5.10.07

hlaðin gjöfum

Afmælisdeginum eyddi ég í að gera mállýskuverkefni. Klukkan 14 slökkti ég á öllum símum til að geta unnið. Ég á marga og góða vini og hefði alveg verið til í að spjalla við alla en námið gengur fyrir öllu þessa dagana.

Lauk verkefninu og öðru námsstússi klukkan 17.10. Það voru skilaboð á símsvörunum.

Þegar allir voru komnir heim eftir sína erfiðu daga var gjafaafhending. Ég fékk þennan og er að rifna úr monti. Minn er stærri en þinn.
Svo fékk ég líka perur í lesljósið mitt sem hefur verið ljóslaust í 3 vikur eða heila eilífð, man ekki hvort. Og spilastokk með Parísarmyndum. Ég er dekruð kona.
Á veitingahúsinu um kvöldið skrapp ég á snyrtinguna og þegar ég kom til baka beið mín umslag. Í því var ekki flugmiði til Túnis heldur loforð mannsins míns um að taka bílpróf. Skyndilega sá ég manninn minn í framtíðinni, með farsíma undir stýri, og líkaði miður. En fólk á víst að breytast, það ku vera þroskamerki. Ef hann fer að lesa bílablöð mun ég virkilega fara að hafa áhyggjur.

Ég ætlaði að nýta daginn til lesturs og hlustunar (í PC vina minna, brostnar vonir um breytingar í gær settu dálítinn skugga á afmælið). En kannski ég bori fyrst upp lampana sem ég keypti í IKEA fyrir langalöngu síðan.

Ég er 38 ára í líkama 18 ára unglings.

Lifið í friði.