22.10.07

hjónabandið

Ég hef engu sérstöku við þessa fínu greiningu að bæta nema þessu:

í sumar ræddum við systir mín og mágkona aðeins um hjónaband samkynhneigðra og orðanotkun. Ég játaði að það vefðist fyrir mér að kalla þær foreldra dótturinnar, þar sem mér þættu felast bæði karl og kona í orðinu. Þær mótmæltu mér og síðan hef ég ekki átt í neinum vandræðum með þetta. Smá æfing og þar með kom það.
Málvitund er mjög mikilvæg og spennandi en það er líka mjög auðvelt að aðlaga sig nýjum aðstæðum og breyta þessari vitund.

Ég get svo bara sagt að það að fylgjast með börnunum sem fæðast í kringum þær frumkvöðla Gullu og Guðrúnu (þær voru fyrstar að nýta sér þjónustu Storksins í Danmörku og hafa leiðbeint öðrum við það), er bara nákvæmlega eins og að fylgjast með öllum börnunum sem fæðast hjá "venjulegum" foreldrum. Sama eftirvæntingin, sama gleðin, sama fæðingarþunglyndið, sömu áhyggjur af kvillum og ekkert meira eða minna.
Ég skil ekki, ég bara skil það ekki, að fólk sé enn í dag að láta þessa hluti vefjast fyrir sér. Sumt er skrýtið í fyrstu en um leið og maður meðtekur þetta og ákveður að opna huga sinn og sýna skilning, er þetta ekkert svo skrýtið og kannski meira að segja bara næstum svekkjandi ofureðlilegt allt saman.

Litla frænka mín hefur ekkert umfram né skortir nokkuð það sem mín börn hafa. Hún á tvær mömmur en þau eiga mömmu og pabba. Það er allt og sumt og breytir í raun og veru ekki neinu. Hvort sem afdönkuðum fordómafullum kjánum líkar betur eða verr. Þau geta reynt til eilífðarnóns að bera fyrir sig rökleysum í stað þess að standa upp og viðurkenna vandamál sitt og reyna að vinna á því. Ég vona það fyrir þau sjálf að það takist einn daginn.

Lifið í friði.