2.10.07

ha? hver? hvað meinarðu?

Ég hef líklega upplifað hraðasta og afkastamesta mánuð lífs míns núna í september. Og þó. Hef svo sem lent í skorpum áður, en í þessum mánuði telst mér til að eingöngu einn dagur hafi farið í almennilegt hangs. Sem er mjög óvanalegt fyrir mig.

Ég lít alls ekki á hangs sem tímasóun því í hangsi dúlla ég mér við að grípa í lesnar bækur, kíki á fjölmiðla, les upp gamlar og geymdar Lesbókargreinar og hef t.d. oft fengið hugmyndir að efni á hina síðuna mína á slíkum dægidögum.
Hætt er við að síðan sú muni ekki bæta við sig miklu efni þennan veturinn en þó veit maður aldrei, kannski ég skelli t.d. inn efni sem ég á hálftilbúið eins og njarðarkaflann? Á hann er komið ýmislegt skemmtilegt en þar vantar þó margt og hef ég því hikað við að setja hann inn á netið.

Það er gaman að vera námsmaður, en það er þó að vissu leyti erfitt að endurupplifa þessa sterku tilfinningu um að vera að svíkjast um í hvert sinn sem ekki er setið við. Og þó að í byrjun hafi mér liðið eins og skerptist á hugsun minni, mér fundist ég verða skipulagðari og afkastameiri, hefur undanfarna daga frekar borið á klaufaskap og utanviðsighegðun. Til dæmis brilleraði ég nýlega í athugasemdakerfi hjá Hjörvari sem vildi kanna skilning á orðinu sifjaspell. Ég veit ekki hvað fólk þar mun halda um mig.
Hanakamburinn í gær er líklega annað ágætt dæmi og m.a.s. tvíþætt því það sýnir að ég hef ekki einu sinni tíma til að fara í sturtu á morgnana sem hefur hingað til verið mér jafnnauðsynlegt og kaffibollinn (sem ég hef ekki lent í að þurfa að sleppa enda get ég þá alveg eins bara lagst niður og drepist).
Það eru áreiðanlega fleiri dæmi, en auðvitað er ég búin að gleyma þeim. Ég gleymi dálítið mörgu þessa dagana, meiru en vanalega, og var ég þó slæm.

Ég er þó ekki búin að gleyma einu: Aftur út að trimma í kvöld.

Lifið í friði.