línuskautar...
Ef ég hafði haft einhverjar áhyggjur af því að vita muninn á stelpu- og strákadóti hurfu þær áhyggjur í stiganum. Kynjalínan var svo skýr að ég fékk strax snert af mígrenikasti af pirringi. Helmingur salarins er bleikur, hinn helmingurinn blár.
Lífið er einfalt, er það ekki?

Börnin mín voru lengi að velja og eftir að hafa reynt að pranga inn á mig dóti sem kostaði margfalt á við línurnar sem ég hafði sett mér, enduðu þau bæði á dóti sem var aðeins undir þeim svo ég gat verið ánægð.

En ég er eiginlega miður mín eftir þessa ferð. Katrín Anna og femínistar gagnrýna réttilega bæklinga verslunarmiðstöðvanna fyrir kynjaskiptingu og staðalímyndir. Ég spyr mig bara hvernig í ósköpunum á að komast hjá því? Klæða strákana í prinsessukjóla og fá þeim straujárnið í hendur? Er það ekki alveg jafn klisjukennt og hallærislegt?
Kannski þarf að beina spjótunum harðar að rótinni, þeim sem framleiða þetta drasl allt saman, bleikt og blátt fullorðinshermidót? Hver í fjáranum kaupir gufustraujárn handa barni í gjöf? Hvernig á auglýsingahönnuðurinn að setja slíkt í bæklingana?

Ég mæli heldur með búðum eins og Nature et Découvertes til að finna gjafir. Þessi ferð í stóru dótabúðina voru mistök sem ekki verða endurtekin á næstunni.

Lifið í friði.