3.10.07

tvisvar

Ég vaknaði tvisvar í morgun.

Fyrst hrökk ég upp klukkan 6:06 við það að lögreglumaður ætlaði að fara að taka úr mér blóð því ég hafði ekið drukkin og valdið slysi. Frekar óþægilegur draumur sem byrjaði á ferð í Garðabæinn með Bryn sem vildi keyra á gangstéttum og lagði í bílastæðahús þó að nóg væri af stæðum. Svo var ég komin í matarboð hjá Atla og Steinunni í húsi foreldra hans og báðu þau mig um að ganga með barn fyrir sig. Ég komst við, mig langaði það en óttaðist það um leið, og geng út með Arnaud. Hann gengur beint að bílnum og ég spyr hann hvort ég eigi nokkuð að keyra því við fengum jú rauðvín með matnum. Svo yppi ég öxlum og hugsa að ef ég missi prófið geti ég ekki unnið og þá gangi ég með barnið fyrir vin minn. Ég bakka út úr stæðinu og niður brekku fulla af bílum í allar áttir og er bremsulaus og fer bakkandi á fullri ferð yfir stór gatnamót á rauðu og veld sem sagt slysinu. Þá er Gulla systir komin við hlið mér og við hlaupum út úr bílnum og að næstu lögreglustöð til að athuga hvort þeir viti eitthvað og sjáum stóra mynd af Gullu í aksjón í boltanum og vitum að þeir vita en að þeir haldi að Gulla sé hin seka. Ég geng þá inn, kynni mig, og segi að ég hafi verið bílstjórinn. Er sett í stól og byrjað að undirbúa blóðtökuna með tilheyrandi hnýtingum og slætti á æðar. Ég er hrædd við nálar svo það vakti mig líklega.

Svo var ég vakandi í klukkutíma, hlustaði á andardrátt og hrotur Arnaud, heyrði Sólrúnu fara að pissa og þar sem hún kom aldrei til baka fór ég og náði í hana þar sem hún var að fikta í tánum á sér sitjandi á klósettinu. Við kúrðum saman, Arnaud fór fram og bjó til kaffi handa mér en þegar hann kom með það var ég aftur á leið inn í draumaheima.
Var stödd í Pósthússtræti við Hótel Borg, fór inn á stóran pall við kaffihús til að komast yfir á Lækjargötu en pallurinn var of hár til að ég þyrði að stökkva niður en náði þó að hneykslast á því að ekki væri grindverk. Í Lækjargötu fór ég upp í strætisvagn og upp á efri hæðina. Það var trépallur sem var byrjaður að fúna og var ég næstum farin í gegn og náði að hengja mig á handriðið skíthrædd. Bílstjórinn ók eins og bavíani um Reykjavík og svo út á sjó og breyttist bíllinn vitanlega strax í skip. Túristar komu upp á efri hæðina og langaði mig til að vara þau við götunum í pallinum en vissi ekki hvernig ég átti að gera það. Stórir ískjakar birtust í kringum okkur og alltaf var glannaskapurinn jafnmikill. Skyndilega áttaði ég mig á því að bíl/skipstjórinn var í sjálfsmorðshugleiðingum og keyrði skipið beint inn í ljósan klettavegg. Skipið sporðreistist og byrjaði að sökkva með miklum látum. Við vorum þá komin inn í sal (ekki uppi á þilfari eins og fyrst) og fann ég þrýstinginn á eyrunum þegar við fórum á kaf. Ég ákvað að paníkera ekki, að ég væri sko ekki að upplifa neitt Titanic, að allt yrði í lagi en vaknaði samt þarna með andfælum kl. 8:16.
Kaffið var orðið kalt, svo ég pantaði nýjan bolla hjá manninum mínum sem ég er nú búin að drekka og tilbúin í daginn. Hann hlýtur að verða tvöfaldur, það hentar mér ágætlega.

Lifið í friði.