19.10.07

síldin ég

Eftir metróferð fram og til baka með 20 prósent tíðni ferða líður mér eins og ég hafi verið niðurlægð á einhvern hátt.
Í morgun var ég næstum því farin að grenja eftir troðninginn og ryskingarnar sem mynduðust þegar ég var að reyna að komast út úr helvítis lestinni, troðfullri. Fólkið sem stóð á pallinum var svo ákaft að troða sér inn að það ætlaði frekar að stíga ofan á okkur sem vildum út, en að víkja til hliðar augnablik. Mér var hrint. Fast. Það er mjög óþægileg reynsla.
Á leiðinni einhvers staðar tilkynnti einhver kerling allt í einu hátt og snjallt að hún myndi toga í neyðarhemilinn ef fólkið hætti ekki að reyna að ýta henni inn í vegginn (ef hægt er að tala um veggi á lestarskrokkum). Þá trylltust náttúrulega allir, einn stakk upp á að hún yrði rotuð, annar að við hentum henni út á næstu stöð. Sumir hlógu, flestir frussuðu af alvöru reiði. Mjög óþægileg reynsla.

Kannski ekki að ástæðulausu sem ég hef látið mig dreyma um stórt og fallegt anarkíst og andkapítalískt samyrkjubú í Austur Evrópu allan eftirmiðdaginn? Hverjir voru með? Hvenær á að slá til?

Lifið í friði.